Fjöleignarhús

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 15:47:11 (1881)

1995-12-13 15:47:11# 120. lþ. 64.7 fundur 164. mál: #A fjöleignarhús# (eignaskiptayfirlýsingar og bílskúrar) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[15:47]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Hæstv. forseti. Eftir að lög þessi tóku gildi varð nokkur bið á því að reglugerð yrði sett til þess að fylgja einstökum ákvæðum laganna eftir, en þegar sú reglugerð leit dagsins ljós kom í ljós að þar var um nokkuð flókna hluti að ræða sem aftur sýndu fram á það að taka varð á nokkrum atriðum í lögunum. Þau atriði snúa fyrst og fremst að eignaskiptayfirlýsingum sem kveðið er á um við eignaskipti á íbúðum og þurfa að liggja fyrir þegar íbúðir eru keyptar og seldar. Í öðru lagi er kveðið á um það í frv. hvernig staðið skuli að þessum eignaskiptayfirlýsingum og hvaða kröfur skuli gera til þeirra sem vinna slíkar yfirlýsingar og er þar gengið út frá því að hér eftir þurfi sérstakt leyfi til þess að gera eignaskiptayfirlýsingar og að halda þurfi námskeið til þess að gera fólki kleift að vinna þetta verk sem orðið er býsna flókið. Í þriðja lagi er svo meginefni þessa frv. varðandi bílskúra og hvernig farið skuli með bílskúra í eigu utanaðkomandi aðila.

Nefndin hefur farið yfir þetta mál og kallað fjölmarga aðila á sinn fund og er skemmst frá að segja að það atriði sem einkum var gagnrýnt snýr að því að hér eftir skuli þess vera krafist að þeir aðilar, sem gera eignaskiptayfirlýsingar, skuli hafa sérstakt leyfi, en það komu fram afar sterkar röksemdir varðandi það atriði, að þetta væri einfaldlega það mikið og flókið verk að það væri rétt að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti.

Engu að síður vill félmn. leggja til nokkrar breytingar á frv. til þess að gera það skýrara.

Lögð er til breyting á 1. gr. frumvarpsins til skýringar á því hvenær allir eigendur fjöleignarhúss þurfi að undirrita eignaskiptayfirlýsingar. Er þar vísað til A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna, en í 9. og 10. tölul. þess stafliðar er tilvitnun til ákvæða 4. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 57. gr. laganna. Í þeim ákvæðum er annars vegar kveðið á um að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Hins vegar segir að húsfélag geti ekki tekið ákvarðanir gegn vilja eiganda sem feli í sér meiri og víðtækari takmarkanir á ráðstöfunar- og umráðarétti hans yfir séreign en leiði af ákvæðum laganna eða eðli máls. Í slíkum tilvikum þarf eignaskiptayfirlýsing fortakslaust að vera undirrituð af öllum eigendum, þ.e. ef leggja skal ríkari skyldur eða kvaðir á eigendur eða skerða rétt eigenda meira en gengur og gerist í sambærilegum húsum á grundvelli fyrirmæla laganna. Með sömu rökum er lögð til breyting á 4. gr. frumvarpsins.

Þá eru lagðar til breytingar á 2. gr. frumvarpsins. Breytingarnar eru í fyrsta lagi nánari útlistun á hvaða skilyrðum menn þurfi að fullnægja til að fá leyfi félagsmálaráðherra til að gera eignaskiptayfirlýsingar. Í öðru lagi er lögð til breyting sem felur í sér að þeir sem eftir leyfi sækjast þurfi ekki nauðsynlega að gangast undir próf til að fá leyfið heldur að sýna fram á það, m.a. með verkum sínum að þeir standist þessar kröfur. Nefndin telur að ýmsir aðrir kostir en próf komi til greina.

Þá vill nefndin koma því sérstaklega á framfæri vegna athugasemda sem fram komu hjá lögmönnum að þess verði gætt við samningu reglugerðar á grundvelli þessara breytinga á lögunum að skoðað verði sérstaklega hvort ástæða sé til að leyfishafi taki sérstaka starfsábyrgðartryggingu. Slíkt tíðkast mjög á hinum almenna markaði þar sem menn eru að tryggja sig, einkum fyrir gáleysisbrotum. Þess var einnig getið að menn tryggðu sig fyrir ásetningsbrotum, en það er nokkuð sérstakt og á ekki við í þessu tilviki.

Þá er þess að geta, hæstv. forseti, að við 1. umr. um þetta mál kom fram brtt. frá Kristínu Halldórsdóttur sem snertir dýrahald, þ.e. hunda og ketti, í fjöleignarhúsum. Nefndin tók ekki afstöðu til þessarar tillögu en hún kemur að sjálfsögðu til atkvæða. Hins vegar kom það fram í umfjöllun nefndarinnar að sá ótti sem var uppi þegar þessi lög voru til samþykktar á sínum tíma hefur reynst ástæðulaus. Eins og formaður Húseignafélags Reykjavíkur komst að orði, þá áttu menn von á miklu blóðbaði í fjöleignarhúsum landsins en það varð ekki heldur hefur eftir því sem best er vitað náðst ágætis samkomulag um það hvernig þessum málum skuli háttað og því er það spurning hvort þörf sé á þessari tillögu, en alþingismönnum gefst kostur á því að taka afstöðu til þess þegar þar að kemur.

Hæstv. forseti. Undir nefndarálitið rita auk mín Kristján Pálsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Magnús Stefánsson, Drífa Sigfúsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir en Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.