Vatnalög

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:26:51 (1850)

1995-12-12 16:26:51# 120. lþ. 61.1 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 316 er lítið frv. til laga til breytinga á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Efni þessa frv. er að opna heimild fyrir sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Hinn 24. nóv. sl. barst mér erindi frá borgarstjóranum í Reykjavík þar sem komið var á framfæri áskorun borgarráðs þess efnis að ég flytti á Alþingi frv. um breytingu á 87. gr. vatnalaga. Sú breyting verði á þá leið að sveitarstjórnum verði heimilt að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur með sérstakri ályktun tekið undir þetta sjónarmið borgaryfirvalda í Reykjavík.

Í 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er heimild fyrir sveitarstjórn til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Það verður að telja eðlilegt að þess konar heimild sé einnig fyrir hendi varðandi holræsagjöld en vafi getur leikið á því að hækkun eða niðurfelling þeirra gjalda sé heimil án sérstaks ákvæðis í lögum. Því má við bæta að þetta frv. hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja þetta meira, enda er hér um afar einfalt mál að ræða og eðlilegt réttlætismál og ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari þetta mál til athugunar í hv. félmn.