Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 13:34:56 (1742)

1995-12-08 13:34:56# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[13:34]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég hlýt í upphafi máls míns að benda á þá alvarlegu staðreynd að hér er aðeins staddur einn ráðherra í salnum. Það er ekki það að ég hafi sérstakt yndi af því að láta þá hlusta á mig, en ég tel samt betur við hæfi að þeir séu viðstaddir umræðuna þar sem þeir hafa ýtt á eftir málinu og það er þeim kært.

Um frv. í heildina er það helst að segja að það er svolítið furðulegt frá stjórnspekilegu sjónarmiði og skattalegu því að í því eru einkum tvær meginhugsanir eða hugsanaflokkar sem ganga ekki alveg upp hverjir í aðra. Menn segja á fagurlegan hátt að nú vilji þeir afnema þau fastákveðnu árlegu útgjöld úr ríkissjóði sem önnur lög kveða á um. Um þá stefnu má hafa tiltölulega fögur orð því að reynslan hefur sýnt okkur að þessar ákvarðanir, þessi gömlu loforð og fyrirheit sem menn hafa gefið í þinginu, hafa síðan ekki staðist þegar kemur að úthlutun úr hinum sameiginlega sjóði landsmanna. Menn hafa skert þessi framlög og um það eru sennilega flestir flokkar sekir sem í ríkisstjórn hafa komist. Það er ekki furðulegt að þeir séu sekir um það því þessar ákvarðanir eru, má ég segja svolítið gamaldags, að ákveða í eitt skipti fyrir öll að framlög úr ríkissjóði skuli vera ákveðin fjárhæð óháð því hvernig sem samfélaginu líður að öðru leyti.

Það má hins vegar um þetta segja og ég bæti því við að þótt gamaldags sé, hefur auðvitað þurft að taka þessa ákvörun hverju sinni. Menn hafa þurft að skerða fyrir fram ákveðnar tekjur og þess vegna þurft að horfa framan í sinn eigin vilja eins og hann var fyrrum, framan í sín eigin fyrirheit. Á fyrstu síðunni eru t.d. fimm greinar sem fjalla um ferns konar menningarefni og þó að fæst af því hafi verið haldið, þá er hugsunin falleg og fyrirheitin þess eðlis að menn hafa kannski gott af því að þurfa að taka ákvörun um að falla frá þeim.

Ég vil hins vegar segja að þó að maður hafi áhyggjur af einstökum framlögum af þessu tagi, skil ég og ég hygg margir, a.m.k. þeir sem hafa þefað af fjármálum ríkisins, þennan vilja sem þar kemur fram.

Hins vegar eru svo greinar í frv. sem kveða á um að sérstök skattheimta sé notuð í almennan rekstur sem er svona kjarninn í fjárlögum hverju sinni, kjarninn í úthlutunum úr sameiginlegum sjóðum, einmitt það sem kennt er í barnaskólum að menn greiði til eftir efnum og ástæðum. Þannig er t.d. um Framkvæmdasjóð aldraðra, Framkvæmdasjóð fatlaðra og ég get nefnt flugvallargjaldið og fleira kæmi til greina að telja upp. Framkvæmdasjóð aldraðra á nú að setja meira og minna í rekstur, að 40 hundraðshlutum minnir mig að standi í lögunum. Nú er þetta þannig að Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður á sínum tíma sem sérstakt átak í framkvæmdamálum fyrir aldrað fólk. Hann var hugsaður þannig að með honum tækist ákveðin þjóðarsamstaða um þau efni. Hann var hugsaður til þess að þvo burt svartan blett af okkar samfélagi, með því að byggja. Síðan átti að sjálfsögðu að reka starfsemina sem færi fram inni í þessum byggingum af almennu fé þar sem fólk borgar eftir efnum og ástæðum.

Framkvæmdasjóður aldraðra er fjármagnaður með nefskatti. Því hyggjast menn halda áfram. Það er meira en þessi rekstur sem settur er á sjóðinn. Það er líka ástæða til þess að skoða sjóðinn sérstaklega vegna þess að þótt átakinu sé alls ekki lokið, samstöðu þjóðarinnar sem myndaðist í kringum þennan sjóð sem fæstir kvarta yfir að greiða nefskatt sinn í vegna eðlilegrar umhyggju fyrir öldruðum og vonar um að þeir muni sjálfir bætast í hópinn, þá hefur Framkvæmdasjóður aldraðra ekki fengið að sinna hlutverki sínu sem skyldi. Hann hefur verið notaður eins og hver önnur bankabók. Menn hafa farið í hann og látið hann sjá um einhverja framkvæmd. Síðan eftir að sú framkvæmd er komin á veg eru dæmi um það að eðli hennar og tilgangi hefur verið breytt og Framkvæmdasjóði aldraðra síðan sigað á aðra framkvæmd sams konar, í sama skyni án þess að ríkissjóður greiði aftur féð sem Framkvæmdasjóðurinn hafði lagt fram. Mig grunar því að sjóðurinn hafi verið misnotaður á margan hátt, enda talar sannleikurinn úti í samfélaginu sínu máli um það að átakinu er ekki lokið. Í Reykjavík hygg ég að um 100 manns bíði eftir vist á hjúkrunarheimili sem ekki hefur verið reist af framkvæmdasjóðnum sem hins vegar hefur verið látinn sjá um að byggja, jafnvel tvisvar og þrisvar yfir sama verkefnið og nú á sem sé að setja að meginhluta til í rekstur. En hann eigum við að borga af fjárlögum með þeim sköttum sem innheimtast eftir efnum og ástæðum manna.

Um Framkvæmdasjóð fatlaðra sem fjármagnaður er með erfðafjárskatti er það að segja að þegar menn fóru út á þá viðsjárverðu braut að láta hann líka greiða fyrir rekstur, var það gert með beinlínis því skilyrði að allar tekjur af erfðafjárskattinum kæmu þar inn. Ég hygg að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hljóti að geta rifjað upp að þar væru tekjurnar fullkomlega óskertar. Nú er búið að skerða þær þannig, þetta er undarlegur bastarður, að 257 millj. af skattstofninum fara þarna inn en samt er þetta sérstakur skattstofn. Og hvað er þá eftir? Af hverju er sjóðurinn ekki fluttur til fyrst búið er að ákveða upphæðina? Hún á að ákvarðast á fjárlögum hverju sinni. Ég hef ekki borið þessa tölu saman við fjárlögin. Ég hygg að þetta séu um 100 millj. sem þarna er skotið undan Framkvæmdasjóði fatlaðra og það er ekki heldur þannig að átakinu sem hann átti að svara sé lokið eins og menn þekkja. Á Reykjavíkursvæðinu munu vera um 200 manns sem bíða eftir vist á sambýli fatlaðra eða búsetuúrræðum öðrum.

Um flugvallargjaldið væri kannski svipað að segja. Flugvallargjaldið var vissulega sett á í fremur óljósum tilgangi en þó til að bæta flugsamgöngur og búa til flugvelli og bæta. Nú á að setja þetta gjald í rekstur. Hvað á það að þýða? Hvað er það? Ef hæstv. fjmrh. væri hér á staðnum, hvar flokkast flugvallargjaldið svona fræðilega innan skattkerfisins? Er þetta skattur á fólk? Er þetta einhvers konar gjald? Er hægt að kæra það til umboðsmanns Alþingis sem ósanngjarnt? Er þetta þjónustugjald eða hvað er þetta orðið þegar það rennur ,,hist og her`` í framkvæmdir og rekstur eins og mönnum sýnist á hverjum tíma?

Raunar grunar mann að hér sé ekki hin fagra, fræðilega og skattalega hugsun að baki eins og haldið er fram í greinargerð með frv. og hæstv. forsrh. ræddi aðeins í morgun, heldur sé hér verið ósköp einfaldlega, þó um það séu höfð ýmis orð, að klípa héðan og þaðan til þess að afla upp í þær um það bil 922 millj. kr. sem eru áætlaður sparnaður við þetta mál. Og maður hlýtur að spyrja og fá um það skýringar hjá hæstv. fjmrh. eða öðrum ráðherrum sem hér kynnu að vera í salnum, hvort sá samsetningur sem hér er fluttur undir hinum fögru fræðiorðum og stjórnspekivísdómi sé kannski til þess öðrum þræði að rugla skattastaðtölurnar, t.d. með samanburði við aðrar þjóðir. Hvað er gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra? Er það skattur? Er það þjónustugjald? Flokkast það í OECD sem skattheimta á Íslandi? Hvað um flugvallargjaldið? Hvernig er þetta með erfðafjárskattinn? Þetta svona læðist að manni af því að maður hefur aðeins veður af því hvernig menn vinna í fjmrn.

[13:45]

Þetta vil ég segja í upphafi og er raunar aðalkjarninn í ræðu minni að menn eru langt frá því að reyna að gæta einhvers samræmis að laga til hlutina með þessum breytingum. Ég verð líka að segja að ég hef af því ákveðnar áhyggjur af því, þótt ég geti tekið mark á ákveðnum rökum, að skera niður framlag sem ákveðið er í sérlögum í ýmsa sjóði. Þau fjögur menningarmál sem hér eru t.d. á fyrstu síðunni. Ég hef auðvitað af því áhyggjur hvað verður um fé til Listskreytingasjóðs eða til kvikmyndamála, til Ríkisútvarpsins eða þjóðminjamála vegna þess að menningarþátturinn í fjárlögunum er því miður oft eitt af því fyrsta sem menn ráðast á sem óþarfa og lækka jafnt og þétt. Það er aðvitað erfitt að treysta ríkisstjórn hverju sinni fyrir þessu án þess að nokkur markmið eða nokkrar leiðbeiningar séu gefnar, jafnvel þótt núv. menntmrh. hafi sýnt ýmsum málum á sínu málasviði meiri áhuga en margir menntmrh. á undan honum, einkum þeir sem úr sama flokki hafa komið. En það þarf auðvitað pólitískan vilja til að standa á bak við þetta og við verðum að vona að hann sé fyrir hendi. Ég ætla ekki að ræða um einstaka aðra þætti, enda hefur það þegar verið gert og á eftir verður það gert enn betur, hugsanlega af hinum ágæta þingmanni, 18. þm. Reykv. En ég verð að segja að ég hef af þessu nokkrar áhyggjur og ég óska eftir svari við því hvort einhver rök önnur séu á bak við þennan mun á hugsun en þau að reyna að kroppa sér út peninga hvar sem hægt er, oft þar sem síst skyldi. Um þetta frv. má kannski að lokum segja það sem Jón á Bægisá sagði um Leirgerði heitna, að hér reki sig hvað á annars horn eins og graðpening hendir vorn.