Raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:37:39 (1867)

1995-12-13 14:37:39# 120. lþ. 63.1 fundur 141. mál: #A raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:37]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Raforkusamningsmál sem tengjast fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar í Straumsvík eru alltaf að taka á sig skoplegri myndir eða alvarlegri því að hér er ekki aðeins sagt af hæstv. iðnrh. að ekkert megi upplýsa á Alþingi Íslendinga um verð það sem samið er um vegna stækkunarinnar, verð við Ísal. En ekki aðeins það. Það má ekki gefa upp kostnað við fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Það tengist þessu máli. Það tengist þessari viðskiptaleynd. Það fer að verða erfitt fyrir Alþingi Íslendinga, sem þarf að standa að heimildum fyrir Landsvirkjun vegna þessara framkvæmda, að átta sig á því hvernig þetta mál er allt vaxið og ég held að það verði að fara að taka þetta einhverjum alvarlegri tökum af hálfu þingsins en gert hefur verið, þessari grafarþögn hæstv. iðnrh. sem ber fyrir sig viðskiptaleynd í sambandi við þessa samninga.