Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 17:09:58 (1859)

1995-12-12 17:09:58# 120. lþ. 61.6 fundur 241. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur krókabáta) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[17:09]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirra athugasemda sem hér komu fram frá hv. 8. þm. Reykn. vil ég aðeins segja að auðvitað getur það komið til greina að gera breytingar á öðrum ákvæðum laganna um Þróunarsjóð. Ég hef hins vegar talið að það yrði að skoða í ljósi fjárhagsstöðu sjóðsins og skuldbindinga hans og hef gert ráðstafanir til þess að eiga fund með stjórn sjóðsins nú á næstunni til þess að fara yfir fjárhagsáætlun sjóðsins á næsta ári og á hvern veg sjóðstjórnin sér að skuldbindingum hans verði mætt á næstu árum. En ég vil alls ekki útiloka það að málefni eins og þetta sé rætt í tengslum við þetta mál en óska þó eftir því að það leiði ekki til tafa á framgangi þessarar sérstöku breytingar.

Varðandi það atriði sem hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi hér um og lýtur að endurnýjunarreglum er það að segja að það er rétt að nokkur óvissa hefur skapast eftir að aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna óskaði formlega eftir því að gildandi reglur um endurnýjun fiskiskipa yrðu endurskoðaðar og flotastýringarákvæði núv. fiskveiðistjórnunarlaga yrði afnumið með öllu. Þetta mál hefur verið til skoðunar og ég hef áður tekið undir með hv. þm. um að það þarf að hraða niðurstöðum í því en það var útilokað annað fyrir ráðuneytið þegar beiðnin var sett fram með svo formlegum hætti en að taka málið til skoðunar. Ég hef látið það álit mitt í ljós að það sé spurning um tíma hvenær þetta flotastýringarákvæði hverfur en talin veruleg tormerki á því að gera það nú, fyrst og fremst vegna þess að umgengni um auðlindina hefur verið mjög slæm og enginn vafi á því að ein ástæðan fyrir því er sú að það er ójafnvægi á milli veiðiheimilda og veiðimöguleika flotans. Ég tel að það sé svo mikilvægt og brýnt verkefni að ná tökum á umgengni um auðlindina og koma í veg fyrir þá slæmu umgengni sem viðgengist hefur að við megum ekki við því að stíga nein skref sem geta hrakið okkur af leið í því efni.

Þetta eru almennar hugleiðingar mínar um stöðu málsins en ég vænti þess að endanleg niðurstaða í málinu fáist innan skamms tíma en þakka að öðru leyti góðar undirtektir hv. þingmanns um framgang þessa máls.