Vatnalög

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:29:03 (1851)

1995-12-12 16:29:03# 120. lþ. 61.1 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:29]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á þessu sérkennilega máli, að það skuli þurfa að spyrja Alþingi um leyfi til þess að taka þær ákvarðanir sem þetta frv. mun leiða til að því er varðar álagningu tiltekins gjalds í Reykjavík. Það er nokkuð sérkennilegt að sveitarfélögin skuli vera í þessari stöðu, sveitarfélag eins og Reykjavík að það þurfi að leggja það fyrir Alþingi hvort það má lækka tiltekið gjald af elli- og örorkulífeyrisþegum í þessu tilviki.

Af þessu tilefni vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir því að sveitarfélögin fái rýmri heimildir í þessum málum en þau hafa í dag því það er augljóst mál að staða sveitarfélaganna í þessum efnum er óeðlilega þröng. Þá er ég ekki bara að tala um gjöld eins og þau sem hér um ræðir, fasteignagjöld eða fasteignatengd gjöld. Ég er líka að tala um ýmis önnur gjöld, t.d. það að komið hefur fram að því eru settar ákveðnar lagaskorður, og í raun og veru mjög þröngar lagaskorður, hvaða gjöld sveitarfélög taka fyrir tiltekna þjónustu, t.d. vatnsveitna, hitaveitna og rafmagnsveitna. Um þau efni gilda alveg tiltekin lögmál og tiltekin lög, t.d. er talið að það sé álitamál hvort stjórnvöld í þessu byggðarlagi hafi farið fullnærri þeim mörkum, en alla vega finnst mér að málið sé þannig að þarna sé allt of mikið þrengt að sveitarstjórnaryfirvöldum langt umfram það sem nokkur rök eru fyrir og beini þess vegna þessari fyrirspurn til hæstv. félmrh.