Fíkniefna- og ofbeldisvandinn

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:18:07 (1848)

1995-12-12 16:18:07# 120. lþ. 60.91 fundur 135#B fíkniefna og ofbeldisvandinn# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur


[16:18]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að þessar umræður hafa verið mjög gagnlegar en þær hafa verið allt of stuttar vegna þess að fíkniefnavandinn hefur á sér svo margar ógnvekjandi hliðar að það hefði verið ástæða til að ræða þetta mál miklu ítarlegar heldur en hér hefur verið gert og vonandi gefst tækifæri til þess síðar á þessu þingi.

Sá harmleikur sem fíkniefnavandinn er og fíkniefnaneyslan snertir ekki bara einstaklinga og fjölskyldur sem í þessu lenda heldur er þetta dýrkeypt fyrir þjóðfélagið allt og eykur vissulega útgjöld víða þannig að það er nauðsynlegt að taka á þessu. Og ég vil enn ítreka ósk mína sem fram kom áðan að þetta er þannig mál að það eiga allir flokkar á þingi að koma að því. Það væri að mínu viti eðlilegt, og ég beindi því að vísu til ráðherra að skipaður yrði starfshópur með aðild allra flokka á þingi sem færi ofan í allar hliðar þessa máls.

Hæstv. dómsmrh. gagnrýndi það að ég ein hefði ekki verið með málefnalega umræðu. Ég vísa þessu á bug. Það hefði verið mjög óeðlilegt af mér ef ég hefði ekki vakið athygli á því sem upplýst er nú í þeirri umræðu sem fram fór fyrir helgi varðandi þá skýrslu sem nokkrir þingmenn hafa beðið um þar sem forsrh. upplýsti að útilokað væri að afgreiða þetta mál án þess að það kostaði mikinn tíma og peninga. Nú eru komnar upplýsingar frá því embætti sem helst á að svara þessum spurningum þar sem hið gagnstæða kemur fram og það er óeðlilegt að þingið hefði ekki verið upplýst um þá nýju stöðu sem upp er komin þannig að gagnrýni ráðherra vísa ég alfarið á bug.

Það er alveg ljóst að það sem fyrst og fremst þarf að gera í þessu máli eru forvarnir. Við komum alltaf að því aftur og aftur að það eru auknar forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir sem þarf að gera í þessu máli. Og það þarf vissulega að efla þann forvarnasjóð sem hæstv. heilbrrh. nefndi í sínu máli og ætti að gera það núna við fjárlagaafgreiðsluna.

Varðandi refsirammann sem hæstv. dómsmrh. kom inn á, þá er hann að mínu viti og fleiri sem hafa komið að þessu máli eina ástæðan fyrir því að það eru engin varnaðaráhrif í þeim dómum sem upp hafa verið kveðnir. Ég beini því til hæstv. dómsmrh. hvort ekki væri ástæða til þess að huga að því að setja eitthvert lágmark í refsirammann sem dómstólum væri gert að fara eftir.

Virðulegi forseti. Það er vissulega áhyggjuefni hvað hefur breyst í þessum málum á undanförnum árum. Bæði eru fíkniefnaneytendur orðnir yngri heldur en verið hefur, neyslan hefur vaxið gífurlega og það virðist vera tiltölulega auðvelt fyrir unga fólkið að ná í fíkniefni. Þetta er verulegt áhyggjuefni og það er mín ósk, og það skulu vera mín síðustu orð, að þetta mál verði á nýjan leik tekið upp á Alþingi síðar á þessu þingi þegar skýrslan væntanlega liggur fyrir sem nokkrir þingmenn hafa óskað eftir frá hæstv. forsrh.