Samstarfssamningur milli Norðurlanda

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 15:24:28 (1823)

1995-12-11 15:24:28# 120. lþ. 59.1 fundur 198. mál: #A samstarfssamningur milli Norðurlanda# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[15:24]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem liggur fyrir um staðfestingu á breytingum á Helsingfors-sáttmálanum á sér eins og fram hefur komið alllangan aðdraganda á vettvangi Norðurlandaráðs. Um hana er að formi til full samstaða í Norðurlandaráði eins og fram kom á aukaþingi í lok september í haust og við sem eigum sæti í Norðurlandaráði fyrir Íslands hönd stöndum að þessari tillögu. Norrænt samstarf hefur skipað mikinn sess í hugum Íslendinga eins og raunar í hugum Norðurlandaþjóðanna allra um langt skeið eða frá því að rennt var stoðum undir það upp úr 1950 og á sér mikla rótfestu meðal almennings í löndunum. Fyrir okkur Íslendinga hefur þetta samstarf skipt afar miklu máli allan tímann. Á Alþingi og í ríkisstjórnum Íslands á liðinni tíð hafa menn verið sammála um að standa sem best að þessu samstarfi, leggja á það áherslu og rækta það. Við væntum þess að þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera á norrænu samstarfi, takist með starfi allra þeirra sem í reynd vilja standa vörð um þetta samstarf að viðhalda því og helst að efla það en a.m.k. að gæta þess að það fari ekki á hinn versta veg og að það verði úr sögunni og á ég þá við hið opinbera norræna samstarf. Þótt ég og ýmsir fleiri í Norðurlandaráði hefðum haft aðrar hugmyndir á þeim formbreytingum sem verið er að innleiða nú með breytingum á Helsingfors-sáttmála og vinnureglum er ég ekki svo svartsýnn að ekki sé hægt að ná nokkrum árangri í opinberu samstarfi Norðurlanda eftir sem áður. Við sem vorum annarrar skoðunar en meiri hlutinn í Norðurlandaráði varðandi formið sem afgreitt var að því er snertir Helsingfors-sáttmálann á aukaþinginu 29. sept. sl. munum að sjálfsögðu leggja okkur fram um það að sem best takist til á grundvelli þess skipulags sem nú er verið að samþykkja.

Það er rösklega ár síðan staða Norðurlanda og möguleikinn til þess að halda áfram norrænu samstarfi lá fyrir eftir að niðurstaða fékkst í þjóðaratkvæðagreiðslum í þremur Norðurlanda um afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið. Það var mjög eðlilegt að það væri uppi kvíði hjá mörgum sem horfa til norræns samstarfs að það stæði lítið eftir af því í þeirri mynd eins og við höfum þekkt það ef svo hefði farið að aðeins Ísland eitt fimm Norðurlanda, eitt sjálfstæðra ríkja á Norðurlöndum, stæði utan Evrópusambandsins. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslnanna fór fram mikil umræða í Norðurlandaráði um væntanlegar breytingar og það leyndi sér ekki í þeirri umræðu hvert hugur margra stóð sem voru meðmæltir því að Norðurlöndin fjögur sameinuðust innan Evrópusambandsins og þær breytingar sem höfðu verið undirbúnar tóku mikið mið af þessu. Það fór hins vegar svo eins og menn muna að Noregur felldi í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu stjórnvalda og þann samning sem gerður hafði verið um aðild að Evrópusambandinu og sú niðurstaða hafði að sjálfsögðu afar þýðingarmiklar afleiðingar fyrir stöðu málsins. Ég bið menn aðeins um að hugsa það ef við hefðum nú staðið í þeim sporum að Noregur hefði orðið samferða Svíþjóð og Finnlandi inn í Evrópusambandið og við hefðum verið einir þar utan við.

Af forustumönnum fyrir inngöngunni í Evrópusambandið í þessum löndum var ekki farið dult með það að hið formlega norræna samstarf tæki mjög miklum breytingum og mundi að verulegu leyti færast yfir í það form að vera óformlegt samband ríkisstjórna á vettvangi eða í tengslum við vettvang Evrópusambandsins. Norðmenn hnekktu þeirri stefnu að meiri hluta til með því að fella aðildarsamninginn að Evrópusambandinu og þess vegna stöndum við þrátt fyrir allt með formlegt samstarf Norðurlanda sem varðveitir möguleika á áframhaldandi samskiptum og þróun þeirra án þess að það sé fellt undir Evrópuréttinn að öðru leyti en því, sem er auðvitað ekki lítið, sem tengist aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði þar sem Norðurlöndin öll eru aðilar.

[15:30]

Um þetta leyti í desember fyrir ári sátu saman samstarfsráðherrar Norðurlanda og forsætisnefnd ráðsins og lagði á ráðin um hvaða tökum breytingar yrðu teknar eða vinnan við að formfesta breytingar. Það var sett á laggirnar nefnd, svokölluð ,,reformnefnd`` sem undirbjó tillögur fyrir þingið í Reykjavík sem haldin var um mánaðamótin febrúar/mars. Þar var samþykkt viljayfirlýsing byggð á tillögum þessarar nefndar. Fulltrúi þess flokkahóps sem ég starfa í í Norðurlandaráði, vinstri sósíalista, stóð að þessum tillögum í veigamiklum atriðum en hafði þó fyrirvara um nokkra þætti og var ákveðið á þinginu í Reykjavík að fara nánar ofan í saumana á vissum atriðum, en ákveðinn grundvöllur var þó lagður þar.

Að loknu þinginu hafði forsætisnefnd ráðsins undir forustu forseta þess, Geirs H. Haarde, með höndum nánari stefnumótun að því er varðaði samstarfið. Eins og fram kom í máli hv. þm. Geirs H. Haarde var það mikið verkefni og mikil vinna sem í þetta fór og meiri af þeim sökum að ekki náðist full samstaða. Á það bæði við um forsætisnefndina og Norðurlandaráðsfulltrúa varðandi það hvert væri hið æskilegasta form til framtíðar litið.

Á aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 29. september lágu fyrir tvær tillögur, annars vegar tillaga meiri hluta forsætisnefndar sem gerði ráð fyrir því skipulagi sem nú hefur orðið ofan á og var samþykkt í atkvæðagreiðslu í Kaupmannahöfn og hins vegar tillaga frá flokkahópi vinstri sósíalista sem gerði ráð fyrir nokkuð annarri skipan mála að því er varðaði forustu ráðsins og nefndaskipan. Ég legg áherslu á það að við höfðum staðið að samþykktinni í Reykjavík og við töldum í rauninni að í þeirri samþykkt fælist það að ekki yrði farið að breyta róttækt til varðandi nefndaskipan í Norðurlandaráði. Á þetta var hins vegar ekki fallist í framhaldsvinnu og við létum á það reyna á aukaþinginu í Kaupmannahöfn hvort fylgi væri við okkar sjónarmið sem fólst í því að forsætisnefndin væri í rauninni, eins og tillaga meiri hlutans var um, skipuð 11--13 fulltrúum og að fjárhagsnefndin yrði felld niður og lögð undir forsætisnefndina. Um það var ekki ágreiningur. Einnig var lagt til að sett yrði á fót sérstök Evrópunefnd til að fjalla um málefni er varða Evrópu alla en væri þó ekki fjölmennari en með 13--15 fulltrúa. Skilur þar verulega á milli þeirrar tillögu sem varð ofan á að því er snerti slíka nefnd hvað varðar fulltrúatölu, en samkvæmt samþykktri skipan eru það 22 fulltrúar sem í henni starfa.

Síðan var það tillaga okkar að haldið yrði við nefndum á málefnasviðum svipað og verið hefur, þ.e. sérstök efnahagsnefnd starfi áfram, sérstök umhverfisnefnd og menningarnefnd með 13--15 fulltrúum hver og þess utan nefnd sem sameinaði þau svið sem höfðu verið undir laganefndinni og félagsmálanefnd í eins konar félagsmálanefnd sem hefði bæði þessi svið. Þetta var í rauninni það sem bar á milli í sambandi við tillögurnar sem gengu til atkvæða í Kaupmannahöfn.

Það reyndist meiri hluti fyrir tillögu meiri hluta forsætisnefndar eins og við mátti búast og sú varð niðurstaðan. Hins vegar voru fulltrúar úr ýmsum öðrum flokkahópum en þeim sem tillöguna bar fram sem studdu tillögu okkar og mátti þar finna í rauninni fulltrúa úr öllum flokkahópunum sem veittu henni stuðning þó að mikið vantaði á að hún næði fram að ganga.

Hvaða máli skiptir þetta? Jú, það skiptir talsverðu máli að mínu mati hvernig búið er að formi að þessu leyti. Sú skipan sem varð ofan á er mjög sérkennileg, ég held að það greini engan á um það, að búa til þrjár fjölmennar nefndir fyrir utan forsætisnefnd Norðurlandaráðs með 22 fulltrúum í tveimur þeirra og 30 fulltrúum í Norðurlandanefndinni og byggist skiptingin í rauninni á landafræði en ekki á málefnum nema að takmörkuðu leyti. Þetta er skipan sem ég hef hvergi heyrt að væri við lýði í neinum samtökum sem líkja má við Norðurlandaráð og því eðlilegt að margir væru mjög hikandi við þetta. Ég held raunar að það hafi verið miklu meiri stuðningur við þær hugmyndir sem við gerðum tillögu um en fram kom í atkvæðagreiðslu. En eðlilega fylgdi meiri hlutinn forustu sinni í þessum efnum. A.m.k. varð maður var við það að það var mikið hik á mörgum í sambandi við það að velja á milli.

Áhyggjuefnið er kannski sérstaklega það að Norðurlandamálefni sem sett eru undir sérstaka nefnd mjög fjölmenna, fái ekki þá áherslu sem þarf að vera á vettvangi Norðurlandaráðs. Hins vegar er gert ráð fyrir því að heimilt sé að setja á fót undirnefndir og þá nokkuð hliðstæðar því sem hugmyndir voru um af hálfu vinstri sósíalista og þeirra flokkahóps til þess að taka á málum. Þó leysir það ekki allan vanda. Ég nefni hér aðeins eitt dæmi sem sýnir hversu snúið það getur verið að taka á málum með eðlilegum hætti í því nefndakerfi sem nú hefur orðið ofan á, sem er dæmið um umhverfismálin. Umhverfismálin eiga að falla undir svonefnda grannsvæðanefnd eða nærsvæðanefndina, þ.e. nefnd sem á að fjalla um aðliggjandi svæði á Norðurlöndum, í Eystrasaltsríkjum, Norðvestur-Rússlandi og heimskautasvæðið. Þessi nefnd á að hafa forustu um athugun umhverfismála en þau liggja ekki innan Norðurlandanefndarinnar. Og þetta kallar auðvitað á það að byggðar séu einhverjar brýr þarna á milli og kerfið getur orðið allflókið af þeim sökum.

Annar þáttur sem gerir þessa nefndaskipan nokkuð erfiða er að það er engin samsvörun milli hennar og nefndanna sem ráðherraráðið norræna skiptist í. Það getur því verið dálítið erfitt að finna út úr því hverjir það eru sem eiga að tala við hina einstöku ráðherrahópa um málefnin og samsvörunin er sem sagt í rauninni sáralítil þarna á milli. Þetta getur frekar orðið til þess að veikja starfið heldur en hitt, en ég ætla þó ekki að dvelja lengur við þetta atriði. Þetta er búið og gert, ákvörðunin hefur verið tekin og væntanlega munu allir, það á a.m.k. við um þann flokkahóp sem ég starfa í, leggja sig fram um að ná sem bestum árangri út úr því kerfi sem nú hefur verið samþykkt.

Varðandi starfið að þessu máli vil ég taka undir það sem fram hefur komið að Íslendingarnir í Norðurlandaráði lögðu sig fram um að ná sem best saman um þessi mál. Forseti ráðsins hafði auðvitað þá skyldu á herðum að reyna að ná sem breiðastri samstöðu og ég get vottað að Geir H. Haarde, sem forseti ráðsins á þessu ári, hefur lagt af mörkum gífurlega mikið starf við vandasamt verkefni og staðið sig þar að mínu mati með prýði, þótt ég hefði viljað sjá aðra niðurstöðu leidda í höfn undir hans forustu en þá sem varð.

Íslandsdeildin, en svo köllum við þingmannahópinn sem í ráðinu er hverju sinni, fjallaði um málið og sendi inn erindi. Þar var í rauninni mikill stuðningur við að halda því málefnaformi á nefndaskipan sem verið hefur en það fékk sem sagt ekki hljómgrunn hjá meiri hlutanum.

Það eru fleiri þættir sem varða formið og þar á meðal þær vinnureglur sem fjallað var um á þingi ráðsins í Kuopio um miðjan nóvembermánuð. Sú vinna er hins vegar ekki komin í endanlegt form því sérstakur vinnuhópur er að skoða þetta frekar með tilliti til breytinga. Ég vil nefna það hér að ég tel mikla þörf á því að Alþingi búi sem best að því starfi sem fram fer í Norðurlandaráði. Ég tel mikilvægt að aðstaða fyrir Íslandsdeildina sé sem best af hálfu þingsins og ég tel það skipta miklu máli að sú skrifstofa sem stendur að þessum málum fyrir Íslandsdeildina, skrifstofa Norðurlandamála, sem vinnur mjög mikið starf til kynningar á norrænum málefnum og svarar fjölda fyrirspurna, starf sem ekki verður mikið vart við, sú starfsemi verði frekar styrkt heldur en hitt. Og ég vænti þess að um það verði samstaða að halda því formi og styrkja starfsemina að þessu leyti. Á því mun verða vaxandi þörf. Svo mikið er víst að þótt ekki hafi verið gerðar meiri breytingar en raun ber vitni á hinu formlega starfi, þá eru margar spurningar á lofti varðandi framtíðina í þessum efnum og ýmsir sem vilja gera breytingar sem ekki er stuðningur við í okkar hópi frá sjónarhóli Íslendinga.

Þetta var varðandi formið og mætti nefna margt fleira sem ástæða gæti verið til að ræða. T.d. þá breytingu að aðeins eitt formlegt þing verður haldið í Norðurlandaráði í staðinn fyrir tvö eins og verið hefur undanfarin ár.

Ég ætla, virðulegur forseti, aðeins að minnast á vissa þætti sem varða starf ráðsins frekar og þá sérstaklega það sem snýr að umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs um öryggismálefni. Tekin var upp sú nýbreytni að loknu köldu stríði upp úr 1990 að umræða var hafin í Norðurlandaráði, eða heimiluð formlega séð, um utanríkis- og öryggismál. Slík umræða hefur farið fram reglubundið á haustþingum ráðsins frá 1991 að telja, ef ég man rétt. Það er mjög þarfleg nýbreytni og þykir nú í rauninni sjálfsögð að flestra mati þótt það hafi þurft nokkuð fyrir því að hafa að festa hana í sessi í núverandi starfi ráðsins og raunar ekki séð fyrir endann á því. Öryggismálin eru farin að taka á sig mun breiðari svip en áður var sem eðlilegt er og hugtakið um öryggi landa varðar ekki aðeins hið hernaðarlega öryggi heldur einnig marga fleiri þætti eins og á sviði umhverfismála.

[15:45]

Við í flokkahópi vinstri sósíalista í Norðurlandaráði höfum lagt á það áherslu að þetta málasvið fái rúm á vettvangi Norðurlandaráðs og lögðum í nóvember fram tillögu á vettvangi ráðsins í tengslum við þingið í Kuopio tillögu um öryggismál sem nú liggur fyrir forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar er gert ráð fyrir því að sérstök nefnd verði sett á laggirnar til að fjalla um þetta málasvið. Að mínu mati gæti hún verið eins konar tenginefnd á milli forsætisnefndar og forustunnar í öðrum nefndum þó að það sé ekki nánar útfært í okkar tillögum og að öryggismálin verði fastur liður í umræðum innan Norðurlandaráðs. Við leggjum sérstaka áherslu á að umhverfismálin og kjarnorkumálin og það sem þeim tengist, bæði á Norðurlöndum sjálfum og alveg sérstaklega á grannsvæðunum og þá í baltnesku ríkjunum og Rússlandi og raunar í Norðurhöfum, verði tekin með inn í þessa mynd og umræðu og að Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði og reynt verði að færa slíkt svæði út fyrir ramma Norðurlanda til að tryggja og treysta öryggi okkar. Þar er einnig sett fram sú hugmynd að reynt verið að ná saman um sérstakan samning varðandi norðurskautssvæðið, hliðstæðan þeim sem gildir um suðurskautið þar sem reynt verði að tryggja bæði öryggi og útiloka kjarnorku og annað sem getur skapað vá fyrir lífríki á þessu viðkvæma en mikilvæga svæði.

Ég leyfi mér að nefna þetta í tengslum við umræðu um þetta efni vegna þess að ég er sannfærður um að það eru fá svið sem Norðurlöndin sameiginlega gætu beitt sér á mikilvægari en öryggissviðið í víðtækri merkingu þess hugtaks.

Virðulegur forseti. Ég hef átt sæti í Norðurlandaráði síðan haustið 1988 sem fulltrúi í Íslandsdeild og það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa á þeim vettvangi á þessum tíma. Raunar kynntist ég starfi Norðurlandaráðs innan ráðherranefndar þess á árunum 1978--1983 og var það auðvitað ekkert síður fróðlegt. Ég var síðan varafulltrúi milli þess sem ég fór inn í Norðurlandaráð. Ég veit auðvitað að allir á Alþingi átta sig á gildi þessa starfs, en margt af því sem þarna fer fram og unnið er af fulltrúum hverju sinni, hvort sem það er úr ríkisstjórn eða kjörnum fulltrúum á Alþingi, skiptir land okkar mjög miklu máli og við eigum mjög margt að sækja inn á þennan vettvang. Ég vil því hvetja mjög eindregið til þess að Alþingi og ríkisstjórn okkar reyni eftir fremsta megni að treysta böndin við hin Norðurlöndin sem best og viðhalda þessu samstarfi eins og við getum frekast haft áhrif á það og vinna gegn þeirri tilhneigingu sem er uppi að draga úr því bæði fjárhagslega og hvað umsvif snertir. Að mínu mati liggja hagsmunir Íslands þannig að við eigum að reyna að standa sem bestan vörð um þetta samstarf og auðvitað að skapa í því þá dýpt sem felst í frjálsu samstarfi innan Norðurlanda, en til þess að veita því sem traustasta undirstöðu skiptir hið opinbera samstarf á vettvangi þjóðþinga, þingmanna og ríkisstjórna afskaplega miklu máli. Í þessum efnum eru ýmsar blikur á lofti sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni varðandi samnorrænar stofnanir sem verið er að skoða, varðandi hin norrænu fjárlög og fleira af þeim toga sem þörf er að gaumgæfa og reyna að ná sem bestri niðurstöðu í. Ég veit að samstarfsráðherra okkar og hæstv. utanrrh. sem hefur átt sæti í Norðurlandaráði lengi hefur hug á því að þarna náist sem best niðurstaða og hefur fyrr sem þingmaður í Norðurlandaráði reynt að andæfa gegn tilhneigingu til niðurskurðar á fjármagni til starfsemi ráðsins fyrr á árum og ég treysti því að um þetta geti orðið góð samstaða af okkar hálfu þannig að við gerum það sem við getum í þessum efnum.