Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:54:36 (1718)

1995-12-07 17:54:36# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Kristján Pálsson hafi í rauninni verið að taka undir margt af því sem ég var að segja áðan. Ég er honum alveg innilega sammála um það að ekki er hægt að láta sveitarstjórnir með nokkrum hætti koma nálægt ákvörðunum til að mynda um hættumat og hættusvæði. Við vitum það af sögunni að þá eru strax komnir upp erfiðir árekstrar milli mismunandi hagsmuna. Við vitum að það eru dæmi um að hættumöt voru ekki staðfest svo árum skipti vegna þess að viðkomandi sveitarstjórn hafði, ekki í krafti laga heldur gamalla hefða, mótmælt hættusvæðum eins og búið var að ákveða þau af almannavörnum. Það leiddi einfaldlega til þess að viðkomandi mat var ekki staðfest. Ég hef aldrei skilið í krafti hvaða lagaákvæða það var gert, en það var einfaldlega staðreynd. Og þegar menn tóku í kjölfar þessara miklu hamfara sem yfir okkur hafa dunið mikinn kipp, öfluðu aðstoðar erlendra sérfræðinga og settu nýjar reglur kom í ljós með enn klárari hætti en áður að þessi svæði sem umdeild voru og búið var að byggja á voru auðvitað að dómi allra sérfræðinga sem að málinu komu á óumdeildu hættusvæði.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um Ólafsvík sem hann þekkir auðvitað miklu betur en ég, þá er ég ekki nákvæmlega kunugur því sem hann lýsti. Mér fannst þó eins og hann væri að draga í efa að þessi varnarvirki sem við erum að ræða um hefðu misst gildi sitt vegna skorts á viðhaldi. Eigi að síður er það svo að í greinargerð með því frv. sem var lagt fram á 118. löggjafarþingi segir, með leyfi forseta:

,,Auk þess sem að framan greinir styrkti ofanflóðasjóður að tillögu félmrh. gerð varnarvirkja í Ólafsvík sem byggð voru fyrir gildistöku laganna. En þau varnarvirki hafa einnig misst gildi sitt vegna skorts á viðhaldi.``