Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 17:06:46 (1901)

1995-12-13 17:06:46# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[17:06]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur margt rifjast upp fyrir mér við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og ég var í rauninni ekki búin undir þegar hún hófst og átti satt að segja ekki von á því að það yrði farið að ræða þessi mál hér rétt undir þinglok. Og ég spyr mig og hæstv. forseta þeirrar spurningar: Hvers vegna er verið að verja tíma þingsins í þessi mál núna þegar m.a. við sem erum að reyna að stýra nefndum þingsins erum ákaflega aðþrengd í tíma og það gengur erfiðlega að finna tíma fyrir nefndarfundi? Það eru m.a. boðaðir tveir nefndarfundir í kvöld kl. 8. Mér þykir þetta nú sannast að segja sérkennileg ráðstöfun á tímanum. Ég fæ ekki séð að það sé nauðsyn á því að afgreiða þessi frv. á næstu dögum og hefði svo sannarlega mátt bíða þar til eftir áramót því það verður ekki fyrr en með vorinu sem farið verður að skrá stúdenta til náms fyrir næsta vetur og það sem gert var á þessu hausti er auðvitað allt saman búið og gert þó það hafi vantað lagastoð.

En það er fróðlegt hér við þessa umræðu að rifja það upp hvernig málum var háttað þegar síðasta ríkisstjórn lagði til atlögu við skólagjöldin. Ég vil rifja það upp sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að það var ekki bara í háskólunum sem átti að taka upp skólagjöld heldur í öllum framhaldsskólum landsins. Það tókst að koma í veg fyrir að tillagan um framhaldsskólana næði fram að ganga. Það var fallið frá henni en það var haldið við tillöguna um skólagjöld --- og ég kalla þetta ekkert annað en skólagjöld, það er búið að taka upp mun hærri gjöld á háskólastiginu heldur en voru við lýði fyrir nokkrum árum. Menn þurfa ekki að kalla hér til sögunnar Samvinnuháskólann á Bifröst. Hann er einkaskóli. Verslunarskóli Íslands er líka einkaskóli. Þó að báðir þessir skólar hljóti einhvern styrk eða fjármagn frá ríkisvaldinu þá eru það skólar sem eru reknir með allt öðru sniði og þeir eru ekki sambærilegir við þá skóla á háskólastigi sem eru fyllilega í eigu íslenska ríkisins.

En mér fannst ástæða til þess, hæstv. forseti, að rifja það upp að þegar sú tillaga kom fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 --- ég held að ég fari rétt með að það hafi verið um áramótin 1992--1993 sem þessi deila átti sér stað um skólagjöldin --- þá var svokallað innritunargjald í Háskóla Íslands 7.700 kr. Þar af runnu 2.000 kr. til háskólans. Afgangurinn fór til stúdentaráðs. Í rauninni var það þannig að það var skrifstofa háskólans sem sá um innheimtu fyrir stúdenta til þeirrar starfsemi sem stúdentar inntu af hendi. En það voru 2.000 kr. sem runnu til háskólans og það var m.a. rökstutt með því að þetta væri t.d. til þess að prenta skólaskírteini fyrir nemendur sem kom þeim að miklu gagni og reyndar fyrir kennsluskrá og fleira. Ég man að mér var tjáð á þeim tíma að þetta 2.000 kr. gjald reyndar dygði ekki fyrir því sem fælist í innrituninni. En háskólinn hafði ekki verið með neinar hugmyndir um það að fá meiri peninga til þeirra hluta. Þannig að það sem gerðist með þeirri tillögu sem samþykkt var 1992 var auðvitað ekkert annað en það að verið var að sækja peninga til námsmanna í rekstur háskólans. Það er ósköp einfalt mál. Það var bara verið að sækja peninga í reksturinn. Þess vegna vakna þær spurningar varðandi þessar 24 þús. kr. sem hér er verið að ræða um og hluti af þeim fer til stúdenta, fyrst 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 10% til sérstakra verkefna. Það segir í frv. ,,allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta``. Nú man ég ekki betur en að stúdentaráð Háskóla Íslands séu sérstök samtök við þann skóla og Félagsstofnun stúdenta er stofnun sem annast ýmiss konar starfsemi. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta kemur út gagnvart stúdentaráði vegna þess að starfsemi stúdentaráðs hefur verið fjármögnuð af þessum peningum og það er svolítið annað heldur en Félagsstofnun stúdenta. Þannig að ég þarf að kynna mér betur hver hugsunin er í þessu máli. En auðvitað fléttast þetta aðeins saman því Félagsstofnun stúdenta sér m.a. um húsnæði fyrir stúdentagarðana og fleira slíkt. En starfsemi stúdentaráðs hefur verið aðskilin. Síðan er í frv. gert ráð fyrir að allt að 10% af gjaldinu fari til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli háskólans og stúdentaráðs Háskóla Íslands sem háskólaráð staðfestir. Ég reikna með að þarna sé verið að ræða um eitthvað allt annað en þessa daglegu starfsemi stúdentaráðs.

Ég kannast við það eins og flestir þingmenn að það hafa komið upp raddir meðal stúdenta í háskólanum um það hversu réttmætt sé að þeir greiði þessi gjöld og ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að menn átta sig ekki á því hvaða starfsemi fer þarna fram. Ef slík umræða hefði komið á þeim tíma þegar ég var við nám í Háskóla Íslands og allt logaði þar í pólitískum deilum og þegar starfsemi stúdentaráðs gekk meira og minna út á það að skipuleggja mótmælagöngur og hápólitíska fundi og 1. des. samkomur snerust einkum um kreppu auðvaldsins og fleira í þeim dúr, þá hefði ég skilið slíkar raddir. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og staðreyndin er sú að stúdentaráð Háskóla Íslands er orðinn ákaflega faglegur aðili. Það er ákaflega faglegt. Það sinnir miklu meira innra starfi háskólans. Það hefur beitt sér mjög kröftuglega í þágu háskólans til að efla hann og má þá minnast á öll póstkortin sem rigndi yfir okkur þingmenn í fyrra þegar verið var að vinna að hærri fjárveitingum til háskólans, og eins og hér hefur verið minnst á í umræðunni, þau Hollvinasamtök sem stúdentar áttu frumkvæði að að stofna, þannig að starfsemi stúdentaráðs er nú með nokkuð öðrum hætti og í þágu háskólans og í þágu allra stúdenta. Það er því býsna sérkennilegt að mínum dómi þegar námsmenn eru að reyna að komast hjá því að greiða gjöld til stúdentaráðs. En ég átta mig ekki á því, samkvæmt þessu frv., hvernig stúdentaráð kemur inn í þetta. Eins og ég nefndi er einungis minnst á Félagsstofnun stúdenta sem, eins og ég sagði, gegnir öðru hlutverki.

[17:15]

En meginmálið hér er að sú upphæð, sem stúdentar greiddu fyrir aðeins þremur árum, hefur meira en þrefaldast síðan þá. Hér er verið að festa í lög að það sé heimilt að taka þessi gjöld af stúdentum, svokölluð innritunargjöld, og við vitum að það fer hluti af þessum gjöldum til reksturs háskólans og þar með eru þetta orðin skólagjöld. Þetta eru skólagjöld þegar hluti af fjármagninu fer til þessa reksturs. Ég vildi sjá nánari útlistun á því sem hér er talið upp, hvað þetta kostar nákvæmlega sem hér er verið að tala um. Hvað kostar þetta nákvæmlega, þessi skrásetning og þessar upplýsingar? Það er nefndur hér aðgangur að deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis. Fellur þetta undir innritunargjöld? Þetta er bara hluti af starfsemi háskólans. Deildaskrifstofur eru bara hluti af þeirri þjónustu sem alltaf hefur verið veitt í Háskóla Íslands. Af hverju á að taka einhver gjöld fyrir það núna? Allt í einu er það orðinn hluti af innritunargjöldum, þjónusta sem hefur verið veitt um áratuga skeið. (ÓRG: Og er aðallega fyrir kennarana en ekki nemendur.) Já, fyrst og fremst. Að vísu kemur fyrir að nemendur þurfa að leita upplýsinga þar. En þetta er allt á sömu bókina lært og ég vil bara taka undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram.

Hér er gengið út frá því að þessi upphæð verði skoðuð árlega og væntanlega hækkuð í samræmi við vísitöluhækkanir eða þær hækkanr sem verða milli ára. Það má kannski segja að það sé hið eina jákvæða við þetta að það kemur þá alla vega fyrir Alþingi ef menn ætla sér að hækka þessi gjöld. Það gerist þá ekki þegjandi og hljóðalaust þó að þessi upphæð hafi hækkað nokkuð síðan 1992. En ég lýsi mig andvíga því að taka upp skólagjöld. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að okkar ríkisskólar eigi að bjóða nemendum upp á ókeypis nám. Ég hef alltaf stutt það að nemendur geti tekið sín gjöld eins og þeir gera og hafa lengi gert og renna til ýmissa verkefna sem þeir eru að vinna að. Það var mikið rætt á sínum tíma þegar verið var að ræða um innritunargjöld eða skólagjöld í framhaldsskólana að það væru innheimtir tugir milljóna í framhaldsskólunum sem enginn vissi í hvað færu. En ég margskýrði það á sínum tíma að það væru peningar sem væru í sjóðum skólanna og væru notaðir til aðstoðar nemendum sem áttu í erfiðleikum, notaðir til þess að styrkja kórastarf, uppsetningu leiksýninga og fleira slíkt til þess að skólinn hefði úr einhverju að moða. Þetta voru oft 1.000 kr. á nemanda safnað saman innan skólanna með þessum hætti. Það væri gaman að fá það upplýst hjá hæstv. menntmrh. hvernig er með þær 3.000 kr. sem innheimtar voru og er af nemendum framhaldsskólanna. Hvernig er það gjald skilgreint? Til hvers fer það gjald og hefur sú upphæð hækkað? Það voru 3.000 kr. þegar upphæðin var samþykkt á sínu tíma og ég hef einfaldlega ekki orðið neins staðar vör við þessa upphæð. Hver hún er orðin núna? Hvernig er hún skilgreind? Fyrir hvað er hún? Það væri fróðlegt að fá það upplýst hér.

En aðalatriðið er þetta, hæstv. forseti, að hér er auðvitað verið að lögfesta skólagjöld og sú hætta er þar með fyrir hendi að þau geti hækkað á næstu árum, en því er ég algerlega mótfallin.