Norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:51:49 (1873)

1995-12-13 14:51:49# 120. lþ. 63.2 fundur 209. mál: #A norræn karlaráðstefna í Stokkhólmi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:51]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þessi svör. Mér fannst mjög athyglisvert það sem fram kom í hans máli. Það sýnir að ég hafði rétt fyrir mér hvað þetta varðar að það þarf að koma miklu betur á framfæri þessum niðurstöðum og þeirri umræðu sem átti sér stað á karlaráðstefnunni í Stokkhólmi. Þessar áherslur sýna að það er ýmislegt sem karlar þurfa að ræða sín á milli en jafnframt eru þarna viðkvæm mál sem snerta samskipti kynjanna, sem snerta réttindi foreldra, yfirráðarétt yfir börnum og fleira slíkt. Þessu þarf vissulega að fylgja eftir.

Varðandi það sem hæstv. félmrh. nefndi síðast um það að breyta Jafnréttisráði, að styrkja Jafnréttisráð, þá þarf maður að sjá þær tillögur, hvernig þær munu verða. Það er rétt að málefni kvenna sérstaklega, jafnréttismál og fjölskyldumál snertast að miklu leyti en það er líka ákaflega mikilvægt og er alls staðar stefnan þar sem ég þekki til að styrkja stöðu kvenna sérstaklega. Það má mjög gæta þess að fara ekki að þynna þau úrræði út með því að blanda málum of mikið saman. En vissulega fléttast þessi mál, málefni fjölskyldunnar sem heildar og svo staða kvenna. Þetta er mjög skylt en þarf ekki alltaf að vera það. Staða kvenna ræðst af ýmsu öðru.

En mig langar í framhaldi af því sem fram kom hjá hæstv. félmrh. að beina tveimur spurningum til hans og þá er fyrri spurningin þessi: Styður hæstv. félmrh. það að karlanefnd Jafnréttisráðs starfi áfram? Ég tel að það sé afar brýnt að hún fái að starfa áfram og nefni þar ekki síst það átak gegn ofbeldi sem hún stóð fyrir og var að mínum dómi afar merkilegt. Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. félmrh.: Er hann reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að hér verði komið upp sérstökum úrræðum fyrir þá karlmenn sem beita ofbeldi hvort sem það er gegn konum eða börnum? Þetta er afar brýnt mál að taka á, ofbeldismálum karla, að reyna að aðstoða þá menn sem beita ofbeldi þannig að því linni.