Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:37:15 (1891)

1995-12-13 16:37:15# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. gerði skýran greinarmun á því sem hann kallar skráningargjald og því sem hann kallar skólagjald. Ég tel að það sé hrein blekking þegar menn ræða með þessum hætti. Ég tel að skrásetningargjaldið sem hér er um rætt sé ekkert annað en skólagjald. En gott og vel. Hæstv. ráðherra segir, og byggir þá á áliti umboðsmanns, að það sé ekki hægt að leggja á skrásetningargjald nema sem þjónustugjald en þá verður líka að afmarka rækilega þá kostnaðarliði sem verið er að greiða fyrir. Þeir eru afmarkaðir hérna. Þar kemur fram að þetta er skráning stúdenta í námskeið og próf, varðveisla upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, o.s.frv. Þarna er löng upptalning þannig að maður hlýtur þá að gera ráð fyrir því, út frá því sem hæstv. ráðherra segir, að menn hafi sest niður og metið það hvað er mikill kostnaður fólginn í því að sinna þessum tilteknu þáttum sem hér eru taldir upp fyrir sérhvern stúdent. Út frá því eiga menn að komast að einhverri tölu og það er skrásetningargjaldið. Það er skrásetningargjaldið og ekkert annað sem er löglegt samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis. En eigi að síður kemur það fram í greinargerðinni, um 1. gr. og reyndar í máli hæstv. ráðherra, að þessi upphæð, 24 þús. kr., er ekki byggð á þessum kostnaðarliðum sem skrásetningargjaldið á að þekja heldur er hún ekkert annað en framreiknuð upphæðin sem sett var á í fyrra og var dæmd ólögleg. Þannig að ég get ekki séð annað en að það gjald sem hæstv. ráðherra er hér að leggja fram sé jafnólöglegt og það gjald sem lagt var á af forvera hans.