Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:50:38 (1900)

1995-12-13 16:50:38# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:50]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Eins og alkunna er sá Sjálfstfl. ástæðu til þess að skipta um menntmrh. þegar núv. ríkisstjórn var mynduð. Menn hafa beðið nokkuð spenntir eftir því í allt sumar og allt haust að fá að sjá í reynd hvers vegna Sjálfstfl. skipti um menntmrh. Við höfum beðið eftir því hér á þinginu í haust að fá í hendur hin nýju frv., tímamótafrv., sem útskýrðu nauðsynina á því að nýr maður tæki við að stjórna menntmrn. Nú virðist það einna helst vera að koma í ljós undir lok ársins, á áttunda mánuði eftir að hinn nýi ráðherra tók við stjórn ráðuneytisins að það eina sem hann flytur þinginu eru gömlu frumvörpin frá fyrirrennara sínum. Gömlu frumvörpin frá hæstv. menntmrh., Ólafi G. Einarssyni. Ég sé ekki að það hafi þurft að skipta um mann í menntmrn. til að koma með þessi gömlu frv. Að vísu hefur hæstv. menntmrh., á öðrum vettvangi, gerst brautryðjandi nýjunga. Hann hefur annars vegar tekið að sér í íhlaupum stefnumótandi verk fyrir utanrrh. og svo hefur hann tekið það að sér, eini menntmrh. á Vesturlöndum, að mæla með tilteknum bókum í opinberum fjölmiðli sínum. Ég hélt satt að segja að það væri liðinn sá tími á Íslandi að valdsmenn væru að mæla með bókum og gefa út opinbera línu um það hvað væru góðar bækur. Það eru aðeins tvær bækur af öllum þeim mikla fjölda ritverka, fræðirita, bókmenntaverka, ljóðabóka, sem hæstv. menntmrh. telur þess virði að vekja athygli alþjóðar á í þeim sérstaka miðli sem hann hefur komið sér upp --- og er í sjálfu sér þakkarvert og ber að hæla honum fyrir það að nýta sér tæknina til að eignast þennan sérstaka miðil. En óneitanlega finnst manni það nú sérkennilegt að hæstv. ráðherra skuli nýta hann með þessum gamla hætti. Ég hélt satt að segja að forræðishyggja valdsmanna af þessu tagi heyrði liðinni tíð til. En það er greinilega ekki. Það er bara gamla frjálshyggjuhugmyndafræðideildin sem hæstv. menntmrh. mælir með en ekki ljóðskáldin, ekki höfundar skáldsagnanna, ekki aðrir fræðimenn. Ekki þýðendur á erlendum gullaldarbókmenntum. Það er bara gamla frjálshyggjudeildin.

En það er nú ekki til umræðu hér heldur sú ganga hæstv. menntmrh. að koma bara með gömlu verkin frá fyrirrennara sínum og leggja þau fyrir þingið. Og til þess að það sé nú eitthvert nýjabrum af þessu þá reynir hæstv. menntmrh. að koma með þá sérkennilegu kenningu að það sé einhver munur á skrásetningargjöldum og skólagjöldum og munurinn sé helst fólginn í upphæðinni.

Nú er hægt að vekja athygli á því að í mörgum deildum háskólans innritast á fyrsta ári rúmlega tvöhundruð nemendur og í sumum jafnvel fleiri. Hlutur háskólans í einni deild af rúmlega 200 nemendum samkvæmt þessu gjaldi er í kringum 4 milljónir. Það tíðkast líka í sumum þessara deilda að námskeið, m.a. á fyrsta ári, eru í höndum stundakennara. Tekjurnar af þessu gjaldi fyrir háskóladeild sem er með rúmlega 200 nemendur á fyrsta ári nægir fyrir kennslukostnaði fimm námskeiða ef þau eru í höndum stundakennara og nægir fyrir árslaunum tæplega þriggja fastráðinna háskólakennara. Svo er hæstv. menntmrh. að reyna að halda því hér fram að þessar upphæðir séu svo lágar að þær mælist ekki í eðlilegum kennslu- og rekstrarkostnaði háskólans heldur tengist bara einhvers konar skrásetningu.

Ég held að það sé líka rétt fyrir hæstv. menntmrh. að átta sig á því að það gengur mjög erfiðlega fyrir háskólastúdenta að afla sér tekna utan námsins. Það er því miður nokkuð algengt að heildartekjur háskólastúdenta séu á bilinu 150--200 þús. kr. fyrir þá vinnu sem þeir geta fengið utan námstíma. Hér er verið að tala um upphæð sem getur numið 10--15% af heildartekjum háskólastúdenta sem þeir geta aflað sér með hefðbundinni vinnu námsmanna á Íslandi. Finnst hæstv. menntmrh. það lítið hlutfall? Finnst hæstv. menntmrh. það vera góð skipan að háskólastúdent þurfi að verja 10--15% af heildartekjum sínum í þessi gjöld? Eða á þá svarið að vera að vísa stúdentinum á lánasjóðinn? Það eru margir stúdentar sem telja að kjör lánasjóðsins séu orðin slík að það beri að forðast í lengstu lög að taka slík lán. Það er þess vegna alveg ljóst að hér er verið að lögbinda innheimtu sem gerir háskóladeild með rúmlega 200 nemendur á tilteknu ári kleift að fjármagna næstum því launakostnað allrar kennslunnar á því ári með þeim tekjum sem háskólinn fær í sinn hlut. Það er þess vegna ekki hægt, hæstv. menntmrh., að vera hér með einhverja orðaleikfimi um það að þetta séu bara skrásetningargjöld en ekki skólagjöld.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort honum finnist eðlilegt að námsmenn þurfi að borga 10--15% af heildartekjum sínum í gjöld til háskólans, lögbundin gjöld. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að deild sem er með rúmlega 200 nemendur í árgangi geti fjármagnað kannski alla kennsluna á heilu missiri, á öðru missirinu með, slíkum tekjum? Hvar byrja þá skólagjöldin samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hæstv. menntmrh. var með hér áðan ef þetta eru ekki skólagjöld?

Auðvitað er það alveg rétt sem hefur komið fram í umræðunni að hér er hæstv. menntmrh. eingöngu að flytja inn á þingið sömu viðhorf, sams konar verk og hæstv. forseti þingsins, fyrrv. menntmrh., var gagnrýndur mjög fyrir á sínum tíma.

Kannski er ekki eðlilegt við umræðu um þetta frv. að taka til meðferðar spurninguna um stefnumótun í menntmrn. En ég verð þó að segja það hér að ég átti von á því að þegar til haustþings kæmi þá mundi nýr menntmrh. sýna það í verki á þinginu að hann ætlaði að hafa forustu fyrir því að framkvæma það sem allir flokkar voru sammála um í síðustu kosningum og sem allir fræðimenn um efnahagsþróun og þjóðfélagslegar framfarir á Vesturlöndum eru sammála um, að fjárfesting í menntun, uppbygging skólakerfis, vöxtur tæknistofnana og háskólastofnana er forsenda fyrir velferð í framtíðinni.

[17:00]

Hér er íslenska ríkið að fagna því mjög að það hafi tekist samningar um stækkun álversins og Landsvirkjun er reiðubúin að leggja í fjárfestingar í þeim efnum. Engu að síður er það sannað af efnahagssérfræðingum að fjárfesting í menntun skilar meiri arði til lengdar heldur en fjárfesting í frumvinnslu á sviði orkugreina. Það er þess vegna spurning um efnahagslega forustu. Um lífskjör þessarar þjóðar í framtíðinni, hvort hæstv. menntmrh. hefur burði til þess að berjast fyrir þeirri stefnu sem hans flokkur og aðrir flokkar kynntu þjóðinni í kosningunum sl. vor að ætti að ráða ríkjum hér á Íslandi næstu fjögur árin. En við virðumst því miður vera komin með menntamálaráðherra sem er enn þá í gömlu skúffunum hjá fyrirrennara sínum. Ég vil hvetja hæstv. menntmrh. til þess að taka höndum saman við þá hér á Alþingi sem eru reiðubúnir til þess að styðja hann í raunverulegum og efnismiklum breytingum varðandi menntakerfið á Íslandi.

Hvað var gert í Svíþjóð þegar jafnvel hægri stjórnin þar fór í öflugan niðurskurð til þess að glíma við erfiðleika ríkisfjármálanna þar í landi? Skar sænska hægri stjórnin niður til menntamála? Nei. Sænska hægri stjórnin jók framlög til menntamála. Þannig er hægt að nefna hægri flokka víða í Evrópu sem eru við völd á erfiðum tímum í efnahagsmálum þeirra landa, en engu að síður láta þeir menntamálin hafa forgang og auka fjármagnið til menntamála. Því þeir gera sér grein fyrir því að þjóðir sem ekki byggja upp menntakerfi sitt í anda þeirrar kröfugerðar sem mun ráða ríkjum í alþjóðlegri samkeppni á nýrri öld, þær munu smátt og smátt dragast aftur úr hvað sem líður fjárfestingum í stórvirkjunum eða á öðrum sviðum. Þess vegna ber hæstv. menntmrh. að mínum dómi meginábyrgð allra ráðherra í ríkisstjórninni á efnahagslegum framförum Íslendinga á nýrri öld. Það er enginn ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem stjórnar ráðuneyti sem er mikilvægara fyrir efnahagsþróun þjóðarinnar heldur en hæstv. menntmrh. Hæstv. viðsk.- og iðnrh. er bara með örlítið brot af því sem mun ráða úrslitum í efnahagsþróun Íslendinga á nýrri öld. Og mér finnst það miður ef nýr hæstv. menntmrh., sem kannski fyrstur manna í því embætti um langa hríð hefði getað treyst því að ná breiðri samstöðu allra flokka á Alþingi til stuðnings mikilli sókn í menntamálum, skuli svo vera að dunda við það að setja inn á Internetið sérstök meðmæli með útgáfuritum frjálshyggjudeildarinnar í stað þess að vera hér á þingi til að hafa forustu um raunverulegar þjóðfélagsbreytingar í þessum efnum.

Við höfum í flokkum stjórnarandstöðunnar ekki verið að gagnrýna hæstv. menntmrh. síðan hann tók við embætti. Hann er líklegast eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem við höfum gefið fullkominn frið í þessa átta mánuði til þess að sýna hvort hann væri reiðubúinn og ætlaði sér að móta hér nýja stefnu. Það hefur verið tekin lota á hæstv. heilbrrh. Það hefur verið tekin lota á hæstv. landbrh. Það hefur verið tekin lota á hæstv. iðn.- og viðskrh. að ógleymdum forsætisráðherranum og ýmsum öðrum ráðherrum og fjármálaráðherranum. En hæstv. menntmrh., ef frá er talin þessi sérkennilega ,,affera`` um herinn á Íslandi sem ég tel nú vera fyrir utan embættissvið ráðherrans, hefur fengið fullkominn frið. Og satt að segja frekar fengið góðan anda og góð orð úr okkar herbúðum. Að við væntum okkur þó nokkuð mikils af því að fá nýjan kraft í þetta ráðuneyti. Mér þykir leitt ef það er nú að koma í ljós með þessu frv. og öðru því sem er að gerast hér undir lok ársins að það hafi í raun og veru ekkert gerst.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka það sem ég dró fram áðan, að það gjald sem þetta frv. fjallar um er umtalsvert gjald. Það er af þeirri upphæð að það er kleift fyrir háskóladeild með rúmlega 200 nemendur í árgangi, sem er algengt, sumar deildir hafa mun fleiri, að fjármagna upp undir heils árs kennslu með skólagjöldunum einum. Það geta menn séð einfaldlega með því að reikna dæmið sjálfir.

Hér er verið að lögbinda gjaldtöku sem getur numið 19--15% af heildartekjum námsmanna. Það er auðvitað ekki eðlilegt að innleiða slíka gjaldtöku án þess að þora þá að viðurkenna að það er um skólagjöld að ræða. Að klæða það í einhvern búning, eins og hæstv. menntmrh. var að reyna að gera hér áðan, að þetta væru ekki skólagjöld heldur miklu sakleysislegra fyrirbæri sem héti skrásetningargjöld, gengur einfaldlega ekki upp.