Vatnalög

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:36:15 (1854)

1995-12-12 16:36:15# 120. lþ. 61.1 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:36]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, formaður félmn., sagði áðan að málið er ekki einfalt sem hér hefur verið hreyft og það má segja að það rekist á tvennt. Í fyrsta lagi ákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. þau ákvæði að skattlagningarvald er í höndum Alþingis og það má ekki framselja það, það er atriði númer eitt. Atriði númer tvö sem þetta mál rekst á, og þessi hugsun sem þetta mál hlýtur að vekja, er sú staðreynd að þjónustufyrirtæki sveitarfélaganna eru yfirleitt einokunarfyrirtæki. Það er Vatnsveitan í Reykjavík, það er Hitaveita Reykjavíkur, það er Rafmagnsveita Reykjavíkur. Þetta eru yfirleitt einokunarfyrirtæki þannig að það er ekki um að ræða samkeppnisaðhald að þessum fyrirtækjum. Þetta er alveg ljóst

Hitt er líka ljóst að t.d. Reykjavík hefur orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu frá því sem var með niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Það munar heilum milljarði kr. að talið er á ári og það er alveg ljóst að það ásamt öllum stórbyggingunum sem hvíla á borgarsjóði hefur orðið til þess að fjárhagur Reykjavíkurborgar er afar erfiður um þessar mundir. Þess vegna finnst mér sem Reykvíkingi full ástæða til þess að fara fram á það við hæstv. félmrh. að það verði tekið á þessum málum með hliðsjón af lögum og reglum og pólitískri samstöðu í landinu og allt það, bæði á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga og ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það litla sem hann sagði um þau efni áðan. Mér finnst að það sé svona í áttina því að þetta skiptir miklu máli, það er allt of mikið þrengt að sveitarfélaginu Reykjavík og fleiri sveitarfélögum eins og sakir standa.