Samstarfssamningur milli Norðurlanda

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 15:06:09 (1821)

1995-12-11 15:06:09# 120. lþ. 59.1 fundur 198. mál: #A samstarfssamningur milli Norðurlanda# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[15:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 248 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta samkomulag frá 29. sept. 1995 um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda frá 23. mars 1962. Samningurinn er oftast nefndur Helsingfors-samningurinn. Hann hefur sætt ýmsum breytingum í gegnum árin eins og gerð er grein fyrir í athugasemdum á þskj. 248.

Eftir að það varð ljóst að Finnland og Svíþjóð yrðu aðilar að Evrópusambandinu ákváðu forsætisráðherrar Norðurlandanna og forsætisnefnd Norðurlandaráðs á fundi í Tromsö 15. nóv. 1994 að setja á stofn nefnd sem fjalla skyldi um framtíð Norðurlandaráðs. Nefndin skilaði frá sér skýrslunni ,,Norrænt samstarf á nýjum tímum``. Þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 1995 féllst á þá stefnu sem kom fram í skýrslunni en jafnframt var forsætisnefnd Norðurlandaráðs falið að gera frekari tillögur að skipulagi og starfsháttum Norðurlandaráðs.

Sumarið 1995 lágu fyrir tillögur forsætisnefndarinnar. Á grundvelli þeirra lagði norræna ráðherranefndin fram tillögu um breytingar á 2., 48., 51. og 55. gr. samstarfssamningsins á fimmta aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í september 1995 sem samþykkti síðan þessar breytingar. Samkomulag um breytingarnar á samstarfssamningnum var síðan undirritað í lok þess fundar 29. sept. 1995 en gert er ráð fyrir að samkomulagið taki gildi í ársbyrjun 1996 og því er nauðsynlegt að ganga frá þessum breytingum.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að í 1. mgr. 2. gr. samstarfssamningsins verði tekið almennt ákvæði um að jafnræðis skuli gætt milli norrænna ríkisborgara við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndum. Frá þessari reglu eru þó undantekningar ef skilyrði um ríkisborgararétt er bundið í stjórnarskrá. Þetta er nauðsynlegt vegna annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga en samkomulagsins sem hér er til umræðu.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum samningsins skulu Norðurlöndin hins vegar stefna að þessu markmiði. Forsætisráðherrar Norðurlandanna beindu því til samstarfsráðherra á árinu 1993 að kannaðir yrðu möguleikar á gagnsemi þess að fella inn í samstarfssamninginn ákvæði um jafnræðisreglu. Nefndir sérfræðinga hafa fjallað efnislega um málið og niðurstaðan orðið sú sem fram kemur í breytingu á 2. gr. samstarfssamningsins. Hér er um að ræða mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu sem höfð verður að leiðarljósi við lagasetningu og lagaframkvæmd á Norðurlöndunum.

Í 51. gr. er gerð sú breyting að reglulegt þing Norðurlandaráðs skuli haldið einu sinni á ári en ekki tvisvar eins og nú er. Hins vegar kemur á móti að það er heimilt að kalla saman aukaþing eða þing um sérstakt málefni þegar uppfyllt eru þau skilyrði sem greinin setur og nú þegar hefur verið ákveðið að slíkt aukaþing skuli haldið í mars nk.

Ýmsar breytingar eru gerðar á 52. gr. Í 1. mgr. kemur almanaksár í staðinn fyrir ár. Breytingar eru einnig gerðar 1. mgr. vegna breytinga á ákvæðum 51. gr. um eitt reglulegt þing Norðurlandaráðs á ári. Loks eru ákvæðin um fjölda fulltrúa felld niður en hann skal hér eftir verða ákvarðaður í þingsköpum Norðurlandaráðs.

Hvað 2. mgr. varðar er afdráttarlaust tekið fram að fulltrúar sérhvers flokkahóps skulu eiga fulltrúa í forsætisnefndinni og jafnframt skal sérhvert land eiga fulltrúa í henni. Þá er skýrt tekið fram að embætti forseta ráðsins færist milli landa samkvæmt þingsköpum Norðurlandaráðs.

Á 53. gr. eru gerðar þær breytingar að 2. og 3. mgr. eru felldar niður en 54. gr. er einfölduð til samræmis við 61. gr. sem tekur til skrifstofu ráðherranefndarinnar. Breytingin á 55. gr. er sú að numið er brott ákvæði um að sérhver tillaga skuli tekin til umfjöllunar í nefnd eða forsætisnefnd áður en hún er tekin til umfjöllunar í ráðinu.

Sú þáltill. sem hér liggur frammi er árangur af löngu starfi. Hér er um að ræða pólitískt samkomulag sem tekist hefur milli fulltrúa Norðurlandanna í Norðurlandaráði. Þetta starf hefur verið unnið í forsætisnefnd og í ýmsum nefndum ráðsins og hér liggur niðurstaðan fyrir. Eins og oft áður má ýmislegt um það segja hvernig til hefur tekist. Það er ljóst að um verulegar breytingar verður að ræða á starfsemi Norðurlandaráðs. Settar eru á stofn nefndir sem hafa ekki verið starfræktar áður. Það er jafnframt ljóst að áhrif stjórnmálaflokka munu aukast verulega að einhverju leyti á kostnað áhrifa einstakra landa. Ég tel mjög þýðingarmikið að þessu starfi er lokið og þetta samkomulag liggur fyrir og ekkert annað að gera en staðfesta þá málamiðlun sem hér er fram komin. Þó að skipulag Norðurlandaráðs sé vissulega mikilvægt er enn þá mikilvægara að starfið geti farið eðlilega fram og deilum um skipulagið linni þannig að hægt sé að taka til starfa af krafti. Ég tel því mikilvægt, hæstv. forseti, að þessu máli ljúki sem fyrst á Alþingi og hægt verði að staðfesta samninginn núna fyrir vikulokin. Með þeim orðum legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.