Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:55:59 (1699)

1995-12-07 15:55:59# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að fólk þyrfti að búa einhvers staðar. Vissulega, en það þarf kannski ekki endilega að byggja einmitt þegar vextirnir eru hæstir og afföllin mest. Bóndinn sem hann gat um átti að sjálfsögðu að fresta framkvæmdum í eitt eða tvö ár og þá hefði hann lent í 10% afföllum. Það er nefnilega málið. Fólk á að fresta almennt séð framkvæmdum þegar vextir eru mjög háir, sem þýðir það að vextirnir lækka. Það gerðist ekki. Það er kannski í og með vegna þess að jafnvel fyrrv. hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, lýsti því yfir að það væri ekki kaupandi íbúðarinnar sem borgaði afföllin. Það var mjög villandi því að sjálfsögðu borgar kaupandi íbúðar alltaf afföllin. Ef hann ætti peninga eða gæti tekið lán annars staðar gæti hann að sjálfsögðu keypt húsbréf, borgað íbúðina með því og notað þannig afföllin. Að sjálfsögðu er það alltaf kaupandi íbúðarinnar sem borgar afföllin. Það sem var kannski mest villandi var að fólki var talin trú um að kaupandinn borgaði ekki afföllin og þar með datt verðskynjunin út úr dæminu. Fólk hugsaði sem svo að það skipti ekki máli hver afföllin væru, það borgaði þau hvort eð er ekki.