Laun forseta Íslands

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 16:56:13 (1830)

1995-12-11 16:56:13# 120. lþ. 59.3 fundur 224. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[16:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem ein af flm. frv. vil ég fara um það nokkrum orðum þó að flest grundvallarsjónarmið hafi þegar komið fram hjá fyrri ræðumönnum. Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á að meginástæða mín fyrir að styðja frv. kemur fram í 1. og 2. mgr. greinargerðarinnar og er sú að ég tel það grundvallaratriði að allir þegnar landsins séu jafnir fyrir lögum eins og segir skýrt í 65. gr. stjórnarskrárinnar eftir nýsamþykktar breytingar á henni. En þar segir orðrétt: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum.``

Ég tel því reyndar að sú skipan sem nú er viðhöfð brjóti í bága við stjórnarskrána svo og þau ákvæði í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt sem segja að forseti Íslands og maki hans séu undanþegin tekju- og eignarsköttum.

Í öðru lagi legg ég áherslu á það sjónarmið sem kemur fram í 1. mgr. greinargerðarinnar að best fari á því að launakerfi ríkisins sé gagnsætt og það eigi jafnt við um æðstu embættismenn ríkisins sem aðra. Að þessu sögðu tel ég eðlilegt að laun forsetans séu í hlutfalli við aðra háttsetta embættismenn og það er okkar skoðun í Kvennalistanum að þau laun eigi að vera í samræmi við þá sérstöðu og virðingu sem embætti forseta Íslands nýtur meðal þjóðarinnar. Ég ítreka þessi grundvallarsjónarmið hér vegna þess að stuðningur minn og okkar kvennalistakvenna er prinsippmál sem tengist ekki forsetaembættinu að öðru leyti, þ.e. kjörum núverandi eða fyrrverandi forseta. Við erum þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag veiki embættið og því sé tímabært að breyta því án þess að þar með sé verið að halda því fram að skerða beri á nokkurn hátt þau heildarkjör sem forseti Íslands hefur nú.

Vegna orða hv. þm. Kristjáns Pálssonar um að það þurfi verulegar ástæður til að breyta máli af þessu tagi vil ég ítreka það að stjórnarskrárbreytingin frá því í vor er ekki bara góð ástæða heldur kallar hún beinlínis á þessa breytingu sem er í takt við almenningsálitið að ég tel ef marka má þá sterku kröfu sem fram hefur komið í vetur um að alþingismenn sem og aðrir eigi að vera jafnir fyrir lögum. Ef þjóðin verður spurð verður auðvitað að koma skýrt fram að það er alls ekki ætlun okkar kvennalistakvenna að breyta á nokkurn hátt heildarkjörum forseta Íslands heldur fyrst og fremst að gefa forseta Íslands sem öðrum þegnum tækifæri til að vera jafnir fyrir lögunum.