Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:42:14 (1724)

1995-12-08 10:42:14# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:42]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir gagnrýni hv. málshefjanda. Við skýrslubeiðendur fréttum af þessu máli fyrst í gær og það er upplýst að það hafi verið farið fram á viðræður við þingið af hálfu forsrn. fyrir tveimur mánuðum tæpum og við erum að frétta af þessu fyrst núna fyrir utan það að með þessum viðbrögðum er forsrh. að setja ofan í við þingið og það finnst mér ekki góð latína, hæstv. forsrh.

Það er ekkert óeðlilegt að einhverjum finnist þetta vera dálítið viðamikil skýrslubeiðni sem hér er lögð fram. Við vorum okkur vel meðvituð um það og mér hefði ekki fundist neitt óeðlilegt þó að forseti þingsins hefði haft samband við skýrslubeiðendur og spurt hvort það mætti skipta þessari skýrslubeiðni eitthvað í kafla og vísa til fleiri en eins ráðuneytis o.s.frv. Það var ekki gert heldur lagði forseti þetta fyrir þingið og þingið samþykkti þessa skýrslubeiðni. Því verð ég að lýsa undrun minni og mikilli óánægju með þessa meðferð málsins. Og ég endurtek það að mér finnst óeðlilegt af hálfu forsrn. að samþykkja ekki það sem Alþingi hefur þegar samþykkt og látið það ganga sinn eðlilega gang í kerfinu.