Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 14:42:27 (1836)

1995-12-12 14:42:27# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[14:42]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á fundum þingflokksformanna fyrir viku síðan var það fastmælum bundið að við mundum staldra við á Alþingi í dagsins önn á aðventunni, víkja frá hefðbundinni dagskrá og ræða vímuefnavandann, úrræði okkar eða úrræðaleysi. Það er með vilja að ég segi úrræði okkar því sú ægilega vá sem haldið hefur innreið sína í okkar þjóðlíf er sameiginlegt áhyggjuefni og ábyrgðin okkar sameiginlega að leita lausna.

Fjölmiðlar endurspegla umræðu sem á sér stað úti í þjóðfélaginu um þessar mundir. Umfjöllun um áföll og sorg sem þessi vágestur veldur er áleitin og krafan um að bregðast við er hörð. Spurningar brenna á vörum. Fer eiturlyfjaneysla vaxandi? Er neysla komin niður á grunnskólaaldur? Landlæknir setur fram þá spurningu hvort ólögleg neysla vímuefna sé unglingavandamál eða fullorðinsvandamál. Erum við komin með það þjóðfélagsmein sem ekki verður svo auðveldlega læknað? Hvað veldur? Hraði, spenna, samkeppni, erfiðar aðstæður, samskiptaskotur, nýjungagirni, forvitni? Þessar spurningar skipta okkur öll máli því að þetta gæti verið mitt barn og þetta gæti verið þitt barn.

Fyrir skömmu kom út á vegum lögreglunnar í Reykjavík skýrsla um stöðu fíkniefnamála á árinu 1995. Vonandi verður þessari skýrslu fylgt eftir með stöðugum og markvissum rannsóknum því regluleg úttekt og söfnun gagna er vitaskuld lykilatriði í að gera sér grein fyrir umfangi vandans. Þá er vert að geta þess að níu þingmenn hafa óskað eftir viðamikilli skýrslu um fíkniefnamál, að hún verði tekin saman og lögð fyrir Alþingi.

Rannsóknin sem skýrsla lögreglunnar fjallar um byggir á svörum 50 einstaklinga sem handteknir voru af lögreglunni í Reykjavík vegna fíkniefnamála frá 15. jan. til loka apríl á þessu ári. Þar má sjá að neysla hass, marijúana, amfetamíns, LSD og læknadóps virðist hefjast allt niður í 11 ára aldur, þó flestir hefji neyslu eftir að hafa orðið 16 ára. Þar kemur fram að 30% aðspurðra hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Umræða um sjálfsvíg hefur ekki farið hátt hér á landi, enda er það viðkvæmt og vandmeðfarið efni. En ástæða þess að spurt var um þessi mál í rannsókninni var sá orðrómur sem verið hefur uppi um að tíðni sjálfsvíga sé há meðal neytenda fíkniefna.

Þá er fullyrt að erlendar rannsóknir séu á þann veg að um 70% þeirra einstaklinga sem handteknir hafa verið fyrir ofbeldisverk í ákveðnum borgum í Bandaríkjunum hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Á sl. tveimur árum hefur hérlendis verið lagt hald á 76 hnífa, 116 skotvopn, 755 skotfæri, 12 táragasbrúsa og 19 vopn. Það er tekið til þess hversu mikil breidd sé á neysluforminu hérlendis og að þeir aðilar sem rannsóknin náði til virtust neyta mjög margra tegunda efna og þykir eðlilegt að tengja það framboði á hverjum tíma. Vakin er athygli á því að níu einstaklingar segjast hafa neytt heróíns, en það efni hefur ekki fundist hér á landi nema í mjög takmörkuðu magni. Aðilar virðast nálgast efnið í gegnum vini eða útvega vinum sínum slíkt efni og síðan fer neysla oftast fram í félagsskap sama fólksins.

[14:45]

Sú meginregla er dregin fram að heimur fíkniefnaviðskipta hér á landi sé mjög lokaður og að sölumenn hafi sína viðskiptamenn en götusala heyri undantekningu til. Þrátt fyrir að götusala virðist heyra til undantekninga, þá kemur einnig fram að dreifing fíkniefna er talin almenn í framhaldsskólum. Við hljótum einnig að spyrja okkur hvort hið nýja efni sem skotið hefur rótum hér, svokallað ecstasy, sé á leið með að breyta þeirri þróun að götusala sé hér takmörkuð.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér að nota bókstafinn E um þetta efni, ecstasy, þar sem ég tel að varast beri að halda á lofti þeim boðskap sem felst í nafninu alsælu, en þetta efni virðist hafa náð fótfestu í dreifingu á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hald var fyrst lagt á þetta efni árið 1992.

Þegar maður grennslast fyrir hjá þeim sem eru að fást við vágestinn mikla og afleiðingar hans fæst það staðfest að E kom á markað 1993 og neysla þess er mikil, bæði á síðasta og þessu ári og skýrir það aukna umræðu um neyslu efnisins. Á meðan sprautulyf eru vinsæl hjá svokölluðum neytendum virðist E eiga greiðan aðgang að ungu fólki sem annars lítur ekki við fíkniefnum og það er verulegt áhyggjuefni.

Þegar litið er um öxl blasir það við að í upphafi 9. áratugar heyrðist lítið um eiturlyf. Í lok áratugarins voru unglingarnir farnir að eiga við þessi efni, börn alls ekki. Í dag er því haldið fram að fíkniefni séu í skólapartíum. Hvers vegna? Er það vegna þess að töfluformið er einfalt og umfjöllun um efnið spennandi? Er þetta e.t.v. tískufyrirbrigði eða er tilefnið annað og verra? Sumir telja að það sé ekki vera ástand meðal ungs fólks í dag, en viðhorf gagnvart eiturlyfjum virðist hafa mildast. Getur það haft eitthvað að segja að við erum á vissan hátt komin með aðra kynslóð frá því að þessi efni fóru fyrst að koma á markað hér, þ.e. að sá eða þeir sem vinna með unglinga hafa e.t.v. kynnst þessum efnum sjálfir í kunningjahópi á sínum tíma, að það þýði að viðkomandi hafi á þessum efnum öðruvísi sýn? Það er alla vega ljóst að það sem var undir borðinu fyrir nokkrum árum er nú komið upp á borðið. Þarna virðist einhver hugarfarsbreyting, því miður.

Í skýrslu landlæknisembættisins sem kom út árið 1991 var talað um að 500 unglingar 13--19 ára hefðu leiðst út í vímuefnaneyslu. Í dag telja þeir sem gerst þekkja að hópurinn sé stærri og yngri hópurinn fyrirferðarmeiri, en enginn veit hve stór. Það er ljóst að neysla er ekki lengur bundin við suðvesturhornið. Allt landið finnur fyrir þessum vanda.

Það er umhugsunarefni að þó landið okkar sé eyja sem auðveldara ætti að vera en ella að verja, þá vitum við ekki hvort innflutningur á sér stað með flugvélum eða skipum, með ,,burðardýrum`` eða vörusendingum, hvort efnið berst frá höfuðborg til landsbyggðar eða öfugt. Okkur finnst að góð tollgæsla og öflug fíkniefnalögregla eigi að geta náð árangri hér á Íslandi, árangri sem e.t.v. væri ekki hægt að ná annars staðar í öðruvísi landi. En hvernig eigum við að taka á þessum málum?

Á hverju ári eru fluttar tillögur og ályktanir á Alþingi um aðgerðir. Þingmenn og þingflokkar hafa flutt tillögur um námsefni í vímuefnavörnum, að þau verði skyldunám í skólum, tillögur um forvarnastarf, um rannsóknir og úttektir, aðhlynningu og umönnun og síðast en ekki síst um eflingu fíkniefnalögreglunnar. Kallað hefur verið eftir hvort Ísland hygðist staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem gerður var í Vínarborg árið 1988, en staðfesting samningsins þýðir lagastoð til handa löggæslunni til aðgerða á fjölmörgum sviðum.

Á 115. löggjafarþingi var lagt fram stjfrv. um áfengis- og vímuefnavarnir en það náði ekki fram að ganga. Það tók til fræðslumála og forvarnaaðgerða ásamt meðferðarúrræðum. Þá hafa lögreglulög verið í endurskoðun og er full ástæða til að spyrja dómsmrh.: Hvernig verður tekið á rannsóknar- og fíkniefnalögreglu í þeirri endurskoðun og hvenær er frv. að vænta?

Þegar kastljósinu er beint að aukinni neyslu og ofbeldisverkum sem fylgja fíkniefnavandanum finnst okkur allt of lítið hafa þokast fram á við í þessum málum þó við vitum að fjölmargir séu að leggja hönd á plóg til að vinna bug á þessu stóra vandamáli. En hver er stefnumörkun stjórnvalda? Er forgangsröðun okkar skýr? Í nágrannalöndum hefur verið reynt að taka af krafti á stórum málum en sinna jafnhliða litlu málunum með sólarhringvöktum og góðu samspili þeirra aðila sem eru að fást við hin stærri og smærri verk. Höfum við hnýtt það öryggisnet sem okkur ber? Höfum við nætur- og helgarvaktir hjá fíkniefnalögreglu? Ef ekki, stendur til að vinna bót á því? Kostum við til því sem þarf til að taka á stóru málunum og tengja netið?

Við verðum að ákveða hvar við staðsetjum fíkniefnaglæpi, innflutning, fjármögnun og sölu, hvort við teljum þetta til alvarlegustu afbrota. Í Noregi eru þessi afbrot flokkuð næst á eftir manndrápum og kynferðislegu ofbeldi.

En hvað með okkur? Hvernig er háttað samstarfi þeirra er vinna á hinum ólíku sviðum auðgunarbrota, fjársvikamála, fíkniefnamála sem oft eru samtengd? Hvernig er háttað samstarfi tollgæslu, skattyfirvalda og fíkniefnalögreglu og samstarfi landsbyggðar og þéttbýlis? Þetta eru áleitnar spurningar sem við verðum að leita svara við svo unnt sé að byggja upp hið rétta form.

Sjálf er ég sannfærð um það að mikilvægi þess að sami aðili fari með rannsókn umfangsmikilla fíkniefnamála á öllu landinu og að öflug fræðsla um vímuefnavarnir verði sjálfsagður hluti skyldunáms í skólum sé mest aðkallandi. Að þetta, ásamt reglulegri og skipulegri úttekt á vandanum og gagnasöfnun sem gerir það unnt að greina umfang vandans, séu þau lykilatriði sem þarf til að ráða að marki bót á þessari vá.

Mér finnst hins vegar eins og að í fræðslumálum höfum við sofnað á verðinum. Það hafa verið frjáls félagasamtök sem hafa gert stærsta átakið í fræðslumálum og vísa ég þá til Lions Quest verkefnisins fyrir ákveðna aldurshópa sem í samvinnu við fræðsluyfirvöld hefur verið farið með inn í skólana. En opinber stefnumörkun hlýtur að taka til þess hvort tímabært sé að gera vímuefnavarnir að skyldunámsgrein í skólum.

Virðulegi forseti. Ég undanskil engan varðandi þá ábyrgð sem á okkur hvílir, ekki heimilin, ekki skólann, ekki stjórnvöld. Þetta er sameiginleg ábyrgð okkar allra og við verðum að bregðast við fyrst og fremst með fræðslu því að þekking er það sem þarf.