Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 19:48:12 (1812)

1995-12-08 19:48:12# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[19:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson endurtekur spurningar varðandi lagastoð fyrir t.d. liðinn bílalán sem áralöng hefð er fyrir að sé úthlutað úr Tryggingastofnun, allt frá 1947. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemd við þetta mál. Og það er Ríkisendurskoðun sem biður um lagastoð fyrir bílalánum. Bílalán hafa ekki verið afnumin, hv. þm. Bílalán verða ekki afnumin á næsta ári, um það hef ég náð samstöðu við meiri hluta tryggingaráðs.

Það hefur líka komið í ljós að það var engin lagastoð fyrir endurhæfingarlífeyrinum. Við erum að vinna að lagafrv. varðandi þessi tvö atriði.

Varðandi ferliverkin vil ég segja það að hv. þm. hefur oftúlkað þau orð sem hér hafa verið sögð. Það eina sem er á gráu svæði og ég vil skýra fyrir hv. þm. er að sé sjúklingur vistaður á sjúkrahús á hann rétt á ókeypis vistun, en í einstaka tilvikum hefur komið í ljós varðandi ferliverk að sjúklingur er vistaður allt að einum sólarhringi á sjúkrahúsi þótt hann greiði fyrir ferliverkið. Ég tel að þetta geti verið á gráu svæði og við erum að skoða það.