Norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:46:06 (1872)

1995-12-13 14:46:06# 120. lþ. 63.2 fundur 209. mál: #A norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Því miður hafði ég ekki tækifæri til að sitja þessa norrænu karlaráðstefnu þar sem hún hófst annan eða þriðja daginn sem ég var í embætti og ég gat ekki verið þar viðstaddur en hefði haft áhuga á því að vera þar. En samkvæmt þeim fregnum sem ég hef haft dró formaður dönsku karlanefndarinnar, sem heitir Hans Bonde, saman helstu áhersluatriðin. Og þau voru þessi, með leyfi forseta:

1. Ógiftir foreldrar í sambúð fái sjálfkrafa sameiginlega forsjá barna sinna. Skoða þarf ítarlega stjórn yfirvalda á forsjármálum.

2. Réttur til foreldraorlofs á að vera einstaklingsbundinn þar með talinn launaréttur. Foreldraorlof þurfa að vera sveigjanlegri en nú er.

3. Bæði kyn skulu gegna herþjónustu en enginn sæta fangelsisdómi sem víkst undan herskyldu. --- Þetta kemur okkur nú ekki mikið við.

4. Karlmönnum þarf að fjölga í störfum á dagvistarstofnunum og í yngstu bekkjum grunnskóla.

5. Rannsaka þarf aðstæður drengja í skólum á Norðurlöndum.

6. Rannsaka þarf ofbeldi karla og leiða ofbeldishneigða karlmenn til ráðgjafar og meðferðar.

7. Rannsaka þarf áhættuhegðun karla t.d. eins og hún birtist í vinnuslysum.

Þriðja atriðið á sem sagt ekki við í okkar þjóðfélagi og það fyrsta kannski ekki nema að hluta. Í lok ráðstefnunnar sendi Norræna ráðherranefndin frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að ráðherrarnir væru sammála um að halda áfram starfi sem snýr að körlum og jafnrétti á eftirfarandi hátt:

1. Séð yrði til þess að hlutverk karla í jafnréttisstarfi kæmist á dagskrá kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

2. Norðurlöndin tækju þátt í sérfræðingaráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kóreu í desember 1995, en þessi ráðstefna var nú ekki haldin.

3. Norðurlöndunum ber að taka frumkvæði í rannsóknum á körlum og hlutverki þeirra í jafnréttismálum og samfélaginu sem heild og dreifa niðurstöðum til meðlima Sameinuðu þjóðanna.

4. Skýrslu ráðstefnunnar, Norrænir karlmenn, verði dreift á kvennaráðstefnunni í Peking.

5. Norrænu jafnréttisráðherrarnir munu leggja áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á þessum sviðum í ávörpum sínum á ráðstefnunni í Peking.

6. Norðurlöndin munu einnig ýta á þessi mál innan Evrópu, þ.e. í ESB og í Evrópuráðinu.

Í jafnréttisáætlun Norðurlanda fram að árinu 2000 er áhersla á möguleika samþættingar fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku og aukna möguleika karla til að vera með ungum börnum. Hérlendis er starfandi nefnd á vegum heilbrn. sem á að endurskoða lög um fæðingarorlof þar sem m.a. er stefnt að jöfnun réttar karla og kvenna. Um áramót lýkur starfstíma núv. karlanefndar Jafnréttisráðs en fyrir því er fullur vilji innan ráðsins að slík nefnd starfi áfram. Þrjú ráðuneyti, félmrn., heilbrn. og menntmrn., veittu fjárhagslega aðstoð við átak karlanefndarinnar, Karlar gegn ofbeldi, samanber punkt 6 í tillögum Bondes.

Herra forseti. Ég hef í undirbúningi að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu, aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar, og þar er tekið á ýmsum þeim þáttum sem getið er um í niðurstöðum þessarar karlaráðstefnu, t.d. eins og því að réttindi og skyldur sambúðarfólks verði skilgreind í lögum. Að vernd gegn ofbeldi verði efld jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis og vímuefnaneyslu verði auknar.

Þá er í þessari tillögu minni áform um að styrkja mjög Jafnréttisráð. Færa út verksvið þess og láta það líka yfirtaka málefni fjölskyldunnar í stað þess að í fyrri hugmyndum var hugmynd um að stofna sérstakt fjölskylduráð. Ég tel að það fari betur á því að efla Jafnréttisráð og gera það að fjölskyldu- og jafnréttisráði heldur en að fara að búa til nýtt fjölskylduráð með verksviði sem skarast á mjög mörgum sviðum við Jafnréttisráð því að fjölskyldumál verða ekki í góðu horfi nema jafnréttismál séu í heiðri höfð og jafnréttismál verða ekki í lagi fyrr en málefni fjölskyldunnar verða í lagi. Ég vil líka geta þess að í þessari tillögu er ákvæði um rétt beggja foreldra til fæðingarorlofs, þ.e. að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til töku fæðingarorlofs.

Herra forseti. Ég hef notað tímann minn. Um þetta væri ég fús að tala lengur en verð að láta þetta duga.