Samstarfssamningur milli Norðurlanda

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 15:50:29 (1824)

1995-12-11 15:50:29# 120. lþ. 59.1 fundur 198. mál: #A samstarfssamningur milli Norðurlanda# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[15:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað og fagna því að það er mjög góð samstaða um þetta mál. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það má hafa ýmsar skoðanir um það hvernig best sé að skipuleggja starf Norðurlandaráðs og ég get um margt tekið undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það er ekkert alveg öruggt að það skipulag sem nú hefur verið ákveðið sé það besta sem til er. En það er eins og gengur að sitt sýnist hverjum í þessum efnum og ég held að það skipti afar miklu máli að það ríki um það samstaða að byggja á þeim grunni sem þarna hefur verið lagður því að áframhaldandi deilur um það, þó að þær hafi kannski ekki verið mjög alvarlegar, gætu orðið til þess að spilla mjög framtíð Norðurlandasamstarfsins. Það er afar þýðingarmikið fyrir okkur eins og komið hefur fram og það er ekki síst í því ljósi mikilvægt að mál eins og þetta sé afgreitt með góðu samkomulagi á Alþingi. Þess vegna vil ég nota tækifærið til að fagna því, því það gefur okkur sem störfum að þessum málum mun betri möguleika til að hafa áhrif í jákvæðar áttir.