Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 16:59:46 (1762)

1995-12-08 16:59:46# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[16:59]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú óska þeim frændum að norðan hjartanlega til hamingju með það að hafa fundið auðkýfinga Íslands núna rétt fyrir jólin og hafa tekið um það ákvörðun að leggja sérstakan fjármagnstekjuskatt á gamalmenni og öryrkja. Það er glæsileg frammistaða og ég verð að segja það að ég hefði ekki spáð því um vin minn, hæstv. félmrh. að hann strax á fyrstu mánuðum veru sinnar í félmrn. yrði jafnblindur á hag almennings og hann virðist vera orðinn.

[17:00]

Annað atriði sem ég ætlaði að nefna, hæstv. forseti, er það að í frv. stendur, 28. gr., varðandi atvinnuleysisbætur og það er mjög mikilvægt að þessu verði svarað. ,,Þó er félmrh. heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð um allt að 3% frá forsendum fjárlaga ...`` Hvað þýðir ,,að fengnu samþykki ríkisstjórnar``? Félmrh. er stjórnvald atvinnuleysistrygginga og hann á að mínu mati að ráða þeim. Það er ekkert til sem heitir ríkisstjórn sem fjölskipað stjórnvald. (Gripið fram í.) Nei, það er rangt. Það er brot á stjórnarskránni. Lítur hann þannig á, hæstv. ráðherra, að hann hafi sjálfstæði í þessu efni eða er hann neyddur til að bera sínar ákvarðanir undir fjmrh.? Þar með, ef það er svo, væri hann að lýsa því yfir að hann væri ekki félmrh. heldur hæstv. fjmrh.