Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:34:56 (1774)

1995-12-08 17:34:56# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er að mörgu leyti ágætur fjmrh. og ég kunni vel við samstarf okkar á síðasta kjörtímabili. Honum verður ekki kennt um stöðuna í ríkisfjármálunum. En hann var að gera því skóna að það væri einkum stjórnarandstöðunni að kenna hvernig þar væri komið. Það vill svo til að þeir voru annarrar skoðunar fyrir kosningar, sjálfstæðismenn. Í blaði þeirra birtist lýsing á þeim mönnum sem þeir hafa núna valið sér að vera með í ríkisstjórn. Þar er sagt að þeir séu óreiðupésar, sukkrarar og þar segir orðrétt: ,,Sagan kennir okkur að framsóknarmenn fara hvorki vel með eigið fé né annarra.``

Þetta eru orð sem hæstv. fjmrh. ber ábyrgð á og birtust í hans eigin kosningablaði. Það þýðir ekki fyrir hann að koma hingað og tala um það að menn vilji ekki greiða fyrir því að ná niður ríkissjóðshallanum. Það þýðir ekki fyrir hann að koma hingað í helgs manns kufli og tala um 13 milljarða í vaxtagreiðslur þegar hann sjálfur hefur ekki haft pólitískt þrek, ekki pólitískan kjark til annars en láta beygja sig í duftið með búvörusamningi sem kostar 12 milljarða og allir vita að hann er á móti. En hann hefur ekki pólitískt þrek til að gera það sem allir góðir menn eiga auðvitað að gera, fara eftir sinni sannfæringu og greiða atkvæði gegn honum. Nei, hann beygir sig í duftið þar. Svo kemur hann hingað og eys sjálfan sig ösku.