Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 17:59:41 (1720)

1995-12-07 17:59:41# 120. lþ. 57.4 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[17:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmönnum undirtektir við frv. þetta og umræður allar. Þær bera auðvitað með sér að þær nefndir, hv. allshn. sem fær málið til meðferðar og hv. nefndir umhverfis og félagsmála, sem fá málið til umsagnar þurfa að leggja í það töluverða vinnu og athugun, en engu að síður er nauðsynlegt fyrir okkur að leitast við af fremsta megni að klára málið fyrir jólafrí til þess að eyða óvissu sem hefur staðið alllengi. Og ég heyri á þingmönnum öllum að þeir vilja ná saman um það að þeirri óvissu sé eytt.

[18:00]

Málið er auðvitað margþætt. Í vissum skilningi má segja að það sé tvíþætt, annars vegar sé það varanlegt, þ.e. menn séu að gera varanlegar breytingar á stjórnsýslu ofanflóðamála og gera hana skilvirkari og skipulagðari. Það er varanleg breyting. Á hinn bóginn eru menn að gera breytingar til bráðabirgða og inntak þeirra breytinga felst í því að menn ætla þar til þekking er orðin öflugri en hún er þegar að leitast við á því ári sem við höfum þar til endurskoðun hefst á lögunum að vernda mannslíf en ekki mannvirki. Menn telja sig ekki hafa enn þá nægjanlegar forsendur til þess að stuðla að verndun mannvirkja með þeim hætti sem þeir töldu sig áður geta gert. Reynslan hefur kveðið upp þann dóm yfir okkur öllum að þekkingargrundvöllurinn var lakari en við héldum að hann væri og nú hafa menn einsett sér að styrkja þennan þekkingargrundvöll til þess að geta sameinast um reglur sem væru til þess fallnar að við teldum að við gætum fullyrt að mannvirki á svæðum sem hafa búið við hættu gætu talist tiltölulega örugg. Við höfum hins vegar ekki tíma til að bíða með öryggisráðstafanir gagnvart mannfólkinu og þess vegna fjallar frv. um það með hvaða hætti eigi að grípa inn í þau mál á þessum bráðabirgðatíma. Þar koma þær rýmingaráætlanir til sem þetta frv. getur um.

Það er ekki auðvelt verk fyrir Veðurstofu að þurfa að taka ákvörðun um það hvenær skuli rýmt og hversu mikið skuli rýmt. Það er ekki öfundsvert hlutverk sem Veðurstofan fær að axla þá ábyrgð alla. Út af fyrir sig gæti verið hætta á því að Veðurstofan gengi ætíð of langt í þeim efnum til þess að firra sig ábyrgð. En hún veit auðvitað um leið að þar með væru stigin skref sem gerðu vissar byggðir nánast óbyggilegar þannig að þarna þarf að gæta meðalhófs og ég hygg að engum aðila sé í núverandi stöðu betur treystandi til þess en einmitt Veðurstofunni.

Nokkrir þættir hafa komið sérstaklega til umræðu. Ég ætla ekki að víkja að þeim öllum vegna þess að nefndirnar þrjár, sem ég gat um, munu auðvitað fara yfir þau mál nákvæmar en ég get gert úr þessum ræðustól en það eru nokkur efni sem þingmenn hafa haft ákveðnar áhyggjur af. Spurt var sérstaklega um hvort menn hefðu gert ráð fyrir fjáröflun til ofanflóðasjóðs til að mæta þeim útgjöldum sem munu bersýnilega koma þar til. Það hefur ekki verið gert umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Við gerum ráð fyrir því að á næstu fimm árum renni um 1.200--1.300 millj. kr. til sjóðsins samkvæmt nýgerðum breytingum sem er auðvitað gerbreyting á högum sjóðsins frá því sem áður var en jafnframt augljóst að muni ekki nægja til. Hins vegar eru ekki forsendur fyrr en sú vinna sem frv. gerir ráð fyrir hefur átt sér stað til þess að meta fjáröflunarþörfina nákvæmar en við getum gert í dag. Þingið hefur þegar lagt þennan grundvöll að tryggja sjóðnum 220--230 millj. umfram það sem áður var á ári og það mun styrkja stöðu sjóðsins.

Spurt var um gildistökuákvæði frv. Frv. gerir ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi þá þau hafa verið samþykkt. Ég hygg að það ákvæði sé út af fyrir sig ekki vandamál en ég skil hv. þm. sem spurði auðvitað vegna þess að --- það er álitaefni sem hv. þm. vakti réttilega athygli á --- í lögunum gert ráð fyrir því að bætur skuli miðaðar við flóðadag. Það getur haft áhrif aftur fyrir sig að það orðalag sé með þeim hætti og um leið að gildistökuákvæðið skuli vera með þeim hætti sem það er í frv.

Það gildir ekki það sama um almenn skaðabótalög í þessum efnum og þetta frv. því að almenn skaðabótalög setja skuldbindingar yfir á þriðja aðila og þar með gengur afturvirkni ekki. Í þessu tilfelli er ríkisvaldið eingöngu að ákvarða greiðslur úr sinni eigin stofnun og getur þess vegna með öðrum hætti gripið til afturvirkni og er ekkert sem bannar það. Það sem menn hafa í huga í því sambandi eru þær ábendingar sem við höfum fengið núna að undanförnu og ég óskaði eftir í framsögu minni að yrði athugað með jákvæðum hætti í nefnd er eftir að þessi óhugnaður allur hefur gengið yfir þá hafa flestir sem eiga í hlut vaknað til þeirrar vitundar að kannski væri ekki allar tryggingar með þeim hætti sem skyldi, ekki öll möt þeim hætti sem skyldi. Þessir aðilar geta auðvitað stuðlað að því að möt á þeirra eignum séu færð í rétt horf en þeir sem lentu í ósköpunum á Súðavík og Flateyri búa við aðra stöðu. Þetta þarf auðvitað að athuga sérstaklega og verður gert í nefndinni og verður komið á framfæri frá þessum sveitarstjórnum athugasemdum til nefndarinnar, til þingmanna kjördæmisins og annarra þannig að þessi mál verða athuguð sérstaklega.

Þá hafa menn velt því fyrir sér hvort það standist og gangi upp að mismuna mönnum eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er alveg rétt, það er mjög vandmeðfarið álitaefni. En þá er fyrst til að benda á að menn yrðu til lengri tíma litið jafnsettir, byggju á endanum við markaðsverð eigna sinna. En í annan stað verða menn að gæta að því að í sjálfu sér er ríkinu ekki skylt að bæta mönnum eignir þegar þær lenda nú á rauðum svæðum eða öðrum slíkum svæðum. Það leiðir ekki af sjálfu sér að ríkinu sé það skylt. En ríkisvaldið hefur hins vegar ákveðið að bæta mönnum slíka hluti og er með ívilnandi aðgerð hvað það varðar. Þá mætti segja að ríkisvaldið væri að ýta undir það með þessum aðgerðum að menn seldu hús sín og færu út fyrir byggðarlagið. Þar væru í byggðarlaginu aðrar húseignir sem væru ekki inni á hættusvæðum en stæðu eftir tætingslegar í byggðarlagi sem væri kannski brostið vegna þess að ríkisvaldið hefði með reglum sínum ýtt undir fólk að flytja burtu. Eignir þeirra sem fyrir væru væru kannski tiltölulega lítils virði vegna þess að markaðsverð væri lágt væru nánast einskis virði vegna atbeina ríkisins og því er réttlætanlegt í þessu sambandi að ríkisvaldið stuðli að því að sú breyting sem það leggur grundvöll að með bótum leiði ekki til þess að aðrir íbúar í viðkomandi byggðarlagi séu afar illa settir. Alla þessa þætti þurfa menn að vega og meta og ég tel eftir atvikum sé ekki hægt að gefa sér það að sú jákvæða mismunum sem hér er um að ræða fái ekki staðist lagalega eða siðferðislega. Ég held að hægt sé að færa mörg rök fyrir því að hún gæti staðist. Ég vil þó ekki fullyrða um það en það er þó alveg ljóst að mönnum þótti öruggara að hafa þessa ákvörðun í lagaformi, tekna með ákvörðun Alþingis heldur eins og við gerðum fyrir hálfu ári eingöngu í reglugerðarformi. Við ættum þá a.m.k. að vera nær því að það allt saman fengi staðist.

Einnig var spurt um hvort ekki væri erfitt að móta reglur af þessu tagi í því umhverfi sem við hefðum nú í ljósi þeirra hörmulegu atburða sem urðu. Auðvitað má segja það en á hinn bóginn hafa þessir atburðir gert okkur fullkomlega ljóst að lagaramminn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan í ræðu sinni hefur ekki verið nægjanlega góður og fjarri því. Auðvitað ber okkur svo skjótt sem við megum að bæta úr því. Jafnframt ber þetta frv. með sér að menn eru ekki nú að vinna lokaverkið. Það er verið að verja verulegum fjármunum til Veðurstofunnar umfram það sem áður var ákvarðað sem er nauðsynlegt vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem er sett á hana. Vísindamenn þar og þeir aðrir vísindamenn sem hafa komið að málinu hafa sagt við okkur að þeir verði allt öðruvísi í stakk búnir núna næsta sumar til að gefa okkur ráð sem fái staðist en þeir hafa verið áður. Við munum skapa þeim eins góða stöðu til þess að vinna að þessum verkefnum eins og frekast er kostur.

Ég endurtek þakkir mínar til þingmanna fyrir undirtektir við frv. og mjög málefnalegar og athyglisverðar umræður um það.