Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 15:34:37 (1841)

1995-12-12 15:34:37# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[15:34]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er það að allir þingflokkar á Alþingi eru sammála um að fíknifnavandi ungs fólks sé áhyggjuefni sem Alþingi og þjóðfélagið í heild verði að bregðast kröftuglega við. Þær lýsingar á ástandinu sem fram hafa komið hjá fyrri ræðumönnum í þessari umræðu benda svo sannarlega til að umræðan sé ekki tilefnislaus þó að ekki sé jafnaugljóst hvernig beri að bregðast við.

En hvað er nýtt við stöðu fíkniefnavanda ungs fólks akkúrat núna? Ég spyr vegna þess að sl. 15 ár sem ég hef kennt kennurum um þroska barna og unglinga í Háskóla Íslands hafa komið reglulegar bylgjur í þjóðmálaumræðunni um þessi mál og þessar bylgjur eru ekki alltaf endilega tengdar eðlisbreytingum á neyslu fíkniefna heldur eru þær stundum tengdar því að eitt og eitt mál kemst í fjölmiðla.

Ef litið er yfir söguna svona 5--10 ár aftur í tímann, þá sjáum við að það hafa komið mjög margar opinberar skýrslur fram um þessi mál og þær endurspegla að vissu leyti þessar stöðugu áhyggjur sem eru uppi í samfélaginu en sem koma þó í bylgjum. En ef við lítum á ástandið núna þá tel ég að það séu nokkur ný atriði á ferðinni.

Í fyrsta lagi bendir margt til að hér á landi sé aukið framboð á ólöglegum fíkniefnum sem skýra má m.a. vegna breytinga á fíkniefnamarkaði í Ameríku og þjóðfélagsbreytingum í Austur-Evrópu. Á þessu ári hefur lögreglan lagt hald á fíkniefni fyrir 30 millj. að götuverðmæti sem er svipað og sl. 10 ár, þ.e. sl. 10 ár hefur verðmætið verið 330 millj. á núvirði. Þó ekki sé mikil heildarbreyting í ár varð greinileg aukning á haldlögðu amfetamíni árið 1993 og ástandið virðist svipað í ár. Þá er einnig nokkur aukning á haldlögðu hassi frá sl. ári, en eins og komið hefur fram í umræðunni er aukningin langmest á svokölluðum ecstasy-töflum sem eru ranglega nefndar alsæla. Þetta birtist m.a. í auknum sprautum í umferð.

Í öðru lagi benda íslenskar rannsóknir til að neysla fíkniefna sé að færast neðar í aldri eða allt niður í 11 ára aldur og 13 ára varðandi áfengi. Þetta er í samræmi við erlendar rannsóknir, en vert er að taka fram strax að langflestir unglingar hefja neyslu síðar eða um 15--16 ára aldur. Þetta segir mér fyrst og fremst að ástandið hér varðandi áhættuhópa er ekkert betra en í nágrannalöndunum, er í raun og veru að komast í nákvæmlega sama horf og í nágrannalöndunum.

Í þriðja lagi er ljósara en áður að fíkniefnavandinn er engan veginn bundinn við Stór-Reykjavíkursvæðið.

Í fjórða lagi höfum við nú á Íslandi varanlegt atvinnuleysi í fyrsta skipti sem ungt fólk reynir sjálft, bæði á vinnumarkaði og einnig í sínum uppvexti, og þetta er áhættuþáttur sem er ástæða til að hugsa betur um en hingað til hefur verið gert.

Að síðustu vil ég nefna, sem er nýjung, það merkilega átak sem átt hefur sér stað í Reykjavíkurborg sem að mati lögreglu er gott dæmi um vel heppnað átak sveitarfélags í þessum efnum með þeim afleiðingum að svokallaður miðbæjarvandi er að verulegu leyti úr sögunni. Það eru því líka ljósir punktar á þessu sviði að eiga sér stað núna og þá ber að skoða og læra af og ég kem nánar að því síðar í máli mínu.

Þó að vissulega sé ástæða til aðgerða nú þá lít ég á þetta sem lið í alþjóðlegri þróun, eða afturþróun kannski, sem við verðum að svara með mjög ákveðnum hætti. Full ástæða er til að hæstv. utanrrh. hugi að samstarfi við nágrannalöndin á þessu sviði því að fíkniefnin tengjast ofbeldi og glæpum í vaxandi mæli og mér finnst ekki ólíklegt að þessi mál muni fá meira rými á vettvangi utanríkissamskipta eftir að járntjaldið féll, bæði vegna þess að öryggismálin eru kannski ekki eins í forgrunninum og vegna þess að fíkniefnamálin valda vaxandi vandamálum.

En hvað getum við gert í stöðunni núna? Þessi mál má nálgast á marga mismunandi vegu en ég kýs að skoða þau út frá tveimur sjónarmiðum: Hvernig má minnka framboðið á þessum efnum og hvernig má minnka eftirspurnina. Ég hef reyndar kynnt mér seinni liðinn mun betur en hinn fyrrnefnda.

Ein af þeim fyrirliggjandi skýrslum sem ég hef kynnt mér, og flestir ábyggilega sem hér eru, er skýrsla samstarfsnefndar ráðuneyta um ávana- og fíkniefnamál frá því í mars 1995. Þar er m.a. lagt til að efla löggæslu, m.a. með því að yfirstjórn fíkniefnamála við lögreglustjóraembættið í Reykjavík verði gerð skilvirkari og boðleiðir styttar, að fíkniefnadeildin verði efld með fjárframlögum. Einnig að formlegum samskiptum verði komið á á milli lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, fíkniefnadeildar, rannsóknadeildar ríkistollstjóra og sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli til að gera rannsókn mála skilvirkari. Þá er mælt með aukinni tollgæslu, m.a. vegna aukinna skipakoma og umskipun á gámum og vegna millilandaflugs, m.a. til Akureyrar og Egilsstaða. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það hafi verið gert eitthvað með þessar tillögur í hans ráðuneyti eða á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Okkur kvennalistakonum er ljóst að það er nauðsynlegt að bregðast við því vaxandi framboði á fíkniefnum sem hér er og við áttum okkur á að um alþjóðleg viðskiptasambönd geti verið að ræða. Því verður að efla fíkniefnalögregluna og gera henni kleift að stunda rannsóknir sínar í tengslum við rannsóknir á auðgunarbrotum af ýmsu tagi. Mikilvægast af öllu er að ná til þeirra sem dreifa fíkniefnum og það þarf að nota þá refsiramma sem til staðar eru í íslenskri löggjöf og að stækka þá því það vekur furðu hversu vægt dómstólar taka á málum af þessu tagi. Hagnaðarvonin er of mikil miðað við þá refsingu sem í húfi er. Við óbreytta dómaframkvæmd og óbreytt framlög og skipan fíkniefnalögreglunnar mun framboðið á fíkniefnum ekki fara minnkandi og þessu verður að breyta.

Hin hliðin á þessu máli er að reyna að minnka eftirspurnina eftir fíkniefnum, gera þau lítt eftirsóknarverð, hjálpa þessu unga fólki til að forðast þau með öllu og þá á ég við ólögleg fíkniefni því að ég tel að nokkru öðru máli gegni um áfengi. Forvarnir varðandi áfengi verða að miðast við raunveruleikann, þ.e. að ungt fólk neytir áfengis og því verða fíkniefnavarnir og fræðsla á því sviði að miðast við það. Annars verður ekkert á okkur hlustað.

En þó að athugun okkar á Alþingi í dag beinist að ungu fólki og vímuefnum, þá vil ég leggja áherslu á að vímuefnavandinn í þjóðfélaginu er ekki síst vandamál fullorðna fólksins og að það eru líka til mjög margir unglingar sem alls ekki misnota ávana- og fíkniefni. Ég held að við ættum að leggja áherslu á það að stimpla ekki alla unglinga vegna þessa vandamáls því að langflestir íslenskir unglingar eru hressir krakkar, sem prófa sig áfram með það löglega fíkniefni sem áfengi er. Ungt fólk er ekkert meira vandamál en fullorðna fólkið en það er frekar skilgreint sem vandamál af því að löglega má það ekki kaupa áfengi.

Íslenskar rannsóknir á ávana- og fíkniefnanotkun unglinga eru ekki margar en þær benda þó til að það sé margt líkt með þeim hópum sem hér ánetjast fíkniefnum og kemur fram í erlendum rannsóknum: Í fyrsta lagi er áhættuhópurinn einstaklingar sem hafa ákveðin vandamál, þeir eru mjög reiðir unglingar eftir sinn uppvöxt, þeir eru hvatvísir, oft þunglyndir eða standa höllum fæti í þjóðfélaginu eða í skóla. Í öðru lagi eru einstaklingar þar sem fjölskyldutengsl eru ekki þannig að þeim líði vel og í þriðja lagi eru einstaklingar sem eiga vini sem taka þátt í áfengis- eða fíkniefnaneyslu.

[15:45]

Allir þekkja undantekningar frá þessu. Við þekkjum öll heilbrigða einstaklinga, sem eru frá góðum heimilum, en lenda samt í fíkniefnum. Það er einmitt eðli fíkniefnanna að enginn veit fyrir fram hvernig hann bregst við þeim. Ég tel að það sé mjög mikilvægt núna að allir taki höndum saman og bregðist við þessu vandamáli og í því sambandi vil ég í fyrsta lagi beina athyglinni að skólunum. Í tillögum áðurnefndrar samstarfsnefndar ráðuneyta er lagt til að námsefnið ,,Að ná tökum á tilverunni`` verði sett á námskrá allra grunnskóla og að komið verði á heilsdagsstarfi í fíkniefnavörnum í menntmrn. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt vegna þess að viðhorf unglinga tengjast fíkniefnaneyslu þeirra og þetta námsefni tekur á viðhorfum þeirra og því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvað hann hafi gert í þessu máli og hvort það sé að komast í framkvæmd.

Þá tel ég að fræðslu- og forvarnastarfið sé almennt ekki nægilega vel samhæft og það þurfi að styðja við skipulagðar forvarnir eins og t.d. fræðslumiðstöð í forvörnum. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. hvort og hvernig forvarnasjóði verði varið og hvort eitthvert heildstætt kerfi sé í burðarliðnum að því leyti.

Varðandi foreldra unglinga þá tel ég verulega ábótavant hvað þeim stendur til boða. Ég tel að efla þurfi almenna foreldrafræðslu um þessi mál, reyndar um uppeldismál almennt, og að hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár yrði til bóta að þessu leyti. Ungir fíkniefnaneytendur eru mjög oft heimilislausir eins og kemur fram í íslenskum rannsóknum, þó að þeir séu ekki nema 16 ára gamlir. Ef þeir eru í skóla mæta þeir oft illa án vitundar foreldra. Ef sjálfræðisaldur væri hækkaður í 18 ár mundi foreldrum verða gert viðvart ef krakkar mættu ekki í framhaldsskóla og það yrði að taka á vandamálum 16 ára krakka í samvinnu við foreldra.

Í þriðja lagi vil ég nefna ábyrgð sveitarfélaga, ekki síst vegna þeirra unglinga sem eru atvinnulausir eða hætta í skóla. Átakið í miðbæ Reykjavíkur sýnir mjög vel hvað hægt er að gera þegar sveitarfélagið og lögreglan taka höndum saman. Að fjarlægja unga fíkniefnaneytendur úr miðbænum, bjóða þeim og foreldrum upp á meðferð og fræðslu, það hefur borið mjög góðan árangur að sögn lögreglunnar.

Ég sé að hæstv. félmrh. er genginn í salinn. Mig langaði að spyrja hann að lokum hvort hann sjái fyrirhugaða stofnun á fjölskylduráði eitthvað tengjast þessu máli. Ég tel það mjög mikilvægt mál þó að ég sé reyndar ekki jafnhrifin af því að tengja fjölskylduráð við Jafnréttisráð, en það er önnur saga. Þá vil ég einnig spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann hyggist beita sér eitthvað varðandi þá dómaframkvæmd sem hér tíðkast þó það væri ekki nema að víkka refsirammana til að dómskerfið fái skýr skilaboð.

Að lokum spurning til framkvæmdarvaldsins, t.d. dómsmrh. Stendur til að setja nýja löggjöf um þessi mál eins og kemur fram í áðurnefndri skýrslu og stendur til að stofna ávana- og fíkniefnaráð? Þessar spurningar mínar hafa skarast við spurningar annarra þingmanna og það sýnir bara að við þingmenn viljum að það sé unnið áfram í þessum málum, að tillögur liggi ekki bara í skýrsluformi heldur komist til framkvæmda.