Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:33:31 (1695)

1995-12-07 15:33:31# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. ef hún heldur að ég hafi ekki lesið þetta frv. Ég las líka grg. Ég held að einhver villa hafi slæðst inn í grg. og það er engin Höllustaðahagfræði sem stendur á bls. 5 í grg. Ég vil bara taka það fram. Höllustaðahagfræðin er hins vegar á bls. 3 í grg. og hún er studd skýrslum þeirra færustu sérfræðinga sem ég hafði tiltæka til að kanna málið. Það er ekki um þrengingu að ræða í úrræðum. Komið er með ný úrræði í þessu máli í húsbréfakerfinu og gefinn er kostur á lengri húsbréfum. Það er gefinn kostur á nýjum úrræðum fyrir þá sem eru í skuldum og þau framlengd sem voru sett til bráðabirgða. En eins og menn hafa náttúrlega tekið eftir er þetta frv. ekki um vaxtabætur og því var aldrei ætlað að vera það.