Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 16:56:09 (1760)

1995-12-08 16:56:09# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[16:56]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru nú það mörg atriði sem komu fram í ræðu hæstv. félmrh. að ekki er nokkur leið að gera þeim skil í andsvari. Þannig að ég áskil mér rétt til að fara yfir þau rækilegar í síðari ræðu minni og aðallega sérkennilegar kenningar hans um fjármagnstekjuskatt. Ég verð að játa að ég hélt að hann væri ekki orðinn svona ,,staffírugur`` eftir tiltölulega stuttan tíma í ríkisstjórn með íhaldinu. En hæstv. fjmrh. má beinlínis vera stoltur af þessum frænda sínum hvað hann hefur numið klækina ótrúlega hratt. Og hugsa ég til þess með óhugnaði hvernig hæstv. félmrh. verður ef hann situr hjá hæstv. fjmrh. í fjögur ár. Ef þetta er í hinu húnvetnska blóði þá líst mér illa á það vegna þess að það var auðvitað alveg ótrúlegt að heyra hæstv. ráðherra rökstyðja með þessum hætti að það væri ekki verið að leggja skatta á fjármagnstekjur. En það er einmitt það sem verið er að gera. Það er verið að leggja hærri skatta á fjármagnstekjur þessa fólks en allra annarra í fyrsta lagi. Og í öðru lagi er verið að taka það á undan öllum öðrum í þjóðfélaginu. Umræðan snýst um það að því er mótmælt, hæstv. ráðherra og líka liggur málið þannig að verið er að tala um að þegar fjármagnstekjuskatturinn verður loksins lagður á þá verði hann í raun og veru ekki nýr viðbótarskattur á fjármagnstekjueigendur heldur fái þeir leiðréttingu eins og Sjálfstfl. kallar það, vegna þess að hér verði ekki um nettóskattahækkun að ræða. Þess vegna er verið að fara sérstaklega illa með þetta fólk, hæstv. ráðherra. Ég mótmæli því sérstaklega og mun ræða það rækilegar hér á eftir í ræðu minni. En hitt er kannski mikilvægt að ég heyrði ráðherrann ekki halda því fram að niðurskurður á sjálfvirkri hækkun bóta Atvinnuleysistryggingasjóðs og almannatrygginga væri á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar. Hann er ekki væntanlega að halda því fram að það sé í samráði við ASÍ og BSRB að þessi niðurskurður á sér stað. Því verður ráðherrann að svara hvort það er ekki örugglega rétt hjá mér að hann er ekki að halda því fram að ASÍ og BSRB hafi skrifað upp á þessa svívirðu sem felst í frv.