Raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:41:47 (1870)

1995-12-13 14:41:47# 120. lþ. 63.1 fundur 141. mál: #A raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:41]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Til þess að svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þá er það rétt hjá hv. þm. að til þess að geta séð um orkuafhendinguna samkvæmt þeim samningi sem núna hefur verið gerður milli Ísals og Landsvirkjunar, þá er ekki nauðsynlegt út af þeim eina samningi að ráðast í framkvæmdir við Steingrímsstöð. Hins vegar til þess að mæta væntanlegri aukningu á almenna markaðnum hér þegar til lengri tíma er litið, þá eru þessar framkvæmdir nauðsynlegar í Steingrímsstöð og í þær verður ráðist. Komi einnig til aukinnar orkusölu vegna nýrra samninga til stóriðju, þá er alveg ljóst að til þeirra framkvæmda þarf að grípa.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði athugasemdir við það að ekki skyldi vera hægt að fá upplýst hver væri kostnaðurinn við framleidda orkueiningu á vegum beggja þessara fyrirtækja. Það er svo að allir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi, að Þjóðvaka undanskildum reyndar sem eiga þó varamann í stjórn Landsvirkjunar, eiga fulltrúa í stjórninni. Það var einróma samþykkt í stjórn Landsvirkjunar að óska eftir því að farið yrði með þessar upplýsingar sem viðskiptaleyndarmál. (HG: Kostnað við virkjanaframkvæmdir.) Það sama kemur frá stjórnendum fyrirtækisins þar sem þess er óskað þegar beðið er um svar við þessari fyrirspurn að farið sé með þessar upplýsingar sem viðskiptaleyndarmál af þeirri ástæðu, hv. þm., að nú stendur fyrirtækið í samningum við fleiri aðila um hugsanlega orkusölu á næstu árum. Það er ekki þægilegt fyrir fyrirtækið að hafa allar þessar upplýsingar opinberar á sama tíma og verið er að semja við þá aðila sem vilja nýta sér eins hagstæð kjör og nokkur kostur er fyrir utan það að iðnrh. var beðinn um að fara með þessi mál sem trúnaðarmál og hann ætlar að virða og vill virða óskir fyrirtækisins í þessum efnum. Það finnst mér vera eðlilegt. Verði það ekki gert, þá væri trúnaðarbrestur milli stjórnar fyrirtækisins og iðnrn. Þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa í stjórn fyrirtækisins þá eiga einstakir þingmenn líka að geta haft greiðan aðgang í gegnum sína fulltrúa í stjórn fyrirtækisins að þeim upplýsingum sem hv. þm. óskar eindregið eftir að fá upplýsingar um.