Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:12:11 (1770)

1995-12-08 17:12:11# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:12]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það eru örfá orð sem ég vildi segja, einkum og sér í lagi vegna þess að hv. stjórnarandstæðingar hafa gefið tilefni til þess. Aðrir hæstv. ráðherrar hafa þó tekið af mér ómakið og svarað ýmsum fyrirspurnum sem raunar var beint til mín.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi feðra- og mæðralaun og reyndar hafa aðrir hv. þm. talið það mikla ósvinnu hvernig komið er fram við það fólk sem fær feðra- og mæðralaun í frv. sem hér er til umræðu. Það verður að taka tillit til þess þegar þetta frv. er skoðað að í fjárlögunum er gert ráð fyrir að heilar 500 millj. kr. fari í barnabótaauka og þar er alveg sérstaklega séð fyrir því að það fólk sem hér missir spón úr aski sínum tapi ekki á þeim skiptum. Það er því ekki hægt að líta eingöngu á þetta ákvæði þar sem um er að ræða 120--130 millj. ef ég man rétt, 125 nákvæmlega talað, heldur verða menn að skoða þetta í samhengi við þær breytingar sem verið er að gera á tekjuskattslögunum.

Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, sagði að það væri full ástæða til þess að fá yfirlit yfir stöðuna í fjárlagagerðinni. Það væri nánast ómögulegt á grundvelli þess frv. sem hér er til umræðu að átta sig á því hvar við værum stödd í þeim efnum. Það er út af fyrir sig alveg hárrétt hjá honum að með því að skoða þetta eina tiltekna frv. er ekki hægt að sjá hvernig niðurstaða þess hefur áhrif á fjárlagafrv. að öðru leyti en því sem sagt er í umsögn með frv. Það kemur í ljós að lagaákvæði frv. munu hafa þau áhrif að sparnaður á næsta ári miðað við yfirstandandi ár er 922 millj. og til viðbótar á árinu 1997 213 millj. Þetta segir eitt og sér ekki mjög mikið vegna þess að margt af því sem ríkisstjórnin hyggst gera og er að vinna að í þessum efnum er þannig vaxið að ekki þarf að breyta lögum til að ná markmiðunum fram. Þetta frv. er fyrst og fremst um þær lagabreytingar sem nauðsynlegt er að gera og þarf að gera og eins og fram hefur komið er þetta safn af svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum sem stundum hafa verið í bandormi af þessu tagi og stundum í lánsfjárlagafrv., reyndar oftar.

[17:15]

Hér er gerð tilraun til að koma til móts við óskir sem hafa komið fram á hverju einasta þingi við umræður um lánsfjárlagafrv. um það að breyta lögum varanlega þegar það er ljóst að ár eftir ár hafa stjórnarflokkar á hverjum tíma, og þeir eru nú næstum allir þingflokkar sem eiga sæti á hinu háa Alþingi, boðið upp á það að fresta um eins árs skeið gildistöku ákveðinna greina sem hafa útlát í för með sér. Til að mæta þessum óskum er ekki verið að fresta heldur að breyta lögum þannig að ekki þurfi á hverju einasta ári að koma inn með svokölluð ,,þrátt-fyrir``-ákvæði. Reyndar er í sumum lagagreinunum enn verið að fresta til eins árs, en það byggist yfirleitt á því að verið er að vinna að undirbúningi heildarendurskoðunar á viðkomandi lögum sem verður væntanlega hægt að breyta varanlega á næsta ári. Það er auðvitað ósiður þegar hv. Alþingi samþykkir lagafrumvörp þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum útgjöldum og svo er aldrei staðið við lagaákvæðin. Það er mun þrifalegra að taka slíkar ákvarðanir í fjárlögum á ábyrgð stjórnarmeirihluta hverju sinni fremur en beita þeim aðferðum sem menn hafa notað hingað til. Stundum hefur það viðgengist að menn hafa notað ,,þrátt-fyrir``-ákvæði áratugum saman þótt kannski einu sinni eða tvisvar í upphafi hafi verið farið eftir sjálfum lagaákvæðunum. Ég tel að að þessu sé hreinsun og bót jafnvel þó það séu ekki miklar og háar upphæðir sem um sé að ræða.

Á þessu stigi er ekki hægt að segja nákvæmlega í krónum talið hver staðan er við fjárlagagerðina, en vegna orða hv. þm. finnst mér rétt að láta það koma fram í umræðunum að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar til að halda friði á vinnumarkaðinum mun kosta samanlegt einn milljarð kr. Þetta eru 400 millj. kr. í tekjum vegna flýtingar á fyrirhuguðum lagaákvæðum sem áttu að taka gildi 1997 og hins vegar vegna þess að um aukin útgjöld er að ræða, 450 millj. kr. til almannatryggingakerfisins og 150 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs, samtals 600 millj. Þessar upphæðir eiga að duga til þess að inn í grunn þessara trygginga eða bóta sem um er að ræða verði sett upphæð sem sé um það bil sú sama og almennir launþegar fá í launahækkun um næstu áramót. Það hefur komið fram í umræðunum jafnframt að með þessu er horfið frá svokallaðri frystingu en ekki frá því að uppræta þá sjálfvirkni sem er í þessum lögum og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin lýsti því yfir eins og fram hefur komið að hún myndi leita allra leiða til að koma í veg fyrir að hún þyrfti að hverfa frá markmiði sínu um 4 milljarða kr. halla. Þess sér ekki stað í frv., það er hárrétt. Og það er rétt að það komi fram að í þessu frv. sjáum við ekki slíkar aðgerðir. Ég á reyndar von á að þær munu sjást fyrst, við 2. umr. annars vegar tekjuskattsfrv. sem kemur frá hv. efh.- og viðskn. og hins vegar þegar hv. fjárln. skilar sínu áliti. Á þessu stigi get ég ekki gefið neinar upplýsingar frekar um þetta en ég segi þetta hér til skýringar á vinnubrögðunum af því að það komu fram athugasemdir við vinnubrögð í umræðunni og mér þykir eðlilegt að útskýra þetta. Þetta er auðvitað ekkert nýnæmi í vinnubrögðum. Svona hefur verið farið að á undanförnum árum og það er ekkert nýtt við það að um þetta leyti árs séu stjórnarflokkar jafnvel í viðræðum við aðila á vinnumarkaði að reyna að leita leiða til að sæmileg sátt náist um ríkisfjármálin sem auðvitað eru þau mál sem valda miklu um það hvernig framvindan verður í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Mér er líka ljóst og það hljóta allir þingmenn að sjá að þrátt fyrir það sem ég hef sagt, höfum við ekki náð utan um alla þá þætti sem við ætluðum okkur í fjárlagafrv. Ég bendi á að nú hefur verið samþykktur samningur við sauðfjárbændur sem kostar ríkissjóð 200 millj. á næsta ári umfram það sem kemur fram í fjárlagafrv. Með því að falla frá samræmingargjöldum á sjúkrahúsum tapar ríkissjóður 80 millj. og einnig er ljóst að fjármagnstekjuviðmiðunin getur ekki tekið gildi í upphafi árs. Við það tapast tekjur. Svona mætti telja þannig að nokkur hundruð milljónir mun vanta upp á og gera það enn þá. En menn verða að hafa í huga að með því að tekin var ákvörðun um að stækka álverið í Straumsvík, þá eykst veltan í íslenska hagkerfinu. Sú velta hefur áhrif á ríkissjóð með þeim hætti að gera má ráð fyrir að tekjuaukning hans verði allt að 700--800 millj. þegar allt er tekið og gera má ráð fyrir því að atvinnuleysi verði heldur minna og gæti það skilað sér í betri afkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs upp á 200 millj. eða svo. Þetta þýðir með öðrum orðum að með þeirri veltuaukningu sem fæst af uppbyggingu viðbótarálversins má gera ráð fyrir því að staða ríkissjóðs geti batnað um allt að einum milljarði kr. Þetta þarf að koma fram og skýrir kannski að einhverju marki hvar við stöndum í sjálfri fjárlagagerðinni.

Það er stefnt að því eins og margoft hefur verið sagt og kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hallinn verði ekki langt frá því sem við settum okkur í haust, þ.e. um það bil 4 milljarðar. Frv. sem hér er til umræðu er frv. til laga sem beinist að því að breyta þeim lögum sem þarf til að hægt sé að standa við áætluð markmið fjárlagafrv. Þetta er ekkert nýtt. Þetta þekkja þingmenn sem hér hafa setið en flestir hafa gert það um árabil, þeir sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Hér hefur nokkuð verið fjallað um Atvinnuleysistryggingasjóð og hæstv. félmrh. hefur skýrt það mál mjög vel. Ég vil bæta því við og það kann kannski að koma einhverjum á óvart að í núverandi lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er beinlínis gert ráð fyrir því að sjóðurinn taki lán ef á vantar að hann geti greitt út samkvæmt lögum. Ef ríkissjóður og ríkisstjórnir frá árinu 1990 hefðu farið að þessu lagaákvæði, hefði Atvinnuleysistryggingasjóður þurft að taka líklega rúma 5 milljarða að láni til að standa við skuldbindingar sínar. Það var ákvörðun fyrri ríkisstjórnar og er ákvörðun þessarar ríkisstjórnar einnig að slíkt sé ekki hægt, útilokað sé að fara þannig að. En í stað þess að láta ríkissjóð leggja fram fjármuni til að Atvinnuleysistryggingasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar, óafturkræfa fjármuni, er ráð fyrir því gert nú að lögum um tryggingagjald sé breytt og sjóðurinn fái nægilega fjármuni með þeim hætti sem þar er lýst. Og það er ákvæði í því lagafrv. sem gerir ráð fyrir að endurskoðað sé árlega á hverju sjóðurinn þarf að halda. En 3% markið sem nefnt er í lagafrv. sem hér er til umræðu er eingöngu vikmörk til að festa ekki nákvæmlega niður möguleika ríkisstjórnarinnar á að breyta upphæðum ef þjóðhagsforsendur skyldu breytast verulega á milli fjárlagagerðar á hverjum tíma. Vikmörkin koma auðvitað í stað svokallaðrar sjálfvirkni í atvinnuleysistryggingabótalögunum sem verið er að falla frá, en þar er ráð fyrir því gert að atvinnuleysistryggingabætur fylgi launum á hverjum tíma. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Í umræðum sem snerta ríkisfjármál heyrir maður sífellt sagt að ríkisstjórnir séu að ráðast að launamönnum, sjúkum, gömlum o.s.frv. og það eigi frekar að láta niðurskurðinn bitna á einhverjum öðrum. Þeir sem skoða útgjöld fjárlaganna á hverjum tíma sjá á augabragði að þau eru öll að einhverju leyti nauðsynleg, a.m.k. fyrir einhverja. Um það bil 50 milljarðar fara í rekstur ríkisins og A-hluta stofnana. Af því eru 80% laun, laun til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, laun til BHMR og laun til annarra þeirra sem þiggja laun hjá ríkinu. Þetta eru 80% af 50 milljörðum eða um 40 milljarðar kr. Og það er auðvitað viðkvæmt ef þarf að taka þennan lið niður, það lendir á launamönnum ríkisins.

Í öðru lagi er um að ræða 50 milljarða tæpa til tryggingabóta og skyldra tilfærslna eins og t.d. niðurgreiðslna til húshitunar og annað slíkt. Auðvitað er viðkvæmt að þurfa að skerða slíkar tilfærslur. Það lendir á fólki sem býr við háan hitakostnað. Það lendir á fólki sem fær bætur frá íslenska ríkinu, úr ríkissjóði, úr almannatryggingastarfseminni. Það liggur í hlutarins eðli. Svo borgar ríkið á næsta ári 13 milljarða í vexti. Eigum við ekki bara að lækka þá tölu? Það er ekki svo einfalt af því að ríkið hefur tekið þessi lán annaðhvort hjá lífeyrissjóðunum hér á landi, einstaklingum, íslenskum fyrirtækjum eða hjá lífeyrissjóðum í öðrum löndum. Og við getum ekki gengið til þeirra og sagt: Við höfum bara ekki efni á því að borga ykkur þessi lán til baka.

Loks ganga 13 milljarðar til viðhalds og fjárfestingar sem einnig er viðkvæmur hlutur og við höfum lækkað talsvert í fjárlagafrv. Það er líka viðkvæmt því að þar er um að ræða að byggja upp stofnanir sem margir tala um að séu nauðsynlegar. Þar er verið að veita fjölda manns vinnu við að byggja upp þessar stofnanir og halda þeim við þannig að það liggur í augum uppi að allar skerðingar á útgjöldum í fjárlagafrv. hljóta að vera sárar og þar hlýtur að vera um að ræða viðkvæm mál. Það liggur í hlutarins eðli. Þetta vita allir hv. þm. þó að mér heyrist stundum eins og stjórnarandstæðingar á hverjum tíma tali öðruvísi. Þetta er vitneskja sem öllum er ljós og þarf að endurtaka sífellt í allri umræðunni um ríkisfjármálin.

En það talar enginn um það hér að ríkissjóður er enn rekinn með verulegum halla. Enginn talar um það að með þessum halla er verið að hlaða upp skuldum á framtíðina. Það talar enginn um það í þessum umræðum að þó að við ætlum að greiða 13 milljarða í vexti á næsta ári, þá falla 16 milljarðar í vexti greidda og þá sem falla til án þess að þeir séu greiddir strax vegna skulda íslenska ríkisins. (JBH: Að sjálfsögðu var um það rætt í þessu sambandi.) Kannski hefur einn hv. þm. gert það, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem hefur skorið sig úr þingmönnum stjórnarandstöðunnar og á hann gott skilið fyrir það. En þessir 16 milljarðar jafngilda öllum tekjuskattinum sem íslenskir launþegar þurfa að greiða af launum sínum. 16 milljarðar eru vextir af skuldum. (Gripið fram í.) Eigum við ekki að spyrja þá sem t.d. byggðu stærstu ferjurnar án þess að sjá fyrir því hvenær það borgaði til baka, þá sem sömdu um landbúnaðarmálin og þá sem stóðu að eyðslustefnu á undanförnum árum. (Gripið fram í: Hver var að því?) (Gripið fram í: 11 milljarðar.) Ég hef verið að svara því hér og nú. Mér þykir hv. stjórnarandstæðingar vera harla ókyrrir undir ræðu minni og kann að vera að sannleikanum sé hver sárreiðastur. Mergurinn málsins er einmitt sá að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki lengur hlaðið upp skuldum inn í framtíðina. Það er óverjandi fyrir okkur að velta þessum skuldum á börnin okkar og barnabörnin. Þess vegna erum við til neyddir og umræðurnar nú ganga út á það að taka til hendinni í ríkisfjármálunum. Og þess vegna er það dyggð allra flokka, jafnt þeirra sem eru í stjórnarandstöðu og hinna sem eru í stjórn á hverjum tíma að tala ekki eins og einungis sé hægt að eyða meiru. En það sé aldrei bent á aðrar lausnir í staðinn um það hvar eigi að sækja peningana. Um það snýst þetta mál.

[17:30]

Það snýst einnig um það að nú liggur fyrir betur en nokkurn tíma fyrr sem staðreynd að með því að draga úr halla ríkissjóðs og með því að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum munum við bæta og auka við hagvöxt þjóðarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að með því að lækka vextina tekst okkur að fjölga störfunum og bæta lífskjörin. Um þetta snýst málið. Og við bætum ekki bara lífskjörin fyrir þá sem búa hér í framtíðinni. Við erum að bæta lífskjörin fyrir þá sem eru aldraðir. Við erum að bæta lífskjörin fyrir þá sem eru sjúkir. Við erum að bæta lífskjörin fyrir þá sem búa úti á landi. Við erum að bæta lífskjörin fyrir launamenn ríkisins eins og launamenn annarra. Um þetta þurfum við stundum að hugsa, líka hv. stjórnarandstæðingar. Þetta þarf að koma fram í umræðunni, virðulegi forseti, til þess að sýna fram á að það eru ekki eingöngu einhver óhæfuverk sem menn eru að standa að í þessu frv. Þetta eru nauðsynjaverk til þess að ná fram þeim markmiðum sem allir hugsandi menn sjá að íslenska þjóðin þarf að ná á þessu og næstu árum.