Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:34:41 (1696)

1995-12-07 15:34:41# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru fáein atriði í viðbót vegna svarræðu hæstv. félmrh. Í tvennu tilliti vil ég taka undir með hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi það sem hann sagði hér um leiguíbúðir. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um að skynsamlegasta úrræðið gagnvart þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir og verður auðvitað ekki breytt í einum svip er að leita leiða til þess að auka framboð á hagstæðu og tryggu leiguhúsnæði. Það er sú aðgerð sem getur að mínu mati komið fyrst og best til móts við vanda fjölmargra sem ráða ekki með neinu móti við að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið eins og launakjörum er háttað nú í landinu eins og kostnaður er á húsnæðislánum og verð á fasteignamarkaði eða þá byggingarkostnaður nýrra íbúða.

Í raun vantar sem almennt úrræði í húsnæðismálum okkar að það sé kostur fyrir fólk, jafnvel til lífstíðar, að búa í sæmilega hagstæðu leiguhúsnæði, þeim sem það vilja frekar. Auðvitað stendur þannig á hjá fjölmörgum í lífinu á ákveðnu tímabili að minnsta kosti, að það hentar fólki best að leigja. Ef menn stunda nám eða tímabundna atvinnu eða hafa ekki gert það upp við sig hvar þeir vilja eiga sér varanlega búsetu í landinu er auðvitað heppilegast að eiga kost á sæmilega hagstæðu og tryggu leiguhúsnæði. Það liggur líka í hlutarins eðli að allra tekjulægstu fjölskyldurnar í landinu hafa í raun engan afgang til að mynda eign í húsnæði. Þá þarf að taka tillit til þess með sem allra hagstæðustum kjörum á því húsnæði sem það fólk býr í.

Í öðru lagi tek ég undir það sem ráðherra sagði um gjaldþrot. Það frumstæða kerfi sem við búum við er auðvitað einn angi þessa mál að fólk sem er komið í vanda með sín persónulegu fjármál á oft og tíðum enga leið út úr því þó það sé algerlega eignalaust og gjaldþrotaskipti þjóni engum tilgangi öðrum en að taka mannréttindi af þessu fólki er það samt sem áður knúið í þá aðgerð. Það er auðvitað stórkostlegur ljóður á skipan þessara mála hjá okkur og það snýr auðvitað líka að fyrirtækjum að menn skuli vera af þessum ástæðum neyddir í gjörsamlega tilgangslaus gjaldþrotaskipti sem engum tilgangi þjónar þar sem ekkert er út úr búinu að hafa. Þetta þekkja menn og þarf ekki að fara mörgum orðum um en er sárara og erfiðara upp á að horfa þegar það snýr að einstaklingum sem margir hverjir bera aldrei síðan sitt barr eftir þá útreið.

Í þriðja lagi kem ég inn á það sem hæstv. ráðherra sagði um húsbréfakerfið. Nú upplýstist það að rétt var farið með, að hæstv. ráðherra var a.m.k. í hópi efamsemdarmanna um ágæti húsbréfakerfisins og deildi þá m.a. þeim efasemdum með þeim sem hér talar. Ég tók aldrei trú á húsbréfakerfið. Ég hafði aldrei sannfæringu fyrir því að það ljóta mundi ekki einmitt gerast, þ.e. að afföll yrðu til á pappírunum. Það var m.a. ástæðan fyrir því að þegar pólitískt samkomulag var gert á sínum tíma, sem ég hygg nú að við báðir, ég og hæstv. núv. félmrh., berum nokkra ábyrgð á, gerði ég fyrir mitt leyti að skilyrði að það yrði gert samsíða útlánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Það var það pólitíska samkomulag sem til grundvallar lá á sínum tíma auk þess sem menn sóru og sárt við lögðu að vaxtabætur mundu bæta upp þann mun sem væri á vaxtakjörum í húsbréfakerfinu og það var ætlunin að áfram yrði opinn almennur útlánaflokkur úr Byggingarsjóði ríkisins til handa þeim sem væru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Það var síðan ákvörðun næstu ríkisstjórnar þar á eftir og þáv. hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur, að loka Byggingarsjóði ríkisins og etja öllum á húsbréfakerfið, þar á meðal þeim sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Í því liggur að mínu mati meginmeinsemdin. Kerfið gengur ekki upp miðað við lífskjör eða kaupmátt á Íslandi eins og þau eru í dag hjá öllum þorra almennra launamanna gagnvart þeim sem eiga ekki eign til að láta ganga upp í kaupin. Það er einfaldlega þannig. Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan. Ég er ekki að leggja til að húsbréfakerfið sé lagt niður. Það er misskilningur hafi hæstv. ráðherra tekið það svo þó það sé ekki endilega vegna þess að ég vilji halda í það eða það sé mér hugfólgið. Ég átta mig auðvitað á því að þegar svo er komið sem raun ber vitni verður það ekki gert í einni svipan enda eru endalausar kollsteypur og kerfisbreytingar í svona mikilvægum málaflokki af hinu illa. Ég er sannfærður um að það kemst ekki skikkur á þessi mál á nýjan leik fyrr en tekin verður upp annars konar grunnfjármögnun gagnvart nýbyggingum og sérstaklega þeim sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Húsbréfakerfið eða markaðsverðbréfakerfi, t.d. á vegum bankanna, getur að mínu mati vel þjónað tilgangi sínum sem fjármögnun í viðskiptum með notað íbúðahúsnæði. Það er allt annar og ósambærilegur hlutur þegar brúa þarf tiltekna viðbótarfjárþörf vegna viðskipta með notað húsnæði milli einstaklinga en grunnfjármögnunin sjálf sem slík. Það er í þeim efnum sem menn eru að komast í ógöngurnar í húsbréfakerfinu. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á.

Þegar húsbréfin komu til sögunnar voru meginmistökin með 86-kerfinu, eins og við köllum svo, að mínu mati þau að láta það kerfi vera jafngilt gagnvart viðskiptum með notað húsnæði. 86-kerfið, eins og önnur slík sem byggja á föstum lánum til langs tíma, var gott gagnvart nýbyggingum og því hefði átt að viðhalda. Hins vegar var það mikla fjárútstreymi, sem upphófst í gegnum það í viðskiptum með notað húsnæði, að mínu mati mistökin sem drápu það kerfi vegna þess að það fjárútstreymi orsakaði hinar illræmdu biðraðir og varð til þess að lokum að það varð pólitískt orðið illverjanlegt að starfrækja það áfram og það nýttu þeir markaðssinnar og frjálshyggjumenn sér sem vildu innleiða húsbréfakerfið. Það hefði verið betur að menn hefðu þá strax tekið þá skynsamlegu ákvörðun að segja sem svo: Allt í lagi. Látum þessi markaðsbréf vera úrræði gagnvart viðskiptum með notað húsnæði en höldum áfram lánaflokki í gangi úr Byggingarsjóði ríkisins á föstum og lágum vöxtum til að fjármagna nýbyggingar og mynda grunnfjármögnun í kaupum hjá þeim sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Herra forseti. Þessum athugasemdum vildi ég koma á framfæri í framhaldi af þeim orðum sem hæstv. félmrh. lét falla um þessi mál.