Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:35:39 (1715)

1995-12-07 17:35:39# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:35]

Kristján Pálsson:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með framlagningu þessa frv. og með það hvernig ríkisstjórnin hefur yfirleitt staðið að lausn þeirra viðkvæmu mála sem komið hafa upp á þessu ári í þeim miklu hamförum sem gengið hafa yfir tvær byggðir á Vestfjörðum. Öllum er ljóst að þarna var um afskaplega erfið og óvænt atvik að ræða sem enginn gat séð fyrir hvernig ætti að bregðast við en ég held að það sé allra mat að þar hafa farið saman bæði yfirvegun og farsælar ákvarðanir sem hafa leitt til þess að ekki skapaðist sú mikla hætta á að það brysti á almennur byggðaflótti frá Vestfjörðum sem svo hæglega hefði getað gerst ef múgsefjun hefði gripið um sig og almenn hræðsla.

Ég tel að margt í þessu frv. sé mjög nauðsynlegt og þá sérstaklega það að meta hvenær eigi að rýma hús og flytja fólk af hættusvæðum. Að flytja það í hendur Veðurstofu Íslands finnst mér vera skynsamleg ákvörðun og ég segi það sem reynslu mína af veru minni úti á landi í áratugi að þeir sem eiga heima á svona stöðum gleyma oft hættunni. Hún dofnar og það þurfa ekki oft að líða nema nokkur ár og jafnvel ekki svo langur tími til að menn hætti að velta fyrir sér þeirri hættu sem minnti á sig fyrir nokkrum árum af því að það er búið að vera svo gott undanfarin 2--3 ár. Því miður hefur þetta orðið til þess að byggðir hafa þanist út á þessum svæðum langt umfram það sem tíðkaðist hjá eldra fólki sem þekkti svæðin og hafði kynnst þeim í gegnum árin í ættlið fram af ættlið.

Ég get talað af nokkurri reynslu í því efni og tek sérstaklega til eina byggð sem er vestur í Hnífsdal þar sem mitt fólk hefur búið öld fram að öld og hefur byggt á ákveðnum svæðum. Því miður hefur á síðustu árum verið byggt sitt hvorum megin við þau svæði sem höfðu ávallt verið talin örugg en hin svæðin ekk nægilega örugg til þess að menn treystu sér til þess að hafa þar yfirleitt byggð. Síðan hefur þetta teygst af einhverjum ástæðum en hefur sem betur fer ekki leitt til þess að neinn hafi lent í slysum. Þó hefur það orðið til þess að svæði sem hafa öldum saman verið talin örugg byggingarsvæði falla nú undir það að vera rauð svæði eftir því sem mér er sagt. Það gæti hugsanlega orðið til þess að öll þau hús sem hafa jafnvel staðið yfir 100 ár verða rifin í burtu. Það er þyngra en tárum taki fyrir fólk sem þekkir þessi svæði að þetta skuli vera komið svona. Ég velti því fyrir mér hvernig eigi að grípa inn í þessi mál þegar farið er að tala um að rýma eða jafnvel að rífa heilu og hálfu byggðarlögin og skilja eftir auð svæð í staðinn.

Ég fagna því að í frv. er gert ráð fyrir endurskoðunarákvæðum þannig að menn geti áttað sig á því hvernig svona ákvæðum verði best við komið, hvað megi gera við slík hús, jafnvel hvort hægt sé með frekari vörnum að verja þessar byggðir frekar en að rífa þær. Ég er hræddur um það að þegar farið verður að rífa þessi hús og einungis helmingur húsanna stendur eftir gæti orðið það mikill flótti þeirra sem eftir sitja að hann ekki verði stöðvaður.

Mörg byggðarlög á Íslandi eru undir fjöllum. Við höfum alltaf lifað við hugsanlega hættu af því að búa undir fjöllum. Hún hefur náttúrlega ekki komið í veg fyrir það að menn byggju þarna og ég vona svo sannarlega að við getum fundið þær lausnir að við missum ekki þau svæði úr byggð sem hafa nýst okkur fram að þessu. Því tel ég að þessi mál þurfi í rauninni að vera í stöðugri endurskoðun. Ég er ekki alveg viss um að útreikningar með tölvum og tölvulíkönum séu þær einu lausnir sem við höfum til þess að finna út hættusvæði og hættulegustu svæðin. Ég mæli með því að þetta verði allt skoðað mjög rækilega, náttúrlega af sérfræðingum og heimamönnum en vissa heimamanna hefur því miður oft dofnað vegna þess að menn hafa freistast til þess að færa byggingarsvæðið lengra en æskilegt hefði verið. En það eru til mjög mörg gögn um þessi mál sem mér finnst að eigi að skoða mjög rækilega.

Þessi tillaga fer nú til allshn. og ég tek undir að það þarf að flýta þessu máli sem allra mest og koma því í gegnum þingið því að ekki er ekki hægt að ætlast til þess að hægt sé að bíða með þær úrlausnir sem fólk þarf á að halda í þessum byggðum. En hvernig best sé að bregðast við hættumötum og vinnslu gagna varðandi ákvörðun um hættusvæði þarf að vera að mínu viti í stöðugri endurskoðun.