Vatnalög

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:30:59 (1852)

1995-12-12 16:30:59# 120. lþ. 61.1 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:30]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir að koma inn með þetta mál. Ég tel að hér sé um réttlætismál að ræða mun beita mér fyrir því að það fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. félmn. enda er þetta mjög einfalt mál.

Varðandi ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar um hinar þröngu heimildir sveitarfélaganna til gjaldtöku af ýmsu tagi, þá er það mál ekki eins einfalt og kannski virðist við fyrstu sýn. Við erum með til meðferðar í hv. félmn. frv. til laga um vatnsveitur og reyndar einnig frv. til laga um gatnagerðargjöld og í báðum þessum tilvikum kemur til athugunar með heimildir sveitarfélaganna til þess að ráða þessum gjöldum. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur í nefndinni gert athugasemdir við þessar þröngu heimildir og við svona ákveðna forræðishyggju ríkisvaldsins hvað þetta varðar.

En málið snýst m.a. um það að umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við gjaldtöku af ýmsu tagi vegna þess að fólk hefur leitað til hans og málið snýst um það hvað eru skattar og hvað eru þjónustugjöld. Þegar um það er að ræða að sveitarfélögin skilgreini það gjald sem þau eru að innheimta sem þjónustugjald, þá er þeim samkvæmt áliti umboðsmanns óheimilt að innheimta meira en þjónustan kostar. Þetta er algjört grundvallaratriði og það hefur einmitt komið til tals varðandi vatnsveiturnar, og hitaveitur reyndar líka, hvort eðlilegt sé að sveitarfélögin hafi af þessum stofnunum sínum meiri tekjur en þjónustan kostar og hvort þeim sveitarfélögunum sé þá heimilt að nota þær tekjur til annars.

Þetta er mál sem snertir t.d. Reykjavík gífurlega og skiptir mjög miklu máli því að þó að við höfum á undanförnum árum gagnrýnt það hvernig fyrrverandi meiri hluti í borginni fór með tekjur Hitaveitu Reykjavíkur og byggði mikla höll, Perluna, þá er ekki þar með sagt að maður fallist á það að hitaveitan eða vatnsveitan megi ekki hafa meiri tekjur. Þetta er að mínum dómi nokkuð flókið mál og spurningin sú hvort neytendur þjónustunnar eða þeir sem borga skattana eigi ekki alltaf að vita að hverju þeir ganga og það sé skilyrði hvort sem kveðið er á um það í lögum eða hvernig sem menn ákveða það, að þá sé alltaf vitað nákvæmlega hvert gjaldið er. En þetta er atriði sem þarf að skoða nánar.

Varðandi þetta frv. ítreka ég að þetta er hið besta mál og fær vonandi skjóta meðferð á hinu háa Alþingi.