Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:45:15 (1782)

1995-12-08 17:45:15# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:45]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það var að sjálfsögðu rangt sem hæstv. fjmrh. sagði að hér hefði ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar verið varað við ástandinu í ríkisfjármálum. Það var svo sannarlega gert. Það var farið með tölur um greiðslubyrði á næsta ári, vaxta og afborgana af erlendum skuldum og tekin líkingin af því að það samsvarar útgjöldum þriggja ráðuneyta, tæplega 35 milljarðar kr. Ræða fjmrh. er þörf áminning um þetta. En hún er flutt á röngum stað. Þessa ræðu ætti hæstv. fjmrh. að flytja kvölds og morgna og um miðjan daginn í þingflokki sínum. Vegna þess að reynslan kenndi mér það í seinustu ríkisstjórn að það sem skortir á er að hæstv. fjmrh., minn herra á öngvan vin, fái þann atbeina sem hann þarf í sínum eigin þingflokki. T.d. þegar hæstv. dómsmrh. flytur tillögur um að sameina sýslumannsembættin, þá er það gert í vitneskju um að það verði kveðið niður af hans eigin samflokksmönnum. Hæstv. fjmrh. hefur lýst þeirri skoðun sinni að það beri að taka upp kostunarprinsippið. Það beri að ætlast til þess að atvinnuvegir greiði fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir þeim, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það hleypur á milljörðum kr. En það er enginn stuðningur á bak við það í þingflokki hæstv. ráðherra og það er þess vegna sem komið er eins og komið er, hæstv. ráðherra.