Almannavæðing ríkisfyrirtækja

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 16:42:39 (1855)

1995-12-12 16:42:39# 120. lþ. 61.8 fundur 214. mál: #A almannavæðing ríkisfyrirtækja# þál., Flm. KB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[16:42]

Flm. (Kristjana Bergsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég flyt svohljóðandi till. til þál. um almannavæðingu ríkisfyrirtækja.

,,Alþingi ályktar að einkavæðing ríkisfyrirtækja skuli fara fram á þann hátt:

að fyrirtækjunum verði fyrst breytt í hlutafélög,

og síðan verði öllum fjárráða Íslendingum afhentur endurgjaldslaust jafn hlutur í hverju fyrirtæki.``

Með leyfi forseta, vil ég lesa greinargerð:

,,Það hefur verið gagnrýnt að við sölu fyrirtækja í eigu íslenska ríkisins sé hagsmuna eigenda, þ.e. alls almennings, ekki nægilega vel gætt. Við þessu telur flutningsmaður að Alþingi þurfi að bregðast án þess að afstaða sé tekin til einkavæðingar sem slíkrar. Við sölu ríkisfyrirtækja á síðasta kjörtímabili var ljóst af þeirri umræðu sem fram fór að almenningi er umhugað um að endurskoðaðar verði aðferðir við einkavæðingu þannig að hagsmunir eigenda, þ.e. íslenskra ríkisborgara, séu vel tryggðir, það kerfi sem notað er sé gegnsætt og réttlátt, og að engin leynd hvíli yfir neinu.

Ljóst er af reynslu annarra ríkja að við sölu ríkisfyrirtækja er verðlagning helsti vandinn. Í riti Alþjóðabankans frá 1992 um einkavæðingu og lærdóm reynslunnar er fullyrt að mat á verðmæti ríkisfyrirtækja til sölu séu ekki vísindi. Jafnvel á þróuðum fjármagnsmörkuðum sé sjaldgæft að tæknilegt mat á markaðsvirði eigna sem aldrei hafa verið seldar áður sé rétt.

Ef sala Lyfjaverslunar ríkisins er tekin sem dæmi er greinilegt að matsverð var of lágt áætlað í upphafi. Matsverð hlutabréfanna, sem seld voru í upphafi, var á genginu 1,34. Gengið er nú 2,10. Þau hafa því hækkað um 63,9% á innan við ári. Langir biðlistar mynduðust eftir bréfum sem seldust upp á nokkrum klukkutímum og fengu miklu færri en vildu --- þannig var þegnunum gróflega mismunað.

Sú aðferð að almannavæða ríkisfyrirtæki með því að afhenda ríkisborgurum hlutabréf hefur verið notuð m.a. í Bresku Kólumbíu í Kanada og einnig við einkavæðingu ýmissa fyrirtækja í Rússlandi, Rúmeníu og Tékklandi. Slík almannavæðing ætti einnig að vera auðveld í framkvæmd hjá svo fámennri og vel upplýstri þjóð sem Íslendingum. Afhendingin getur farið fram í áföngum til að aðlaga stjórnkerfi fyrirtækisins hægt að hinu nýja almenningseignarhaldi.

Ríkissjóður tapar af sölutekjum en á móti kemur að skatttekjur af söluhagnaði afhentra hlutabréfa verða hærri. Jafnframt má búast við meiri umsetningu bréfa og þeim mun meiri skráðum söluhagnaði en þegar fáum aðilum er selt fyrirtækið. Enn fremur má gera ráð fyrir auknum óbeinum skatttekjum hins opinbera vegna meiri auðs almennings í kjölfarið.

[16:45]

Hafa verður í huga að sala ríkisfyrirtækja á undirverði felur í sér skattlagningu allra nema kaupenda sem hljóta í raun styrk.

Með þessari aðferð [þ.e. almannavæðingu] má forðast mistök í verðlagningu og spara umtalsverðan kostnað sem fylgt hefur sölu ríkisfyrirtækja.`` --- Má nefna það hér að kostnaður við sölu Lyfjaverslunar ríkisins var 10.750.000. --- ,,Ekki má heldur gleyma þeim mikla ávinningi sem felst í því að sem flestir landsmenn taki beinan þátt í og ábyrgð á atvinnurekstri í landinu.

Allir landsmenn eru nú eigendur íslenskra ríkisfyrirtækja sem hafa verið keypt og byggð upp fyrir skattfé beint og óbeint. Nauðsyn ber til að hægt verði að koma í veg fyrir óeðlilega yfirtöku einokunarafla við sölu á ríkisfyrirtækjum.``

Ég vona að þessi tillaga fái góða umfjöllun hér á Alþingi og að við umræður og ákvarðanir um sölu ríkisfyrirtækja verði tekið tillit til þessara aðferða sem ég hef farið hér nokkrum orðum um, almannavæðingu og að hún sé tekin inn í umræður um þessi mál hér á þinginu.