Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:48:33 (1728)

1995-12-08 10:48:33# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:48]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er sérkennilegt að koma úr hópi almennings og verða vitni að vinnubrögðum á borð við þessi, einkum vegna þess að það mál sem hér er um fjallað varðar ekki formshluti eða venjulegan gang mála í stjórnkerfinu, heldur alvarlegt vandamál sem fleiri og fleiri hafa bæði áhyggjur og raunir af í samfélaginu. Forsrh. kemur upp og talar með sínum landskunna hætti um að þetta sé það ítarleg skýrsla sem hér er beðið um að það þurfi sérstaka rannsóknarstofnun til þess að sinna því máli. Hann sendir því málið aftur á þingið þar sem það greinilega sofnar neðst í skjalaskúffum forseta eða forsætisnefndar.

Það er alveg rétt að þetta er ítarleg skýrsla en þetta er líka ítarlegt vandamál. Þetta er mjög mikið vandamál sem ágerist hér á landi og það verður ekki afgreitt eins og oft hefur verið reynt með einföldum frösum þar sem menn geta kastað því fram að það þurfi eitthvert patent í þessum málum. Þetta er vandamál sem herjar á hinn vestræna heim gjörvallan og hefur ágerst hér á landi og það eru einmitt ítarlegar rannsóknir, ítarlegar skýrslur sem eru fyrsta skrefið til þess að finna lausnir á þessum vanda. Þess vegna hefði forsrh. átt að taka málinu fagnandi og biðja þingið þá frekar um aukið fé til þessara mála en að afgreiða það út af borðinu eins og ég segi, með sínum landskunna hætti.