Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:46:29 (1727)

1995-12-08 10:46:29# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:46]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér er satt að segja komið upp heldur leiðinlegt mál. Ég segi alveg eins og er að ég hélt að við værum að mestu laus við hnökra á samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu eins og hafa birst hér. Í raun og veru hefur verið reynt að halda tiltölulega lipurlega og faglega á málum á þessu haustþingi eins og menn hafa kannski orðið varir við sem kunna að bera það saman við fyrri þing. Ég verð að segja að mér þykir það nokkuð sérkennilegt að þetta bréf skuli hafa legið í tvo mánuði án þess að það fréttist af því. Það finnst mér eiginlega það sérkennilegasta í málinu. Út af fyrir sig er skýrslubeiðnin mjög ítarleg og ég kannast við það frá fyrri árum, t.d. frá síðasta kjörtímabili að ég lagði t.d. fram beiðnir um tvær skýrslur til þáv. ráðherra Alþfl., annars vegar um iðnaðarmál og hins vegar um heilbrigðismál, og svör við þeim komu seint og illa en þau komu með miklum eftirgangsmunum. Ráðherrarnir báru því við að það væri mikið verk að ganga frá þessu, það þyrfti fjölda manns til að vinna verkið og allt það. Það getur út af fyrir sig allt hafa verið rétt og getur líka verið rétt í þessu tilviki. En þá á auðvitað að taka á málinu þannig strax í upphafi. Þegar skýrslubeiðnin kemur fram á auðvitað að ræða það mál og m.a. að fjalla um það hvort hugsanlegt er að tryggðar verði fjárveitingar í því skyni ef það er sérstakt vandamál fyrir Stjórnarráðið.

Nú hins vegar stendur svo á, hæstv. forseti, að það á að fara að afgreiða fjárlög og mér sýnist einboðið að í framhaldi af þeim svörum sem hér hafa birst, m.a. frá hæstv. forsrh., um að erfitt sé að vinna verkið og vanti mannafla og fjármuni, þá sé einboðið að við flytjum brtt. við fjárlagafrv. í næstu viku um að veittir verði fjármunir til þess á vegum forsrn. og annarra aðila að vinna þá skýrslu sem hér var beðið um þannig að það verði tryggilega gert og mun ég fyrir mitt leyti taka þátt í slíku eða beita mér fyrir því eftir atvikum.