Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 11:17:02 (1737)

1995-12-08 11:17:02# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er komið til umfjöllunar sennilega leiðinlegasta frv. hvers þings, a.m.k. það sem hefur verið einna ókræsilegast undanfarin ár, þ.e. hinn illræmdi bandormur ríkisstjórnar um efnahagsmál. Bandormur heitir hann, vegna þess að þar er slengt saman í eitt fjölmörgum og jafnvel alls óskyldum lagaákvæðum. Með öðrum orðum, þessi siður við lagasetningu felur það í sér að það er vaðið yfir sérlöggjöf á hinum ólíkustu málasviðum með einu frv. og gripið inn í þau með skerðingum gjarnan eða breytingum sem eru þá oft í litlu samhengi við heildarefni viðkomandi löggjafar. Þetta er auðvitað afar óæskilegur og óheppilegur framgangsmáti við lagasetningu af þessu tagi og þýðir til að mynda að oft eru þá uppi mótsagnir í lagaákvæðunum. Það er byggður upp lagabálkur um málefni einhvers málaflokks, hann gengur út frá tilteknum forsendum í sambandi við tekjuöflun og fjárveitingar og á því er byggt en síðan kemur bandormur og kippir þar út úr einhverjum grundvallarákvæðum, til að mynda þeim sem mestu varðar um fjárveitingar eða viðmiðanir eða tekjur á viðkomandi sviði.

Þetta, herra forseti, er ástæða til að minna á í upphafi og ekki síst nú vegna þess að sennilega er leitun að frv. sem hefur komið jafnvíða við og þetta hér. Ég hef ekki talið það saman, herra forseti, hversu mörgum einstökum lagaákvæðum er verið að breyta, en þau eru einhverjir tugir, enda greinar frv. 63 og í flestum þeirra er verið að breyta einhverjum efnisþáttum í sérlögum.

Þá er og ástæða til að gagnrýna það, herra forseti, að þetta mál er afar seint fram komið svo að ekki sé meira sagt og það er líka illa unnið. Greinargerðin er léleg og hún er mótsagnakennd og ég bið hvern þann sem hér er inni að gefa sig fram sem treystir sér til þess að átta sig fullkomlega á samhengi hlutanna og því hverju er efnislega verið að breyta í hverju einstöku tilviki með því að fara yfir umsagnir um einstakar greinar í lagafrv. Það er ekki hægt, m.a. vegna þess að í sumum tilvikum er beinlínis um ranga útlistun á ákvæðum lagagreinanna að ræða.

Ég nefni sem dæmi hvernig fjallað er um 22. og 23. gr. frv. í athugasemdum við einstakar greinar. Þar er annars vegar verið að breyta lögum um málefni fatlaðra, lögum nr. 59/1992, og hins vegar er farið inn í lög nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts. Þegar litið er í umfjöllun um þessar greinar segir hins vegar einfaldlega þetta um 22. og 23. gr.:

,,Með þessum tveimur greinum er lagt til að fjármunum Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði ekki eingöngu varið til framkvæmda og meiri háttar viðhalds heldur einnig til rekstrar á árinu 1996.``

Þarna kemur ekki fram að verið er í 23. gr. að búa til sérstakt þak eða skerðingarþak á erfðafjárskattinn þannig að tekjur af honum umfram 257 millj. renni í ríkissjóð. Og auðvitað er þetta engin umfjöllun sem neinu máli nær eða útlistun á því hvað efnislega er verið að samþykkja eða væri verið að samþykkja með þessum greinum. Þetta er þeim mun ámælisverðara, herra forseti, þegar bandormur á í hlut og menn hafa ekki í höndunum viðkomandi lög. Eða á maður að vera með allt lagasafnið hér uppi þegar verið er að breyta 30--40 sérlögum í einu frv. af þessu tagi? Þarna hefði auðvitað í umfjöllun um einstakar greinar átt að gera grein fyrir efnisákvæðum viðkomandi sérlaga og hverju væri verið að breyta í þeim. Og ég hvet til þess, herra forseti, að þetta verði betur úr garði gert ef sú aðferðafræði verður áfram almennt við lýði að leggja fram svona bandorma.

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á nokkrum efnisatriðum frv. eða reyna það eins og tími gefst til. Það er auðvitað augljóst mál að takmarkaður ræðutími er bagalegur þegar verið er að ræða í raun og veru um 30--40 málaflokka, 30--40 mismunandi lagafrumvörp. Spurningin er hvort ræðutíminn ætti ekki að vera 30--40 sinnum lengri heldur en venjuleg takmörkun. (Gripið fram í: 33.) 33 er upplýst hér, það er verið að breyta 33 mismunandi lögum í frv.

En byrjum þá á byrjuninni. Þá er í fyrsta lagi í 1. gr. skerðing á framlagi ríkissjóðs til Listskreytingasjóðs orðin að varanlegri aðgerð og það á víðar við. Með öðrum orðum, þær breytingar á sérlögum sem gerðar hafa verið með svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum ár frá ári, fyrst gjarnan í lánsfjárlagafrv. og nú í bandormum um efnahagsmál hin síðari ár eru með þessu að verða varanlegar. Menn geta sagt að það sé raunsæi, það sé þrifalegra úr því að svo er komið að þetta hefur meira og minna verið skert ár eftir ár, en það er þá a.m.k. ljóst að um endanlega uppgjöf er að ræða gagnvart því og standa við viðkomandi ákvæði.

Um 2. gr. vil ég segja að þótt þar sé það sama á ferðinni á Kvikmyndasjóður þar í hlut og þar er verið að fella úr gildi þá reglu að framlög ríkissjóðs í Kvikmyndasjóð skuli nema áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu. Svo segir: ,,En flest undanfarin ár hefur framlagið verið skert.`` Það er að vísu rétt, því miður. En sum árin hefur það verið of skert og þessi viðmiðun hefur verið leiðandi varðandi fjárframlög til kvikmyndagerðar. Og það er auðvitað verið að gera meira heldur en bara afnema tenginguna. Það er í raun líka verið að útrýma viðmiðuninni sem þarna hefur verið fyrir hendi, að það bæri að taka mið af því hvað kvikmyndir gefa í tekjur í formi söluskatts eða reyndar virðisaukaskatts í ríkissjóð. Og ég vona að þetta þýði ekki að metnaður núverandi ríkisstjórnar standi þá til þess að stórskerða þessi framlög til kvikmyndagerðar, en eins og kunnugt er hefur það verið dafnandi listgrein í landinu á síðustu árum og jafnvel borið hróður okkar víða og verið umtalsverð landkynning. Íslenskar kvikmyndir hafa náð góðum árangri á erlendri grund fyrir utan það sem mestu máli skiptir að hér er í landinu kvikmyndagerð á okkar eigin tungu, hér eru framleiddar kvikmyndir fyrir okkur sjálf.

Í 3. gr. er verið að gera varanlega skerðingu á tekjum Ríkisútvarpsins á aðflutningsgjöldum og í 5. gr. er verið að breyta ákvæðum þjóðminjalaga um húsafriðunarsjóð. Þar er með afar sérkennilegum hætti staðið að málum svo ekki sé meira sagt, herra forseti, vegna þess að í anda hinnar nýju stefnu er ríkið eða ríkissjóður að ákveða að hann leggi það til húsfriðunar í landinu sem honum sýnist með fjárlagafrv. á hverju ári, en sveitarfélögin skulu áfram leggja fast framlag á hvern íbúa. Þannig að um leið og ríkissjóður leysir með þessu sjálfan sig undan þeirri skyldu að þetta sé tiltekið bundið framlag, þá skal það gilda áfram gagnvart sveitarféögunum. Svona er samkvæmnin í málflutningnum.

Með öðrum orðum, það sem er ekki nógu gott fyrir ríkissjóð og þessi mikla sjálfvirkni og allt það sem má afnema eins og það setji allt um koll að binda framlög til húsfriðunar við 100 eða 150 kr. á íbúa, það skal út gagnvart ríkinu, en sveitarfélögin eru nógu góð til að hafa þetta áfram. Þau skulu lögbundin til þess að leggja þetta til þessa verkefnis á móti ríkinu. Það segir mikið um fjármálalegt sjálfstæði sveitarfélaganna, að þau skulu þá ekki fá að hafa þetta með svipuðum hætti.

Herra forseti. Hvernig er það með fjmrh.? Mun hann ekki vera viðstaddur þessa umræðu og forsrh. af og til.

(Forseti (ÓE): Það má reikna með því. Hann er í húsinu. Ég skal gera ráðstafanir til að hann komi í salinn.)

Já. Það er velviðeigandi að hann sé í húsinu þegar verið er að ræða húsfriðun. --- Um 6. gr. er ekki margt að segja. Þar er stofnlánadeild á ferðinni og verið að gera skerðingar varanlegar. Það sama má segja um 7. og 8. gr. frv. þar sem búfjárræktar- og jarðræktarframlög eru á ferðinni og sömuleiðis 9. og 10. Ég hleyp yfir þetta tímans vegna og líka þá 11. um Fiskveiðasjóð. En svo kemur að 12.--14. gr. og þar er verið að taka upp sérstakt veiðieftirlitsgjald á smábáta, krókabáta og þann afla sem fellur til með svonefndri línutvöföldun yfir vetrartímann. Um þetta atriði vil ég segja með fyrirvara um þá útfærslu sem þarna er gerð, að færa má rök fyrir því að það sé ekki óeðlilegt að úr því að útgerðin í landinu er komin með það verkefni á annað borð að kosta allt veiðieftirlit, þá gildi það fyrir alla og jafnræðið gildi í þeim efnum. Þótt ekki sé þar með sagt að þessi gjaldtaka á smábátana tryggi það eða sé rétt útfærsla á því efni. Þar ber auðvitað að líta til þess hvernig eftirlitinu er háttað og hvað snýr að hverjum og einum. Og almennt er rétt að hafa í huga og minna á það, herra forseti, að fyrri ríkisstjórn stórjók álögur á atvinnugreinina með því að færa kostnað af veiðieftirliti í áföngum allan yfir á útveginn. Það var gert með því að í fyrstu lotu var helmingur kostnaðarins færður á sjávarútveginn og í næstu lotu hann allur. Það segir sína sögu um viðhorfin til atvinnugreinarinnar þrátt fyrir allt talið um að bæta starfsskilyrði atvinnulífsins og létta af því álögum. A.m.k. að þessu leyti hefur sjávarútvegurinn tekið þarna á sig allan kostnaðinn af hinu opninbera eftirliti á skömmum tíma.

Síðan vil ég aðeins staldra við 15. gr., herra forseti, og það kom mér satt best að segja á óvart að sjá ákvæði hennar standa hér inni óbreytt. Þetta varðar samskipti Fiskistofu og ráðuneytis við Fiskifélag Íslands. Þannig er að á árinu 1992 var gert ákveðið samkomulag um tiltekna verkaskiptingu milli hinnar nýju stofnunar, hinnar nýju og miklu stjórnsýslustofnunar sem þá var sett á laggirnar, Fiskistofu --- og aldrei átti að verða að bákni eins og sagt var hér á þeim tíma --- og Fiskifélagsins sem auðvitað var dregið mjög saman í tengslum við þær breytingar. En eftir stóð ákvæði í 4. gr. laga nr. 36/1992, um það að Fiskistofu bæri að semja við Fiskifélag Íslands um tiltekin verkefni sem Fiskifélagið hafði um árabil annast. Nú á að stíga skrefið til fulls og í raun og veru höggva síðustu verkefnin af Fiskifélaginu sýnist manni með því að Fiskistofan fái öll völd í þeim efnum, verði sem sagt heimilað ef hagkvæmt þykir, eins og segir þar, með leyfi forseta, að sjá sjálf um þá þætti í starfsemi sinni eða þá bjóða þá út. Auðvitað er ljóst að með þessu er gerbreytt þessum samskiptum. Það er líka ljóst að með þessu hverfur síðasta lagastoðin sem Fiskifélag Íslands hefur í raun og veru starfað eftir eða haft, sem hefur verið þetta lögbundna hlutverk við upplýsingaöflun og sem Fiskistofunni hefur borið að semja um það við. Og menn skjóta sér á bak við það að þessi þjónusta hafi, eins og sagt er, verið dýr og Fiskistofan hafi verið í veikri samningsstöðu við Fiskifélagið. Það er hægt að orða hlutina með ýmsu móti en ætli það sé ekki þannig að sá sem fjármálunum stjórnar og hefur peningana, fjárveitingavaldið og þá ráðuneytið og síðan Fiskistofa, hafi dálítil völd á hendi í svona samningagerð. Auðvitað er mjög sérkennilegt að sjá þetta orðað svona og greinilegt til hvers refirnir eru skornir. Auk þess veit ég ekki hvort fullyrðingin er sönnuð í sjálfu sér að þarna sé um dýra þjónustu að ræða sem Fiskifélagið hafi okrað á í krafti einhverrar sérstakrar stöðu sinnar. Mér hefur fundist sú stofnun heldur eiga á brattann að sækja undanfarið og þetta er satt best að segja sérkennilegt orðalag.

[11:30]

Ef vandinn er verðlagning þá eru auðvitað til ótal aðferðir til að útkljá það mál aðrar en þessar. Ég hafði vonast til þess í ljósi þeirra upplýsinga sem okkur höfðu borist í sjútvn. um að viðræður væru komnar í gang milli ráðuneytis, Fiskistofu og Fiskifélags að einhver önnur niðurstaða yrði kynnt í þessum efnum sem tryggði friðsamlegt og farsælt samstarf á milli þessara aðila og eyddi þeirri óvissu sem hlýst auðvitað af því fyrir Fiskifélagið að þurfa að semja eiginlega um tilveru sína frá ári til árs. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum með að þessi ákvæði skuli ganga aftur með þessum hætti.

Herra forseti. Ég staldra næst við 18.--20. gr. en þar er á ferðinni satt best að segja afar dapurleg tillaga af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að nýsettum lögum, nr. 69/1995, sem í fólst mikil réttarbót hér í landinu að ég held að allra manna dómi, þ.e. lögin um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, skuli nú meira og minna vera slátrað. Þetta er afar sorglegt metnaðarleysi að loksins eftir langa baráttu er í höfn mikil réttarbót í samfélaginu af þessu tagi skuli þau lög varla ná að verða nema nokkurra mánaða gömul þegar þeim er að meira og minna slátrað. Hér eru ekki þeir stóru fjármunir á ferð að mér finnist það sanngjarnt að ráðast þarna á garðinn. Það er staðreynd sem allir þekkja að þær bætur sem þolendum afbrota, til að mynda ofbeldisafbrota og kynferðisafbrota, eru oft á tíðum eftir dúk og disk dæmdar í seinvirku íslensku réttarkerfi þá er undir hælinn lagt hvort þolendurnir fá nokkurn tímann nokkuð af þeim. Þetta hefur verið reynslan undanfarin ár. Ég hélt satt best að segja að flestir væru orðnir sammála um að það væri nauðsynleg og löngu tímabær réttarbót í samfélaginu að samfélagið gengist þarna í ábyrgð þannig að þolendur afbrotanna þyrftu ekki til viðbótar þeim hörmungum sem þeir hafa gengið í gegnum að búa svo við það að ná ekki umsömdum bótum loksins þegar þær væru þeim dæmdar. Nei, þarna finnur hæstv. ríkisstjórn aðferð til að ná sér í nokkrar milljónir að rústa í raun og veru þessari löggjöf strax á fyrsta árinu sem hún á að gilda. Ég efast reyndar um að sú aðferð sem hér er lögð til að fresta því þá frekar um einhvern tiltekinn tíma að lögin taki gildi en þau taki gildi óskert hefði verið skárri en að leika þau svona eins og hér er lagt til. Hver trúir því að staðið verði við þau að fullu á næsta ári þegar haldið verður á stað með svona skerðingu? Ég geri það ekki. Ég þekki mitt heimafólk og þykist alveg vita að a.m.k. sama metnaðarleysið verði ríkjandi í þessum efnum að ári ef upphafið verður með þessum hætti. (Forsrh.: Þetta er varanleg skerðing.) Þetta er varanleg skerðing, segir hæstv. forsrh., þannig að ekki er einu sinni verið að dulbúa það. Ég óttaðist reyndar að þannig yrði þetta túlkað. Það er gert með því, herra forseti, að í fyrsta lagi er lagt til að ríkissjóður greiði aðeins helming bótanna. Ætla menn þá virkilega að taka sér það vald hér að ákveða að bætur sem dómstólar dæma mönnum séu í raun og veru helmingi of háar, t.d. ef málið liggur þannig að það er borin von að þolandi afbrotsins fái nokkuð fyrir sinn snúð. Við skulum segja að sá sem á honum níddist sé horfinn yfir móðuna miklu eða að hann sé gjaldþrota og það liggi fyrir þegar að því kemur að ríkið gengst í ábyrgð fyrir bótunum. Nei, samkvæmt þessu skulu þær samt lækkaðar um helming. Það er nú öll reisnin.

Í fyrsta lagi er þetta almenna reglan. Í öðru lagi er hækkaður sá þröskuldur sem höfuðstóll kröfu er úr 10 þús. í 100 þús. kr. Í þriðja lagi eru fjárhæðirnar skornar grimmilega niður. Til að mynda er það þannig að hámarksmiskabætur sem ríkið mun bæta eftir þetta verða 400.000 kr. í staðinn fyrir 1.000.000 kr. Hámarksbætur vegna missis framfæranda fara úr 3 millj. kr. í 750 þús. kr. Þetta er afar dapurlegt svo ekki sé meira sagt. Síðan er verið að halaklippa þetta í lokin í fjórða lagi með því að 6. mgr. 7. gr. fellur brott en samkvæmt þeirri grein áttu fjárhæðir að taka verðlagsbreytingum í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Þetta er dapurlegt, herra forseti, satt best að segja. Fyrir þetta allt eiga að hafast ef ég man rétt nálægt 40 millj. kr. og skiptir svo sem ekki miklu máli. Ætli það hafi ekki verið talið að útgjöldin gætu orðið 60--80 millj. kr. ef lögin tækju gildi óbreytt og óskert en með þessum æfingum ætla menn sér að ná nokkrum tugum milljóna króna. Ja svei, segi ég nú bara, herra forseti. Lítið leggst fyrir menn með þessum hætti.

Ég hlakka til að heyra málsvörn hæstv. dómsmrh. þegar hann kemur og útskýrir fyrir okkur réttlætið sem í þessum breytingum felst. Ég vona að hæstv. dómsmrh. sé á mælendaskrá annars sting ég upp á að hæstv. forseti kanni hvort hæstv. dómsmrh. vill ekki fá orðið síðar í umræðunni og ræða um þetta mál. Nú eða einhverjir aðrir hæstv. ráðherrar, t.d. hæstv. heilbr.- og trmrh. eða hæstv. félmrh., sem mega ekki aumt sjá eins og kunnugt er. Það væri vonandi að þessir hæstv. ráðherrar kæmu og lýstu stuðningi sínum við þessi áform hæstv. dómsmrh.

Í 21. gr. er gamall kunningi á ferð sem búið er að ræða hér en það er sú stórbrotna ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að ráðast á tvö sýslumannsembætti í landinu og leggja þau niður. Af einhverri þráhyggju velur hæstv. dómsmrh. að níðast sérstaklega á Bolvíkingum og Ólafsfirðingum. Tveimur byggðarlögum sem eru landfræðilega tiltölulega afskekkt, eru á enda á sínu svæði og hafa a.m.k. lengst af þangað til nú upp á síðkastið búið við mjög erfiðar samgöngur. Þetta er þeim mun sérkennilegra, herra forseti, að fyrir liggur skýrsla um að reyna að endurskipuleggja þjónustu þessara embætta og nýta þau betur. Ég spyr hæstv. dómsmrh. að því hvers vegna hann hefur ekki látið það koma fram eða hvort hæstv. ráðherra er ekki kunnugt um það að nágrannasveitarfélög við Ólafsfjörð hafa boðist til þess að taka þátt í að breyta skipulagi þessara mála á Eyjafjarðarsvæðinu og falla undir sýslumannsembættið í Ólafsfirði ef það mætti verða til þess að það embætti nýttist þá betur og stækkaði þannig að fyrir því sköpuðust betri rekstrarforsendur. Mér er kunnugt um að bæjarstjórn Dalvíkur hefur ályktað um það mál og sent bréf til ráðuneytisins þar sem lýst er vilja Dalvíkurkaupstaðar til að taka þátt í slíkri endurskipulagningu. Ef sveitarfélögin við utanverðan Eyjafjörð að vestanverðu almennt færðust undir embættið í Ólafsfirði, sveitarfélög eins og Dalvíkurkaupstaður, Svarfaðardalur, Árskógssandur og Hrísey, sé ég ekki annað en að þar sé komin eining sem geti fullkomlega réttlætt sjálfstætt embætti. Þetta eru sveitarfélög sem eru að auka samstarf sitt á ýmsum fleiri sviðum og ég fullyrði að það að endurskipuleggja með þessum hætti embættið í Ólafsfirði í stað þess að leggja það niður mundi vera jákvætt skref í samstarfi þessara sveitarfélaga almennt séð. Ég harma að hæstv. dómsmrh. skuli standa svona að málum. Ég mótmæli því og spyr hæstv. dómsmrh. hvort honun hafi ekki verið kunnugt um tilvist þessa bréfs frá Dalvík þegar við áttum orðaskipti um þetta fyrir nokkru eða leyndi hæstv. dómsmrh. því að þessi möguleiki gæti verið í stöðunni. Hvað gengur hæstv. dómsmrh. til? Er það einhver nauðhyggja af hans hálfu að það skuli hvað sem tautar og raular leggja niður þetta embætti eða hvað? Hvers eiga Ólafsfirðingar að gjalda?

Herra forseti. Ég nefndi í upphafi máls míns 22. og 23. gr. um Framkvæmdasjóð fatlaðra og þá útreið sem þar er á ferðinni. Nú á ekki einasta að ákveða að verulegur hluti tekna sjóðsins renni ekki til uppbyggingar heldur í rekstur málaflokksins. Það er því miður hlutur sem við höfum séð þróast á undanförnum árum og nú er þessi prósenta komin í 40% af tekjum Framkvæmdasjóðs. En með 23. gr. er til viðbótar verið að setja þak á tekjur af erfðafjárskatti og það segir að tekjur umfram 257 millj. skuli renna í ríkissjóð. Áætlað er að erfðafjárskattur gefi 390 millj. kr. á næsta ári. Með öðrum orðum eiga 133 millj. af þessum sérmerktu tekjum til málefna fatlaðra að renna í ríkissjóð. Það er eins og gamall og slitinn brandari að segja að þessar tekjur skuli renna í ríkissjóð til þess að kosta einhverja stofnun fatlaðra. Auðvitað skiptir það ekki nokkru máli þegar verið er að skerða tekjur með þessum hætti inn í ríkissjóð á annað borð þó menn séu með einhverjar æfingar af því tagi að merkja þær tekjur frekar en tekjur af virðisaukaskatti eða tekjuskatti eða einhverju öðru, einum málaflokki frekar en öðrum. Þetta er leikfimi og æfingar sem eru satt að segja ekki boðlegar höfundum þessa frv. hversu mikla eða eftir atvikum litla virðingu sem menn bera þó fyrir þeim. Þetta er dapurlegt og ég gagnrýni aftur hvernig þetta mál er sett fram í frv. Það læðist að manni sá grunur að menn hafi skammast sín fyrir það sem hér er á ferðinni og hálfpartinn verið að reyna að fela það með óljósri og villandi umfjöllun í greinargerð frv.

Síðan er komið að málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs í 25.--27. gr. Þar er verið að taka upp nýtt nafn á gjaldi sem renni til atvinnuleysistrygginga. Jafnframt eru felld út ákvæðin um framlög ríkisins til viðbótar þessum tekjum og ég spyr hvers vegna það sé gert. Er það ekki eftir sem áður þannig að ríkissjóður er ábyrgur fyrir því sem upp á vantar vegna fjárframlaga til atvinnuleysistryggingabóta? Hvers vegna er þá verið að henda út þessum ákvæðum sem í gildandi lögum kveða á um að framlög frá ríkissjóði eigi að koma til viðbótar tekjustofnum sjóðsins ef ekki dugar annað til? Ég átta mig ekki alveg á því hvað er verið að gera með því að fella niður b-lið 5. gr. og 15. gr. laganna. Ég bið hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál að útskýra til hvers er verið að því. Eða er ætlunin að skerða þá bæturnar í framtíðinni ef tekjustofninn dugar ekki til? Er verið að fara inn á þá braut? Er verið að afnema bakábyrgð ríkissjóðs á því að atvinnulaust fólk fái sínar bætur? Það læðist að manni sá grunur líka í tengslum við það að fljótlega kemur að því að bæturnar skuli ekki lengur fylgja launaþróun í landinu.

Þá er ég kominn að 28. gr. og þar er einmitt á ferðinni gagnvart atvinnuleysistryggingunum þessi gagnmerka stefnubreyting ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirkni, að afnema tengingar. Þessi aðferð til að undirbúa skerðingu á tryggingabótum og atvinnuleysisbótum heitir á fínu tæknimáli hæstv. ríkisstjórnar að afnema sjálfvirkar tengingar. Mikið hljómar þetta nú fallega. Þjóðin hlýtur að verða glöð þegar hún fær þær fréttir að menn séu í þágu réttlætis og mannúðar að afnema sjálfvirkni og tengingar. En á mannamáli þýðir þetta að ríkisstjórnin er að búa sér til aðferðir til að skerða kjör þessa þjóðfélagshóps sérstaklega. Fari menn í grafgötur um tilganginn skulu þeir fletta upp á greinargerðum fjárlagafrv. þar sem til stóð þegar á fyrsta ári árinu að skerða bæturnar þannig að atvinnulaust fólk, elli- og örorkulífeyrisþegar skyldu ekki fá kjarabætur til jafns við launþega á árinu. Þá er ekki verið að tala um hálaunafólkið og forstjórana. Nei, það er verið að tala um að þessi hópur í þjóðfélaginu fái kjarabætur í sama mæli og lágtekjufólkið því að viðmiðunin er við launataxta lágtekjuhópa. Það er of gott, of mikið fyrir atvinnulausa og aldraða að mati ríkisstjórnarinnar. Nei, það er hugsanlegt að lægst launaða verkafólkið í landinu kynni að fá einhverjar kjarabætur og þá er rétt að hafa tæki í höndunum til þess að taka þær af öldruðum, öryrkjum og atvinnulausum. Það er metnaður ríkisstjórnarinnar þannig að breytingarnar eru satt best segja alveg ömurlegar. Þvílík frammistaða hjá Framsfl., þvílíkur glæsileiki sem einkennir alla framgöngu Framsfl. í þessu máli að ekki er viðspyrna í einu einasta máli hjá Framsfl. Hann liggur hundflatur, með leyfi forseta, fyrir Sjálfstfl. og áratugaþekktri áráttu hans til þess að níðast á velferðarkerfinu. Í hverju einasta máli liggur Framsókn flöt, hvergi viðspyrna. Ég kem aðeins betur að þessu síðar, herra forseti, þegar ég ræði um þetta í tengslum við almannatryggingarnar en þetta er ömurlegt.

[11:45]

Í 30. gr. er fjallað um hinn sérstaka fjármagnstekjuskatt á almannatryggingabótaþega. Ríkisstjórnin, sem heykist á því að taka upp fjármagnstekjuskatt á stórgróðaliðið, hefur fundið sér formúlu til þess að taka upp fjármagnstekjuskatt á aldraða, þá sem fá tryggingabætur. Það er eini hópurin í landinu sem samkvæmt réttlætistilfinningu ríkisstjórnarinnar á að greiða fjármagnstekjuskatt. Ef aldraðir eiga einhvers staðar inni á bók og fá nokkrar krónur í vexti er rétt að skerða bæturnar þeirra á móti. En ef hér skyldu vera menn, jafnvel á þingi, sem eru með 10--12 millj. kr. skattfrjálsar tekjur af fjármagni, eiga þeir ekki að borga krónu enda menn á besta aldri og með góð laun. Auðvitað er ekki rétt að hrófla við þeim eða öðrum stórtekjumönnum á þessu sviði. En sérstakur fjármagnstekjuskattur á aldraða, það er lóðið. Þetta er alveg ömurlegt, herra forseti, og hér er ekki verið að tala um neinn smáskatt því að þær skulu teljast að 70%. Þó að ræðumaður hafi lengi verið áhugamaður um að taka upp fjármagnstekjuskatt og út af fyrir sig tilbúinn til að ganga býsna langt í því að skattleggja þann gróða þannig að hann skilaði sér a.m.k. í ríkissjóð ekki síður en arður sem menn skapa með vinnu og hörðum höndum hefur ræðumaður aldrei látið sér detta í hug að fara í 70%, það verð ég að segja alveg eins og er. Það finnst mér of langt gengið. Jafnvel þó að í hlut ættu helstu gróðamenn þjóðarinnar held ég að það sé fulllangt gengið að taka 70% af þessum verðmætum. En það á að vera í lagi gagnvart þessum hópi. Eru menn ekki hreyknir af þessu? Gaman væri að vita hvað 70% fjármagnstekjuskattur á stjórnarliðið gæfi ef hann væri lagður á. (Gripið fram í.) Það held ég ekki, herra forseti. Er þetta ekki þannig að það er að vísu verið að lækka skerðingarhlutfallið, það skal ekki vera króna fyrir krónu. Hver verður þá fjármagnstekjuskatturinn á þennan hóp? Kannski fáum við útlistun á því. (Gripið fram í: 35%.) 35%. Það er mikill munur og það er sem sagt hin réttláta skattprósenta, 35%, að þetta skuli teljast þannig. Ég skal viðurkenna, herra forseti, að ég hef ekki farið inn í ákvæði laganna til að átta mig á því hvernig þetta kæmi við en ég gat í fljótu bragði ekki ályktað annað úr því 70% eru sett þarna inn en að það kæmi í stað þeirrar skerðingarreglu sem er gagnvart öðrum tekjum. Hún er að vísu mismunandi eins og menn þekkja en í verstu tilfellum er skerðingin króna fyrir krónu, t.d. þegar í hlut á sérstök heimilisuppbót, og það þarf auðvitað að skoða í tengslum við það hvar þetta er sett inn í almannatryggingalöggjöfina til að sjá nákvæmlega út hver skerðingarprósentan verður. Það leiðir mig enn að því, herra forseti, að greinargerðin mætti vera ítarlegri hvað þetta snertir. Það kemur hvergi fram hver hin eiginlega skattprósenta er sem menn eru að greiða. Hvað er umsögnin um 40. gr. löng? Hún er fjórar línur og fjögur orð, herra forseti. Það eru öll ósköpin, allt púðrið sem menn eyða í að að útskýra þessa breytingu.

Herra forseti. Þá er ég kominn að þeim greinum frv. sem snúa að bótum almannatrygginga og þeirri nýbreytni ríkisstjórnarinnar að ákveða að þær skuli miðast við fjárlög hverju sinni. Í 35. gr. er verið að breyta 65. gr. almannatryggingalaganna. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þessi grundvallarkerfisbreyting sem hér er á ferðinni eru kannski mestu ótíðindin í þessu frv. Ég hélt satt best að segja að þó að ýmsar þær skerðingar og ýmislegt það sem hér er verið að leggja til sé harla ógeðfellt eins og að eyðileggja strax á fyrsta ári lögin um ábyrgð ríkisins á bótum til þolenda afbrota og margt fleira er þessi grundvallarkerfisbreyting í íslenska velferðarkerfinu langstærsta pólitíska málið sem hér er á ferðinni. Það fer vel á því að það skulu vera verkföll í Frakklandi út af atlögu þeirrar hægri stjórnar er þar situr að velferðarkerfinu akkúrat sömu daga, betur að slíkur móður væri í mönnum hér vegna þess að hér er auðvitað verið að takast á um grundvallarmál. Spurningin er um það hvernig velferðarkerfi og velferðarsamfélag menn munu vilja hafa á Íslandi. Vilja menn hafa það þannig að þeim sem lakasta hafa stöðuna, þeir sem eru þannig settir í lífinu að þeir þurfa að fá stuðning frá samfélaginu til að geta framfleytt sér, þeir sem þiggja bætur eða atvinnuleysisbætur, séu tryggð lífskjör í takt við þróun lífskjara í landinu almennt eða ekki? Vilja menn hafa þennan hóp þannig settan, sem hefur sennilega lakari aðstöðu til að knýja á um eigin kjarabætur en flestir aðrir, að lífskjör hans skuli ráðast af geðþóttaákvörðunum og duttlungum meiri hluta á Alþingi hverju sinni? Það er greinilegt.

Hvað er verið að boða með þessum breytingum? Að mínu mati er verið að boða átök. Það er verið að boða stríð um þetta mál á hverju einasta ári, það getur ekki orðið öðruvísi. Tilraunum ríkisstjórna til að skerða þessar bætur verður ekki tekið þegjandi og hefur aldrei verið. Þetta þýðir að mínu mati fyrst og fremst það, herra forseti, að ríkisstjórnin er að bjóða upp á átök, t.d. við samtök launafólks á hverju einasta ári um endanlegan frágang þessara mála. Hvernig hefur það verið að undanförnu? Hefur það ekki verið þannig þrátt fyrir allt? Sem betur fer hafa samtök launafólks séð til þess að málefnum þessara hópa væri borgið í tengslum við gerð kjarasamninga sinna og það hefur trekk í trekk á undanförnum árum verið krafa samtaka launafólks að um leið og þeir semdu um sérstakar kjarabætur sér til handa eins og eingreiðslur og uppbætur verði tryggt að þessum hópum kæmi það jafnframt til góða. Kannast hæstv. forsrh. ekki við þetta eftir nær fimm ár í Stjórnarráðinu? Eða hæstv. fjmrh. ef hann er í húsinu, þorir ekki í salinn? Hér er gerð grundvallarbreyting á samskiptum þessara aðila og hún hlýtur að kosta átök og stríð. Auðvitað eru rökin sem færð eru fram fyrir þessari breytingu málamyndarrök. Þau standast ekki. Það er ekki afnám neinnar verðtryggingar að rjúfa samhengi launaþróunar og lífskjara þessara bótaþega. Það er rangt vegna þess að launin á Íslandi eru ekki verðtryggð. Sem betur fer er samið um þau í kjarasamningum að mestu leyti. Þess vegna eru falsrök að segja að það að taka út viðmiðun og tengingu bótanna við tiltekna launaflokka og það reyndar láglaunafólks í landinu sé afnám verðtryggingar. Það er ekki rétt. Það á ekkert skylt við sjálfvirkni eða verðtryggingu í hefðbundinni merkingu þess orðs. Tengingin lýtur fyrst og fremst að því að lífskjör þessara hópa fylgi launaþróun og lífskjaraþróun annarra viðmiðunarhópa í landinu.

Er þetta ekki meira og minna samhangandi eins og við öll vitum? Hvað segir ríkisstjórnin ef hún er búin að gera samninga við ASÍ? Hún segir við alla aðra hópa í þjóðfélaginu: Þið fáið ekki meira. Þið verðið að fylgja þessari þróun. Tengingin er í lagi þegar hún er notuð til þess að tryggja að engir aðrir semji um annað en það sem kannski stærstu samtökin hafa gert á hverjum tíma. Þá má tengja. En það má ekki tengja við launaþróunina þegar lífskjör þessara hópa eru ákvörðuð. Ég endurtek: Þeirra hópa sem hafa kannski lakasta aðstöðu í þjóðfélaginu af öllum til þess að berjast fyrir kjörum sínum. Halda menn að atvinnulaust fólk, fólk sem er nýbúið að missa atvinnu og hefur kannski orðið fyrir einhverju stærsta áfalli lífs síns, sé mjög uppburðugt til þess að fara að heyja kjarabaráttu fyrir sínum hlutum? Er það tilfinning manna að atvinnulausir séu svo öflugur þrýstihópur í þjóðfélaginu að það sé hættulegt og þeir séu líklegir til þess að sprengja kjör sín upp úr öllu valdi? Auðvitað er þetta yfirgengilegur málflutningur og stenst engan veginn.

Herra forseti. Ég held að ríkisstjórnin sé að fara út á mjög hættulega og ógæfulega braut og þetta verði ekki til góðs í samskiptum þessara aðila á komandi árum ef svo heldur sem horfir. Þetta mun kosta árleg átök um lendingu þessara mála í fjárlagafrv. Þetta hlýtur að kosta það að þessir hópar reyna að mynda öflugri samstöðu um hagsmunamál sín og það er auðvitað það eina sem þeir geta gert. Telja menn skynsamlegt og rétt að samtök aldraðra breytist til að mynda í ríkari mæli í þrýstihóp og jafnvel samningshóp um kjör þessara aðila? Svo minni ég á það að hér eru líka á ferðinni öryrkjar og atvinnulausir sem eðli málsins samkvæmt hafa afar slæma stöðu til þess að knýja á um kjör sín. Þetta held ég að sé lakast af mörgu slæmu sem hér er á ferðinni í frv.

Tími minn er senn á þrotum og ég hef ekki tíma til að rekja fleiri ákvæði frv. enda kominn yfir það sem skiptir kannski mestu máli. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er leiðindafrv. svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta er einhver ógeðfelldasti bandormur sem ég hef lengi séð, bæði að innihaldi og líka að ýmsu leyti að kringumstæðum. Ég hefði kosið að betri tími gæfist til að taka fyrir einstök mál og ég leyfi mér að spyrja að lokum hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á ósköpunum að því hvort ekki sé hægt að taka til athugunar þá breytingu í vinnulagi að framvegis verði svona bandormar lagðir a.m.k. fram í nokkrum frumvörpum þannig að öll mál sem varða heilbr.- og trn., öll mál sem varða félmrn. komi í sérfrv. og gangi til þeirrar nefndar sem þar heyra undir. Það er satt best að segja ekki boðlegt þegar sullað er saman 33 mismunandi lagafrumvörpum í eitt slengi af þessu tagi og mönnum síðan gefinn takmarkaður tími til að skoða það og ræða. Og ég minni á að við erum að taka þetta mál fyrir með afbrigðum en því var dreift í gærkvöldi.