Laun forseta Íslands

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 16:59:48 (1831)

1995-12-11 16:59:48# 120. lþ. 59.3 fundur 224. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[16:59]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði að samkvæmt breytingum á stjórnarskránni ættu allir að vera jafnir fyrir lögunum og það eru náttúrlega allir jafnir eins og lögin ákveða hverju sinni og að sjálfsögðu förum við eftir því. En ég minni á að það eru ýmsir hópar í þjóðfélaginu sem hafa skattaleg sérréttindi af ýmsum ástæðum sem teygja sig, við skulum segja frá forsetaembættinu. Það eru t.d. sjómenn, starfsmenn utanrrn., starfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna og stofnana sem starfa á vegum alþjóðasamtaka og jafnvel aldraðir og ýmsir aðrir sem hafa ýmis sérréttindi samkvæmt lögunum. Spurningin er auðvitað alltaf sú hvað á að ganga langt í þeim efnum. Í mínum huga er ekki ástæða til að gera neinar grundvallarbreytingar í þessu tilviki. Ekki vegna þess að forsetinn hafi ekki efni á því eða embættið, heldur vegna þess að það hefur ekkert bent til þess að þetta sé vilji þjóðarinnar. Því hefur verið lýst yfir að þjóðin vilji þetta. Ég hef hvergi heyrt það. Ég benti aftur á móti á að hugsanlega væri rétt að spyrja þjóðina í skoðanakönnun á vegum Alþingis hvort hún vill í rauninni þessar breytingar á kjörum embættis forseta Íslands.