2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:42:26 (1906)

1995-12-14 10:42:26# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:42]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er háttur þingmanna þegar mál af þessu tagi koma upp um vinnubrögð á þingi að líta til fordæma. Oft og tíðum er sá samanburður mjög yfirborðskenndur og raunverulega villandi. Staðreyndin er sú að við göngum nú til 2. umr. fjárlaga og það er meginefnisumræðan og það er til þess ætlast að fyrir liggi í fram lögðum tillögum og álitsgerðum stefna stjórnvalda að því er varðar fjárlög og ríkisfjármál. Jafnframt er sú krafa gerð að stjórnarandstaðan leggi fram sínar brtt. og marki sína stefnu og sé reiðubúin til þess að tala fyrir henni.

Nú vill svo til, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki fram og þetta er ekki hægt. Ég kann engar skýringar á því hvað veldur vandræðagangi stjórnarliða, en ég veit að sú krafa verður ekki af sanngirni gerð til stjórnarandstæðinga að þeir leggi fram sínar breytingartillögur ef þeir hafa ekki séð hverjar eru tillögur ríkisstjórnarinnar að því er varðar rúmlega 40% eða upp undir helming af fjárlögum. Það sem þess vegna er aðeins unnt að gera af hálfu stjórnarandstæðinga er að leggja fram sínar tillögur miðað við upphaflega fram lagt fjárlagafrv. Það þýðir að þessi umræða er ómerk. Það er þannig staðið að málum að þessi umræða getur ekki gegnt sínu hlutverki. Ég beini því til hæstv. forseta að skoða það. Hér er ekki rétt að málum staðið og í raun og veru þýðir það að því ætti að beina til hæstv. forseta í nafni þingsins og í nafni vinnubragða og þingskapa að hann mælist til þess að þessari umræðu verði frestað.

Því til viðbótar kemur síðan sú umræða sem hv. síðasti ræðumaður nefndi að því er varðaði bandorminn og er tilefni alveg sérstakrar umræðu.