Laun forseta Íslands

Mánudaginn 11. desember 1995, kl. 17:10:31 (1833)

1995-12-11 17:10:31# 120. lþ. 59.3 fundur 224. mál: #A laun forseta Íslands# (skattgreiðslur) frv., Flm. ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur


[17:10]

Flm. (Ólafur Hannibalsson):

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem þó hefur fengist um þetta frv. nú við 1. umr. Ég fagna því sérstaklega að það hafa líka komið fram andstæð sjónarmið og ýmis rök með og á móti þessari hugmynd sem að hér hefur verið reifuð. Auðvitað er ekki einfalt mál að leggja út í slíka breytingu og á ekki að gera nema að vandlega athuguðu máli. Hv. þm. Kristján Pálsson sagði að menn ættu ekki bara að gera þetta af prinsippástæðum. Ég tel hins vegar þvert á móti að það sé fyrst og fremst af prinsippástæðum sem eigi að gera þetta. Það á að laga þessa grein laga að þeim viðhorfsbreytingum sem orðið hafa í þjóðfélaginu á undanförnum árum.

Varðandi það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um að vísa þessu máli til stjórnarskrárnefndar, tel ég að það sé ekki ástæða til þess vegna þess að hér er ekki um stjórnarskrárbreytingu að ræða. Hér er eingöngu um að ræða breytingu á lögum um launakjör forseta Íslands og það er ekki hróflað við því ákvæði stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um hvernig með þau launakjör skuli farið.

Ég vil ekki hætta mér út í miklar umræður fjarri þessu frv. eins og um ameríska stjórnkerfið og hvort tímabært sé orðið að kjósa framkvæmdarvaldið beint. Ég aðhyllist eindregið þá skoðun að við eigum að greina valdið miklu betur að og koma hér á tregðulögmálum mótvægis eins og eru í Bandaríkjum Norður-Ameríku og er ástæða til að benda á að sú bylting sem framkvæmd var í Norður-Ameríku fyrir rúmlega 200 árum er eina byltingin sem hefur heppnast svo vel í heiminum að stjórnkerfið stendur enn í meginatriðum lítt breytt. Það hefur einmitt innbyggt þessar margvíslegu mótsetningar, Checks and Balances er það trúlega kallað á ensku, og hefur þrátt fyrir það gefist nokkuð vel. Að vísu hefur mörgum stjórnmálamönnum þótt slíkt kerfi mjög seinvirkt. Það er ekki aðeins að fulltrúaþingið og senatið verði að vera sammála með eða á móti forsetavaldinu, heldur kemur og hæstiréttur inn í með umfangsmikið túlkunarvald svo jaðrar við löggjafarvald. En út í þær umræður ætla ég ekki að hætta mér í þessu sambandi. Ég tel að það mál sem hér er til umræðu sé tiltölulega einfalt, hvort tímabært sé að afnema skattfrelsi forseta Íslands, hvort það sé í takt við tímann og þau stjórnarskrárákvæði sem voru samþykkt sl. vor og hvort Alþingi eigi ekki yfirleitt að taka löggjöf sína upp með tilliti til þeirra breytinga sem voru gerðar með því að efla jafnræði þegnanna fyrir lögum og fara út í endurskoðun á fyrri lögum með þetta viðhorf í huga.

Ég vil að lokum leggja til að þetta frv. fari til allshn. og legg það fyrir hæstv. forseta.