Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. desember 1995, kl. 17:13:46 (1860)

1995-12-12 17:13:46# 120. lþ. 61.5 fundur 240. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar krókabáta) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur


[17:13]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða felur í sér lítils háttar breytingu. Í reynd er það svo að hér er verið að leggja til að leiðrétt verði mistök sem urðu við lagasetninguna á sl. vori. Ef hún stendur óbreytt verður ekki unnt að flytja veiðidaga frá vetrartímabilum krókabátanna yfir á sumartímabilin fyrr en á árinu 1997. Það var aldrei ætlun manna að svo yrði og því er lagt til að lögunum verði breytt þannig að þetta verði unnt þegar á næsta ári. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir því að heimilt verði að flytja ónýtta daga með sama hætti, þ.e. að þó að veiði sé hafin á tímabili þá verði unnt að flytja þá daga sem ekki hafa verið nýttir yfir á sumartímabilið.

En ég ítreka það sem ég hef áður sagt í umræðum um Þróunarsjóðinn að þess er að vænta að viðræðum ráðuneytisins við viðræðunefnd Landssambands smábátaeigenda ljúki í upphafi næsta árs og þá fáist heildstæð niðurstaða um nauðsynlegar breytingar á þessari löggjöf að því er lýtur að krókabátunum, en það er mjög mikilvægt að þessi afmarkaða breyting nái fram að ganga nú fyrir jólaleyfi þingmanna þannig að hún verði orðin að lögum í byrjun nýs árs.

Ég vænti góðs samstarfs við hv. þm. um framgang þessa máls og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.