Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 16:56:57 (1709)

1995-12-07 16:56:57# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[16:56]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er að sjálfsögðu ljóst að hér er um ákaflega vandmeðfarið mál að ræða. Mín stóra spurning er auðvitað þessi: Er verið að mismuna fólki? Er verið að gera fólki erfitt að flytja burtu sem vill það? Ég spyr. Ég á eftir að fara ofan í málið en það hlýtur að vera á valdi þeirra sem búa á þessum svæðum að ákveða hvort þeir vilja vera þar eða hvort þeir vilja fara eitthvað annað. Og við verðum bara ósköp einfaldlega að horfast í augu við þennan veruleika, hvað vill fólkið. Mér finnst það vera grundvallaratriði að við sem löggjafi í þessu tilviki gerum fólki ekki erfiðara fyrir. En síðan er hægt að taka afleiðingunum af því hver ákvörðun íbúanna verður á viðkomandi stað.

Mér finnst þetta bara vera flötur á umræðunni sem við þurfum að velta fyrir okkur.