Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:29:12 (1705)

1995-12-07 16:29:12# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:29]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka að þetta frv. er komið fram og tel það mjög til bóta varðandi þennan málaflokk þó að það liggi fyrir eins og fram kemur í frv. að fram fari heildarendurskoðun laganna og þá sérstaklega í ljósi þeirrar reynslu sem mun fást á hvernig þessi ákvæði reynast í vetur sem nú er verið að tala um að breyta.

Ég ætla að hlaupa á örfáum atriðum sem mér finnst skipta máli í frv. Mér finnst flutningur á stjórnsýslunni mjög til bóta. Eins og stjórnsýslan er núna er hún fullflókin og ýmislegt sem rekur sig þar hvert á annars horn en með þessu frv. er lagt til að gera stjórnsýsluna alla einfaldari og þá væntanlega skilvirkari. Ég hef velt fyrir mér hvernig neyðaráætlanir verða framkvæmdar og hvað þær eiga að innihalda. Það sem nefnt er rýmingaráætlanir í umræðunni er það sem sveitarfélög eru að vinna að um þessar mundir. Ég veit til þess að á Siglufirði er búið að vinna rýmingaráætlun og í öðrum sveitarfélögum er verið að gera slíkt hið sama. Á Seyðisfirði er t.d. verið að vinna að rýmingaráætlun sem á að gilda þangað til önnur kemur frá Veðurstofunni. Menn velta því fyrir sér hvað sú áætlun feli í sér. Eins og fram kemur í frv., er gert ráð fyrir að gert verði kort af svæðinu. Og að því er unnið núna þar sem ég veit til, á Seyðisfirði. Þar verður gert kort af svæðinu og inn á það verða sett öll hús ásamt símanúmerum í hverri íbúð. Einnig fylgir þessu grunnmynd allra húsa og upplýsingar um íbúa samkvæmt þjóðskrá. Síðan þarf að huga að því hvert fólkið yrði flutt ef til rýmingar kæmi og það er á áætlun að senda út spurningalista til íbúa þessara húsa til að kanna hvort fólk fyndi sér sjálft húsaskjól eða hvort almannavarnanefnd þurfi að leggja því til húsnæði. Það er að ýmsu að huga, t.d. flutningaleiðum o.fl. sem Veðurstofan væntanlega setur í sínar reglur, en ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ástæða sé til að setja um þetta einhverjar skýrari reglur eða einhver ákvæði í lögunum.

[16:30]

Einnig finnst mér spurning hvort ekki á að skýra ákvæðið um upplýsingaskyldu. Það kemur fram að Almannavarnir eigi að gera neyðaráætlanir og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu samkvæmt 2. gr. og mér finnst spurning hvort það eigi að skýra betur hvað í þessu felst. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt fyrir íbúa þessara sveitarfélaga að umræðan sé öll mjög opin og allir hafi sem fyllstar upplýsingar um það hvernig á að bregðast við ef til neyðarástands kemur. Þetta var varðandi rýmingaráætlanirnar.

Ég vildi líka koma aðeins inn á atriði sem menn hafa nefnt varðandi það að lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjái um að rýma húsnæðið og mega þá beita valdi í því skyni. Ég tel þetta mjög eðlilegt ákvæði, m.a. með tilliti til barnaverndarsjónarmiða. Þetta er auðvitað vandmeðfarið en ég held að það sé engin ástæða til að auka þá áhættu sem menn taka þegar svona er komið. Menn verða að vinna þetta mjög hratt og vel og þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði. Það er sem sagt engin ástæða til að leggja starfsmenn lögreglustjóra, sem bera ábyrgð á rýmingunni, og björgunarsveitarmenn í óþarfa hættu við að rökræða við fólk um það hvort það eigi að yfirgefa hús sín. Auðvitað er þetta ekki mjög líklegt tilfelli, en ég held að það sé nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði í lögunum.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um reglurnar um uppkaupin, en þær miða að því að menn verði jafnsettir, þ.e. að þeir hagnist ekki á því að hið opinbera kemur inn með þessum hætti. Ég vil leggja áherslu á það sem hæstv. forsrh. kom inn á. Staðgreiðslumarkaðsverð nýrra húseigna sem kunna að verða byggðar á umræddum stöðum verður líklega mun lægra en greiðslunum nemur, a.m.k. eins og víða horfir nú. Eigendur verða ekki að þessu leyti betur settir fjárhagslega heldur en áður. Með ákvæðinu er sem sagt miðað að því að fólk verði jafn vel sett og áður.

Það hafa komið fram athugasemdir um það sem kemur fram í skýringum um 5. gr. á hugtakinu um endurstofnverð. Þar stendur, með leyfi forseta, á bls. 6:

,,Með hugtakinu ,,endurstofnverð`` er átt við áætlun heildarbyggingarkostnaðar húsa, án opinberra gjalda og án lóðafrágangs.``

Ég held að það verði að skoða þessa skýringu betur í nefnd og mér hafa borist athugasemdir frá nokkrum bæjarstjórum sem hafa skoðað þetta mál. Með þessari skýringu er t.d. verið að girða fyrir það að greiða húseigendum kostnað vegna nýrra gatnagerðargjalda og eðlilega hafa menn áhyggjur af þeim þætti. Hæstv. forsrh. beindi því til hv. allshn. að taka málið til jákvæðrar umfjöllunar og ég held að þetta sé mál sem verði skoðað örlítið nánar.

Örfá orð um fjármögnunina. Í athugasemdum kemur fram að það þurfi að tryggja ofanflóðasjóði auknar tekjur til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Ég hlýt því að spyrja hvort tillögur um auknar tekjur ofanflóðasjóðs hafi komið fram eða hvenær þeirra sé að vænta ef svo er ekki. Á sumarþingi voru gerðar lagabreytingar til að auka tekjur sjóðsins og var þá gengið nokkuð langt að mínu mati á viðlagatryggingu. Ég vil því vara við að lengra verði gengið í þá átt nema menn gangi að því með opnum augum að verið sé að gera viðlagatryggingu ófæra til þess að sinna hlutverki sínu.

Varðandi þau hús sem ofanflóðasjóður mun kaupa upp tel ég eðlilegt að sveitarfélögin eignist húsin eins og gert er ráð fyrir í frv. Húsin standa eðli málsins samkvæmt á hættusvæðum yfir vetrartímann en þau eru fullbrúkleg á öðrum tímum árs. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu að þau yrðu leigð sem sumarhús og mundu að því leyti stuðla að eflingu ferðaþjónustu. Þau sjónarmið hafa komið fram að þá væri hætta á að menn freistuðust til að leigja lengra og lengra fram á hættutímann og með tímanum gleymdu menn sögunni og upphafinu. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að svo muni fara og held að ótal leiðir séu færar til þess að koma í veg fyrir slíkt gáleysi. Hitt er annað mál að rekstur og fasteignir kosta sitt eins og þingheimur veit og því er ekki eðlilegt að ofanflóðasjóður standi að slíkum rekstri.

Eins vil ég nefna að hér getur verið um menningarverðmæti að ræða og ég tel því að sveitarfélögin séu besti kosturinn eins og nú horfir. En finni menn aðrar góðar leiðir er sjálfsagt að endurskoða þetta ákvæði.