Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:40:26 (1778)

1995-12-08 17:40:26# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir viðbrögðum manna er ósköp einfaldlega sú að ræða hæstv. fjmrh. var byggð upp sem árás og ónot í garð stjórnarandstöðunnar. Það vottaði ekki fyrir sjálfsgagnrýni í ræðu hæstv. ráðherra fyrr en núna. Loksins kemur hann hér bljúgur og viðurkennir að auðvitað beri hann mesta ábyrgð á þessu öllu saman og leitar nú liðsinnis. Og það er sannarlega til reiðu af okkar hálfu ef hæstv. ríkisstjórnin er þá tilbúin til að skoða til að mynda hluti eins og tekjuöflun í stað þess að ráðast að framfaramálum eins og réttarbótinni gagnvart þolendum afbrota o.fl. Það er líka spurning um pólitík, hæstv. fjmrh. að gangast ekki eingöngu í þennan vanda með því hugarfari að skera niður velferðarkerfið, það verður líka að skoða tekjuöflunarmöguleika. Þar dró síðasta ríkisstjórn lappirnar. Henni tókst að þvæla fjármagnstekjuskatti út af borðinu í heil fjögur ár og enn er því frestað að leggja á fjármagnstekjuskatt, nema á aldraða og öryrkja. Þetta er spurning um pólitískar áherslur en ekki ágreiningur um að það er nauðsynlegt að ná niður hallanum á ríkissjóði.