Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:43:46 (1707)

1995-12-07 16:43:46# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er sorglegt að við erum í þriðja sinn á þessu ári að fjalla um lagabreytingar sem snerta snjóflóðavarnir og afleiðingar þeirra sorglegu snjóflóða sem við höfum orðið vitni að á þessu ári. Þetta frv. sem hér er til umræðu felur í sér stjórnkerfisbreytingu og jafnframt er verið að lögfesta ýmsar breytingar sem tengjast þeim ásamt þeim reglum sem gilda um greiðslur úr ofanflóðasjóði.

[16:45]

Málið fer til allshn. en verður síðan sent til umsagnar umhvn. og félmn. og þar munum við að sjálfsögðu hraða meðferð þess sem mest við getum, enda brýnt að það verði lögfest sem allra fyrst. En ég vil taka undir þá stjórnkerfisbreytingu sem hér er verið að leggja til og ég fagna því að þar skuli stigið skref til þess að styrkja umhvrn. Það er full þörf á að styrkja það ráðuneyti og flytja verkefni yfir til þess. Það er jafnframt verið að styrkja Veðurstofu Íslands og ég hygg að breytingin sem hér er verið að gera muni hafa í för með sér að starfsmönnum Veðurstofunnar fjölgi allnokkuð. Það vekur spurningu sem ég vil beina til hæstv. umhvrh. Hvernig er Veðurstofan í stakk búin til þess að taka við þessu nýja og aukna hlutverki? Verður henni örugglega tryggt fjármagn til þess að taka við þessu? Það kemur fram í fylgiskjali, kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu, að þetta hefur að sjálfsögðu töluverðan aukinn kostnað í för með sér. Og það er auðvitað brýnt ef lögin eiga að ná tilgangi sínum að Veðurstofan geti tekið við þessu.

Ég tel að sú breyting sé til bóta sem hér er gerð í 3. gr. frv., þ.e. að færa valdið yfir til Veðurstofunnar, gefa út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsa yfir hættuástandi. Auðvitað er jafnframt verið að færa vald frá sveitarstjórnunum til þessarar stofnunar sem vissulega er staðsett í Reykjavík en hefur auðvitað sína starfsmenn út um allt land. Ég tel að í ljósi þeirra umræðna og nánast óbærilegu ásakana sem sveitarstjórnarmenn hafa orðið fyrir í sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið, að það sé óhjákvæmilegt að létta þessari þungu ábyrgð af þeim. Það er öðruvísi þegar ákvarðanir eru teknar af stofnun sem hefur þetta vald en þegar heimamenn eru að vega og meta og verða síðan fyrir þungum ásökunum sem auðvitað eiga sér ýmsar skýringar, m.a. þau hörmulegu áföll sem fólk verður fyrir.

Ég tek líka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur að ég held að það sé rétt að lögfesta vald lögreglustjóra og almannavarnanefnda til að rýma hús með valdi eins og tekið er fram. Það verður auðvitað aldrei nógsamlega brýnt fyrir fólki að tryggja öryggi barna og reyndar fullorðinna líka, en ekki síst barnanna.

Eins og komið hefur fram höfum við Íslendingar orðið fyrir mjög þungbærum áföllum á árinu af völdum snjóflóða en það vekur spurningar sem varða mínar efasemdir við frv. Það hefur komið í ljós í allri umfjöllun um þessi mál að við höfum ákaflega litlar upplýsingar um snjóflóð sem orðið hafa á fyrri öldum. Dæmin sem við höfum orðið vitni að á þessu ári urðu á svæðum sem voru harla lítið byggð fyrr á öldum, m.a. vegna hinnar dreifðu byggðar í landinu. En við getum líka spurt okkur: Hvers vegna var svo lítil byggð á þessum svæðum? Var það vegna þess að þau voru ekki byggileg? Og þar kem ég að aðalatriðinu sem ég velti mjög þunglega fyrir mér tengist því sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi varðandi 5. gr., þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að byggja á hættusvæðum þar sem varnarvirkjum hefur verið komið upp.

Nú hafa menn velt því mjög fyrir sér hvort þessar varnir séu til einhvers. Eru til varnir sem duga gegn þessum ósköpum sem hafa orðið og er réttlætanlegt að byggja á skilgreindu hættusvæði? Þetta er mín fyrri spurning varðandi þetta atriði.

Hin síðari er varðandi það sem kemur fram í greinargerð og snertir greiðslur úr ofanflóðasjóði til þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni. Svo segir í reglugerð, með leyfi forseta:

,,Tilgangur mismunandi greiðslutilhögunar er fyrst og fremst að styrkja byggð í sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið eða snjóflóðahætta er yfirvofandi. Greiðslur til þeirra sem hyggjast búa áfram í heimabyggð sinni geta þar með samkvæmt reglunum orðið hærri en greiðslur til þeirra sem ætla að flytja á brott.``

Ég verð að viðurkenna að ég hef miklar efasemdir um þetta markmið. Ég hef heyrt þess dæmi að vestan að fólk spyr sig að því hvort það geti boðið börnunum sín upp á þá tilveru að flytja úr húsum sínum jafnvel oft á vetri, eftir að börnin hafa orðið vitni að þessum hörmungum. Hvað vill fólkið sem býr á þessum svæðum? Er ekki rétt að byrja á því að spyrja íbúana? Hvað vilja þeir? Eru þeir margir til sem vilja flytja í burtu en geta það ekki? Er rétt að setja sér það markmið að styrkja byggðir í sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið eða snjóflóðahætta er yfirvofandi? Mér finnst þetta alveg óskaplega alvarlegar spurningar sem við stöndum frammi fyrir. Í hvers nafni er það rétt? Er það rétt í nafni byggðastefnu? Er það rétt í nafni fjárfestinga og fyrirtækja sem eru á staðnum? Er það rétt í nafni fólksins sem býr þarna? Hvað erum við að gera með þessu? Ég held að við hljótum að velta þessum spurningum mjög alvarlega fyrir okkur og ég held að við sem löggjafi megum ekki binda fólk átthagafjötrum. Er verið að því? Það er hin stóra spurning sem hvílir á mínum huga og mér finnst sérstaklega með tilliti til barna að ef fólk vill flytja, verður því að vera kleift að gera það.

Ég vil varpa þessum spurningum fram og ég fæ tækifæri til að kynna mér málið nánar, en ég ítreka það að við Íslendingar verðum að horfast í augu við að byggð á ýmsum svæðum er hættuleg. Hún er hættuleg fólki og öðru lífi sem þar er og við hljótum að spyrja okkur: Er réttlætanlegt að halda þeirri byggð við og styrkja hana? Hvað vill fólkið? Það er grundvallarspurningin.