Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 15:13:28 (1839)

1995-12-12 15:13:28# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[15:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eitt mesta heilbrigðisvandamál nútímans er vímuefnaneysla. Neysla íslenskra ungmenna á áfengi og ýmsum vímuefnum hefur farið vaxandi ár frá ári. Nær daglega berast okkur fréttir af afleiðingunum, við heyrum um slys, dauðsföll, glæpi og afbrot og alls kyns ógnir sem beinast að einstaklingum og þjóðinni allri. Við gerum okkur grein fyrir að þar sem fjölmiðlar varpa ljósi er aðeins hluti vandans, það endurspeglar aðeins brot af þeim hörmungum sem við er að glíma. Flestar sorgarsögur ná ekki á síður dagblaða eða í fréttir ljósvakamiðla, en leggja líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra í rúst.

Það er því sannarlega eitt af brýnustu verkefnum samfélagsins að beita sem flestum tiltækum varnarráðum til að koma í veg fyrir að unglingar leiðist út í slíka neyslu. Í þessum málaflokki er alveg ljóst að betra er heilt en gróið og betra er að koma í veg fyrir vandamálið en að leggja fé í meðferð og stofnanir þegar menn hafa ánetjast vímunni. Sífellt koma ný efni á markað og við markaðssetningu er reynt að telja neytendum trú um að efnið sé hættulaust og saklaust.

[15:15]

Nú snýst umræðan um alsælu eða ecstasy, en nafngiftin alsæla er að sjálfsögðu villandi sölutækni. Þetta eiturefni kom fyrst fram hér á landi fyrir örfáum árum en neysla þess virðist vera orðin þó nokkuð útbreidd. Þess eru dæmi að ungmenni, sem ekki hafa neytt fíkniefna fyrr, leiðist út í neyslu alsælu í þeirri trú að engin hætta stafi af neyslunni. En neysla þessa efnis er dans við dauðann eins og neysla annarra fíkniefna. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu eru helstu eituráhrif þessa nýja efnis krampi, hraður púls, ofhitnun, nýrnabilun, gula, heilablæðing, þunglyndi og önnur geðræn vandamál. Hér á landi hafa milli fimm og tíu einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús vegna skyndilegra eituráhrifa. Þunglyndisáhrifin geta komið seint fram og jafnvel þó nokkru eftir að efnisins hefur verið neytt. Ekki er vitað hve mörg sjálfsmorð hér á landi tengjast fyrri neyslu ecstasy.

Um útbreiðslu ecstasy hér á landi liggja ekki fyrir neinar tölur. Samkvæmt upplýsingum frá fíkniefnalögreglunni er hér um vaxandi vandamál að ræða og er mun meira um þetta efni á markaði núna en fyrir nokkrum mánuðum síðan. Sem dæmi um afleiðingarnar má nefna að námsráðgjafar framhaldsskólanna leituðu til landslæknisembættisins í síðasta mánuði þar sem þeir hafa miklar áhyggjur af því hve algengt það er að nemendur eigi við mikið þunglyndi að stríða í kjölfar neyslu þessa efnis og annarra vímuefna.

Virðulegi forseti. Hvað er til ráða? Í undirbúningi er á vegum heilbr.- og trmn. nýtt frv. um áfengis- og vímuefnavarnir eins og hæstv. menntmrh. kom inn á áðan. Í því frv. verða ýmis nýmæli og stefnt að því að tengja starf þeirra er koma að þessum tveimur málaflokkum betur saman en nú er. Reyna þarf því nýjar leiðir til þess að stemma stigu við vaxandi neyslu bæði áfengis og annarra vímuefna. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar en líklegast til árangurs var talið að styrkja það starf sem þegar fer fram á þessu sviði af hálfu fjölmargra aðila.

Því var með lagasetningu nú í sumar, í lögum um gjald af áfengi, nr. 96/1995, í 8. gr., gert ráð fyrir að 1% af innheimtugjaldi renni í forvarnasjóð. Tilgangur þess sjóðs er að stuðla að áfengisvörnum og þann 3. okt. sl. var svo sett reglugerð um starfsemi forvarnasjóðs. Hlutverk sjóðsins er:

1. Að styrkja forvarnastarf félagasamtaka og einstaklinga á sviði áfengisvarna á verkefnagrundvelli með fræðslustarfsemi.

2. Að styrkja rannsóknir er tengjast áfengisvörnum.

3. Að skipuleggja og hafa frumkvæði að verkefnum og rannsóknum á sviði áfengisvarna.

4. Að samræma forvarnastarf á sviði áfengisvarna meðal þeirra ráðuneyta sem fulltrúa eiga í stjórn sjóðsins. --- En það er dómsmrn., fjmrn. og menntmrn. auk heilbr.- og trmrn.

5. Að sinna ýmsum verkefnum á sviði áfengisvarna sem sjóðstjórn mælir með og heilbr.- og trmrh. samþykkir.

Ég bendi á að í reglugerðinni er sérstaklega tekið fram að áhersla skuli lögð á að styrkja verkefni sem snúa að ungmennum og áfengisvörnum. Ég tel að með þessu sé brotið blað í forvörnum á þessu sviði. Það er alkunna að félagasamtök ýmiss konar geta lyft grettistaki á sviði forvarna fái þau til þess eitthvert bolmagn. Þar starfar fólk sem vill leggja málefninu lið og er reiðubúið til að leggja á sig vinnu til þess að ná árangri. Oft þekkja þessir einstaklingar líka vel til mála og vita hvar þarf helst að bregðast við hverju sinni. Í hinu nýja frv. um áfengis- og vímuefnavarnir verður stefnt að því að fara svipaða leið og í forvarnasjóði fyrir áfengisvarnir.

Eins og ég gat um áðan er stefnt að því að samræma vinnuna við þessa tvo málaflokka og að úthlutun til verkefna á sviði vímuefna verði með svipuðum hætti og fyrir áfengisvarnir. Ég vil leggja á það áherslu að hinn nýi forvarnasjóður á ekki að koma í staðinn fyrir þær fjárveitingar sem hingað til hafa farið til áfengisvarna heldur er honum ætlað að koma til viðbótar og styrkja starfið. Áætlað er að um 50 millj. kr. verði varið til þessa málaflokks á næsta ári.

Virðulegi forseti. Ég tel alveg einsýnt að við verðum að takast á við vandann með nýjum aðferðum jafnhliða hinum eldri og bind miklar vonir við þær áherslur sem hér hefur verið lýst. Það er sannarlega mikið í húfi.