Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:40:06 (1723)

1995-12-08 10:40:06# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Hæstv. forseti. Beiðnin um skýrsluna sem hér er um að ræða er 65. mál. Menn sjá beiðnina, þetta er nánast beiðni um 51 skýrslu. Ég skrifaði strax bréf 16. okt., svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ég vek athygli forseta Alþingis á 65. máli 120. löggjafarþings, þar sem um er að ræða beiðni um skýrslu frá forsrh. um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis. Mér sýnist augljóst að mál af þessu tagi hefði átt að berast upp í þingsályktunartillöguformi og Alþingi yrði því að álykta að fela ríkisstjórninni að vinna þetta verk, svo umfangsmikið sem það er. Ekki verður annað séð en nauðsynlegt verði að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarstofnun um þessi mál til þess að svara megi öllum þeim spurningum sem þarna eru settar fram. Það er augljóst að forsætisnefndin hefði þurft að huga að því að skýrslubeiðni af þessu tagi rúmast ekki innan þess tíma sem gefinn er til þess að svara slíkum skýrslum. Bið ég forseta Alþingis um að íhuga þetta mál sérstaklega og eiga síðan samtöl við mig um hvernig með skuli fara.``

Þetta var 16. okt. Það hefur áður verið beðið um svona skýrslu, það var 1986, en þá var skýrslubeiðnin fjórðungur af því sem hér er um að ræða. Það tók fjóra mánuði að vinna þá skýrslu. Þetta er kannski ársverk fjölda starfsmanna, þessi skýrslubeiðni sem hér um ræðir og það gefur auga leið að ráðuneytin þurfa þá að fá sérstaka ákvörðun um fjármögnun ef þau eiga að vinna slíkt verkefni, fyrirmæli frá þinginu. Ég bið menn um að ná sér í þessa skýrslubeiðni, ná sér í hana og skoða hana. Þá sjá þeir hvers konar beiðni hér er á ferðinni.

Í þessu bréfi sem var skrifað strax var ekki verið að hafna einu eða neinu. Það var verið að biðja um viðræður við þingið um þetta mál og vekja athygli á því og það er ekki við forsrn. að sakast þó að málið hafi strandað. Nú nýlega hefur forseti tekið þetta mál upp við mig, fyrir fáeinum dögum.