Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:48:03 (1784)

1995-12-08 17:48:03# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur færst líf í þessa umræður. Þær voru heldur daufar til að byrja með en nú er þetta orðið allt líflegra og það er gott. Þannig þarf það að vera þótt frekar fámennt sé í salnum. Það vekur athygli að það hafa ekki verið margir stjórnarandstæðingar hérna inni. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Í morgun voru á tímabili tveir eða þrír inni. Ég sakna þeirra ekkert svo ég er ekki að kvarta. Þetta er allt eðlilegt og ágætt.

Í frv. sem hér er til umfjöllunar, ráðstafanir í ríkisfjármálum, er einkum tvennt sem er breyting frá fjárlagafrv. Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir að tekið verði upp svokölluð innritunargjöld á sjúkrahús. (Gripið fram í.) Já, þá kemur að því og það er svo skemmtilegt að það þakka sér það allir. Sér í lagi Alþfl. (Gripið fram í: Hvar hefur það komið fram?) Það hefur komið fram hjá hv. formanni þingflokks Alþfl. Hann barði sér á brjóst hér í morgun og sagði: ,,Allt formanni heilbr.- og trn. að þakka.`` Ég verð að segja að það er alveg makalaust ef á að þakka Alþfl. fyrir að leggja ekki sérstök gjöld á sjúklinga því enginn hefur verið jafnseigur við slíkt og Alþfl. Þótt við föllum frá innritunargjaldi eru ýmsir sjúklingaskattar sem fyrrv. ríkisstjórn lagði á sem engin samræming er í og verður mikil vinna að samræma þau gjöld. Vegna þess að þau eru út í hött. Þá það, ef Alþfl. vill þakka sér fyrir þetta sérstaklega, þá er ekkert að þakka, svo vitnað sé í nafn ágætis barnabókar eftir Guðrúnu Helgadóttur.

Ég hef oft sagt það hér í ræðustóli varðandi innritunargjöldin að ég vildi finna aðrar leiðir. Ég vildi leggja á nefskatt. Það fékk engar undirtektir. Samt verður innritunargjald ekki lagt á. Í öðru lagi varðandi breytingar er gert ráð fyrir að lögð verði sérstök gjöld á útgerðina þannig að útgerðin mun borga iðgjöld varðandi slysabætur sjómanna. Þau nema um hundrað millj. kr. Það hefur ekkert verið rætt um þetta gjald. Þetta er nýja veiðileyfagjaldið okkar, ef það skyldi gleðja Þjóðvaka. Fyrst ég er búin að gleðja Alþfl. þá vil ég líka gjarnan gleðja Þjóðvaka. Þetta eru meginbreytingarnar frá því að við lögðum fram fjárlagafrv.

Hér hafa margar spurningar verið bornar fram og ég mun svara þeim. Ég mun byrja á því að svara síðasta ræðumanni, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Hún talaði um mæðra- og feðralaun og sagði að við værum að draga úr mæðra- og feðralaunum. En hver er sannleikurinn í þessu máli? Hver eru raunverulega mæðra- og feðralaun? Með einu barni 1.000 kr. Og þegar búið er að draga af þessu skattinn hvað er þá eftir? 500 kall, segir fyrrv. starfsmaður í Tryggingastofnun. 500 kall. (Gripið fram í: Er það mikið eða lítið?) Það er lítið og tekur því ekki að greiða það og þess vegna er betra að hækka barnabótaauka. Við erum að leggja 500 millj. í barnabótaauka. Nýja fjárhæð í staðinn fyrir þessar 125 millj. sem teknar eru út úr mæðra- og feðralaunum. Þannig ég tel að þetta fólk standi mun betur að vígi eftir en áður.

Ein spurningin varðaði bílalán Tryggingastofnunar. Meiri hluti tryggingaráðs samþykkti að fella niður bílalán til öryrkja. Ég mun standa við það sem ég hef áður sagt. Bílalán verða ekki felld niður.

Spurt um forvarnasjóð og hvar hann sé vistaður. Hann er vistaður í heilbr.- og trn. Það eru áætlaðar um 50 millj. til áfengis- og vímuefnavarna. Einnig er spurt hvernig eigi að nýta sjóðinn. Það verður auglýst eftir tillögum. Þeir sem hafa mesta reynslu varðandi forvarnir eiga möguleika á að sækja í þennan sjóð um eflingu forvarna.

Enn ein spurning varðaði það að formennska í sjúkrastofnunum fylgir ráðherra. Hv. þm. talaði um að það þætti óeðlilegt að formaður í heilbrigðisstofnun ætti ekki heimilisfang á staðnum. Ég tel enga ástæðu til þess. Ég tel að það séu margir sem geta þekkt mjög vel til staðarins þótt þeir búi ekki þar. Einhver hvíslaði því að mér áðan svona til gamans að þetta væri einmitt gert fyrir kratana. Sums staðar væri kannski enginn krati á staðnum og þá væri gott að flytja hann inn. (Gripið fram í.) Já, t.d. Ef við ættum eftir að lenda aftur saman í ríkisstjórn þá væri þetta vinarbragð af okkar hálfu. Ég vona að það verði þá metið Er eitthvað að gerast, spyr hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir. Er ekki alltaf eitthvað að gerast? Nei, þetta er ekki tilboð.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir talaði um að það vantaði heildarsýn varðandi almannatryggingamál og löggjöfina í heild sinni. (Gripið fram í: Það þyrfti heildarsýn á breytingar.) Já, einmitt. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er einmitt í þeirri nefnd sem á að endurskoða almannatryggingalöggjöfina. Ég veit að hún hefur margt til málanna að leggja. Þetta er alveg hárrétt hjá þingmanninum. Það er búið að kroppa í þessa löggjöf hér og þar og alls staðar. Það er mál til komið að endurskoða löggjöfina í heild sinni. Ég efast ekki um að hún mun leggja þar góða vinnu af mörkum. Hún ræddi mjög um ekkjulífeyri og taldi afar slæmt að fella hann niður. Nú er ekki gert ráð fyrir því að þær ekkjur sem eru á lífeyri í dag fái hann ekki áfram. En hún gleymdi alveg að geta þess að um leið og ekkjulífeyrir fellur niður kemur lenging dánarbóta í staðinn. Við lengjum dánarbætur í staðinn. (ÁRJ: ... skýringar á því.) Ég ætla að skýra það út fyrir hv. þm. Um að gera að anda djúpt og vera róleg, þetta kemur allt saman. Það er ekki ólíklegt að ýmsir ekklar séu líka í vandræðum og þess vegna tökum við einnig tillit til þess. Ég tel þetta því réttlætismál. Það sem við erum að gera hér er það sama og allar aðrar Norðurlandaþjóðir hafa verið að gera.

Þá kem ég að Svavari Gestssyni. Hann spurði margra spurninga. Hann spurði um sjúkratryggingagjöld sem atvinnurekstrinum verður nú gert að greiða. Atvinnureksturinn hefur getað fengið endurgreidd sjúkradaggjöld. Sú upphæð hefur verið í kringum 50 millj. Það er gert ráð fyrir því að atvinnureksturinn geti ekki fengið þetta endurgreitt eftir áramót. Hann spurði hvort þetta væru rauntölur þessar 50 millj. og það eru þær. Hann spurði líka um sjúkrastofnanir á Reykjavíkursvæðinu, hvernig ætti að spara þær 200 millj. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það er gert ráð fyrir samstarfsráði sjúkrastofnana á Reykjavíkursvæðinu og á Reykjanesi. Það er gert ráð fyrir því að auka samvinnu á milli þessara stofnana. Það er hægt að samreka ýmsa þjónustuhætti og vissar einingar innan þessara sjúkrahúsa og ná þar með fram sparnaði. Hann spyr líka að því hvernig við ætlum að ná niður 330 millj. með sparnaði í lyfjamálum. Við höfum náð verulegum sparnaði varðandi lyf með viðmiðunarverðskrá og munum ná þeim sparnaði áfram á næsta ári. Það verður strangara eftirlit varðandi greiðslur á nýjum lyfjum. Við höfum ýmislegt fleira á prjónunum varðandi sparnað við lyf. Þetta er mjög stór útgjaldaþáttur hjá ríkissjóði. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði líka ítarlega út í það hvernig við ætlum að ná þeim tölum í fjárlagafrv. sem varða ferliverk. Þeir læknar sem fá að nýta sér aðstöðu inni á sjúkrastofnunum eiga að borga aðstöðugjöld. Það verður gengið enn harðara eftir því en hingað til hefur verið gert. Hann spurði líka hvort ég teldi að reglugerðirnar frá Sighvati Björgvinssyni um ferliverk frá því í september 1992 hefðu lagastoð. Ég ætla ekki að fullyrða það hér hvort reglugerðin hefur lagastoð. Það hefur komið í ljós að ýmislegt varðandi almannatryggingalöggjöfina hefur ekki lagastoð. Þannig að ég ætla ekki að fullyrða það úr þessum ræðustól.

[18:00]

Reglugerðin frá 1992 hefur valdið ýmsum vandamálum í heilbrigðiskerfinu og síaukin ferliverk inni á sjúkrastofnunum hafa orðið þess valdandi að starfsfólk sem vinnur hlið við hlið er ýmist verktakar eða á föstum launum. Þetta er málefni sem við erum með í endurskoðun í heilbr.- og trn. Það er erfitt að vinda ofan af þessu en við ætlum að gera það. (SJS: Var þetta allt ólöglegt hjá Sighvati?) Ég segi það enn og aftur að ég ætla ekki að fullyrða hér úr ræðustól að þetta hafi verið ólöglegt, en það er ýmislegt sem bendir til þess. Í almennum lögum segir að inni á sjúkrastofnunum eigi fólk að fá ókeypis vistun. Ég er ekki löglærð manneskja en hef látið ýmsa líta á þetta, og eins og ég segi, ég ætla ekki að kveða úr um það á þessari stundu. En þetta er verkefni sem við höfum ekki hlaupið frá.

Hv. þm. Svavar Gestsson hafði áhyggjur af því hvernig við ætluðum að ná utan um þær 580 millj. sem er ráð fyrir gert í fjárlagafrv. að nái fram að ganga en nú þegar hefur verið ákveðið að falla frá. Þá er ég að tala um 500 millj. varðandi lífeyrisgreiðslur og í öðru lagi 80 millj. reyndar varðandi innritunargjöldin. Þessar 500 millj. sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fari til lífeyrissjóðsgreiðslna tekur heilbr.- og trn. ekki á sig. Þeim verður dreift á önnur ráðuneyti. Þær 80 millj. sem eftir standa tekur ráðuneytið á sig, innritunargjöldin. Hvernig það verður gert verður skýrt út við 2. umr. fjárlaga.

Það hefur verið mjög fróðlegt að sitja hér í allan dag og hlusta á stjórnarandstöðuna. Það er ekkert undarlegt á neinn hátt að menn spyrji að ýmsu. En það sem stendur samt upp úr er að stjórnarandstaðan virðist vilja skilja fjárlög þannig eftir að það sé 30 milljarða halli á ríkissjóði. (Gripið fram í: Hver segir það?) Ég hef verið að reikna það hér út. Það hafa ekki komið nokkrar einustu hugmyndir um nýjar tekjur, aðeins aukin útgjöld. (Gripið fram í.) Ég hef verið að reikna það út að við erum að tala um 30 milljarða kr. til viðbótar (Gripið fram í: Sem menn hafa verið að krefjast?) sem menn hafa verið að krefjast. Það er nákvæmlega það sem menn hafa verið að tala um hér. (Gripið fram í: Það er gott að þetta er komið á spjöld sögunnar.)

(Forseti (GÁ): Hljóð í þingsal.)

Eða hvað hafa menn verið að tala um annað? (Gripið fram í.) Ef ég tæki allar ræðurnar ykkar og legði þær saman eins og við höfum verið að gera, þá erum við nákvæmlega að tala um þetta. Það eina sem menn eru tilbúnir að fara í er fjármagnstekjuskattur og það er ríkisstjórnin líka og það verður lagður á fjármagnstekjuskattur. Tekjur af honum geta orðið 600 millj., 700. millj. þannig að mér finnst mikið atriði þegar talað er um fjárlagafrv. að menn tali ekki einungis um ný útgjöld heldur leggi eitthvað til varðandi ný gjöld, eða hvar sjá menn að það sé hægt að draga saman? Ég hef ekki heyrt tillögur um það í dag. (Gripið fram í: Margar tillögur hafa komið fram.)