Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:17:07 (1704)

1995-12-07 16:17:07# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég tek í upphafi máls míns undir það sem fram kom í máli hæstv. forsrh. að nauðsynlegt er að hraða afgreiðslu málsins sem verða má af þeirri ástæðu að beðið er eftir lögfestingu þeirra ákvæða sem í frv. eru. Það verður að gagnrýna að nokkru leyti hversu mjög hefur dregist að framkvæma þá löggjöf sem sett var í febrúar sl. Að vísu skal viðurkennt að málið er nokkuð flókið og stjórnkerfið að mörgu leyti vanbúið að glíma við svo umfangsmikil og erfið verkefni eins og þetta. Hins vegar er ekki vansalaust að mínu viti að það skuli taka tæplega sex mánuði að setja reglugerð við lögin sem samþykkt voru í febrúar en reglugerðin var sett 2. ágúst sl. Það er einnig nokkuð langur tími sem líður frá því að reglugerðin er sett þar til menn komast að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að taka ákveðin ákvæði reglugerðarinnar og lögfesta þau. Nú eru liðnir rúmlega fjórir mánuðir frá því að reglugerðin var sett og málin eru enn í sömu sporum hvað þetta varðar. Það hefur valdið hvað mestum erfiðleikum í annars ágætri meðhöndlun málsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hversu mjög hefur dregist að ganga frá þeim ákvæðum málsins sem lúta að uppkaupum og samningum við þá sem þurfa að yfirgefa híbýli sín og flytjast á annan stað m.a. vegna þess að vetur er genginn í garð og margir hafa misst af tíma sem þeir hefðu gjarnan viljað nýta síðasta sumar til þess að hefja framkvæmdir og koma sér fyrir á nýjan leik.

Mér finnst þetta hafa gengið nokkuð seint og tel rétt að nefna það þó að ég vilji láta það líka koma fram að ég tel að vel hafi verið á málinu haldið og ég ætla ekki að setja meiri skugga á framkvæmd málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar en réttmætt er. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að athugasemdir hafa komið fram við lagafrv. og hann beindi því til þingnefndarinnar sem fær málið til meðferðar að taka þær athugasemdir til umfjöllunar og afgreiðslu eftir atvikum.

Áður en ég vík að því sem hefur einna helst verið gerð athugasemd við tek ég undir það sem kom fram hjá ráðherra að stjórnarandstöðunni var kynnt málið fyrir nokkrum dögum og fékk tíma og ráðrúm til þess að setjast yfir málið og er það þakkarvert. Það eru ákvæði málsins sem lúta að verðlagningu þeirra íbúða sem nauðsynlegt er að kaupa upp af hættusvæðum. Þar hefur nokkrum atriðum verið breytt frá því sem er í núgildandi reglugerð sem sett var 2. ágúst og þeir sem eiga beinna hagsmuna að gæta um þessar mundir af þessu máli óttast að þær breytingar leiði það af sér að bótafjárhæðir lækki verulega frá því sem er samkvæmt reglugerðinni. Þetta eru atriði sem þarf auðvitað að fara rækilega yfir því að menn þurfa ávallt að hafa það í huga að markmið laganna er að bæta mönnum það tjón sem þeir verða fyrir. Bæturnar verði sanngjarnar og eðlilegar þannig að menn standi jafnréttir eftir en njóti ekki ávinnings en heldur ekki þannig að menn fái ekki allan sinn skaða bættan.

Við þurfum líka að hafa í huga við mat á þessum hlutum að margir hafa ákveðið að byggja upp að nýju í sveitarfélagi sínu, þ.e. í Súðavík. Minna liggur fyrir hvað varðar Flateyri og bætur verða að duga til þess að menn geti komið sér í sambærilega stöðu og menn voru áður í. Ekki væri sanngjarnt ef bótafjárhæð dygði ekki til þess. Bara það eitt atriði að gatnagerðargjöldin eru tekin út úr reglugerðinni sem kostnaður sem bæta skal þýðir fyrir Súðavíkurhrepp um liðlega 40 millj. kr., þar af um 34 millj. kr. kostnaður sem einstaklingar sem hlut eiga í dag fengju samkvæmt reglugerðinni en fá ekki samkvæmt frv. Þetta nefni ég til þess að undirstrika að hér eru nokkrir hagsmunir undir og þeir geta verið fjárhagslega nokkuð háir.

Fleiri atriði eru í 7. gr. laganna eða 5. gr. frv. sem menn hafa velt vöngum yfir og talið nauðsynlegt að skoða betur. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þau atriði lið fyrir lið en þeim verður komið á framfæri við hv. allshn þannig að hún geti tekið þessi atriði til athugunar.

Hvað varðar önnur efnisatriði frv. er um að ræða allnokkrar breytingar sem er vert að víkja að. Sú breyting sem er hvað stærst er að yfirstjórn málsins er færð saman undir eitt ráðuneyti og þá flutt til umhvrn. Það er breyting sem mér sýnist skynsamleg og ég styð hana.

Í öðru lagi er Veðurstofunni gert að annast gerð hættumats í stað Almannavarna ríkisins og jafnframt að snjóathugunarmenn verði starfsmenn Veðurstofu í stað starfsmanna sýslumanna. Ég hef engar athugasemdir við þessar breytingar og mér sýnist þær vera eðlilegar í framhaldi af hinni fyrstu. Ég held að það geti verið málinu til framdráttar að fela Veðurstofunni þetta verkefni.

Hins vegar hef ég efaemdir um að réttmætt sé að flytja ábyrgðina á málinu, viðvörunarþætti málsins alfarið úr héraði og til Veðurstofu Íslands. Mér finnst það vera dálítið óballanseruð viðbrögð í málinu að flytja þennan þátt sem verið hefur fullkomlega heima í héraði að öllu leyti til stofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að menn þurfi að velta þessu betur fyrir sér og ég hef efasemdir um að rétt sé að gera þá sem búa á stöðunum svona fjarlæga í málinu. Þeir hafa auðvitað valið sér búsetu sína og hljóta meira og minna að bera ábyrgð á því. Ég er ekki viss um að það sé öllum til góðs að geta vísað á Veðurstofuna í þessu efni og skotið sér á bak við hana.

Þá er það atriði að taka upp nýja skilgreiningu, svokallaða rýmingu húsa og aðgreina hana frá hættusvæði. Þetta held ég að geti verið eðlilegt og mér sýnist að menn ættu a.m.k. að skoða það mjög vandlega að fara þessa leið. Ég hef þó sama fyrirvara á þessu atriði og hinu fyrra, þ.e. ég hef efasemdir um að réttmætt sé að fela Veðurstofunni einni að meta þetta mál og að taka að fullu og öllu ábyrgðina á ákvörðun um rýmingu.

Auðvitað eru atriði sem menn þurfa að velta fyrir sér og ég get verið sammála því að menn þurfa kannski lengri tíma til þess en núna gefst til þess að gera það mál upp við sig endanlega. Það eru einkum tvö atriði sem menn hljóta að verða að hafa til athugunar í náinni framtíð en skipta verulegu máli. Það fyrra er hvort það eigi að heimila að beita valdi við að rýma hús og það síðara er hvað eigi að gera við húsin sem hafa verið keypt upp og standa heil og óskemmd en eru á hættusvæði. Þessi tvö atriði þarf að ræða. Um það síðara vil ég segja að ég hef fram til þessa verið á þeirri skoðun að íbúðarhús sem eru á skilgreindum hættusvæðum ætti skilyrðislaust að rífa og fjarlægja. Það er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að menn stofnuðu fólki í hættu með því að vera í húsunum á þeim tíma sem fólk ætti ekki að vera í þeim. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég hef heldur linast í þessari afstöðu og hef orðið efasemdir um hvort það sé ástæða til að grípa til svo róttækra aðgerða. Ég er ekki lengur viss um að það sé skynsamlegt að neita sveitarfélaginu um að nýta heil og óskemmd hús að sumarlagi svo dæmi sé tekið. Það þarf auðvitað að hafa nokkuð strangar reglur og jafnvel í löggjöf um það hvernig slík hús yrðu notuð og á hvaða tíma en ég vil ekki útiloka að menn geti nýtt þessi hús skynsamlega.

Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á því helsta sem er í þessu frv. og viðrað afstöðu mína til þess en ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að rekja athugunarefnin í 5. gr. frv. lið fyrir lið. Ég veit að þeim verður komið á framfæri við hv. nefnd og treysti því að hún taki þau til alvarlegrar athugunar og komist að skynsamlegri niðurstöðu.